Leitin að hinum eina sanna

Jóhanna Margrét Einarsdóttir

Jóhanna Margrét Einarsdóttir blaðamaður skrifar

Ég á nokkrar ógiftar vinkonur, konur sem eru ekki í föstu sambandi. Þær dreymir samt flestar um að finna sér sálufélaga. Allar eru þær sammála um að nýja kærastann sé ekki að finna á skemmtistöðum eða börum bæjarins. Þær hafa því skráð sig á ýmsa makaleitarvefi og Tinder.

Ein þeirra sem hefur skráð sig út og inn af Tinder síðustu misseri segir mér að þar sé fátt um fína drætti fyrir konu sem er að nálgast fimmtugt. Hún nenni ekki að eyða tíma í gamlar fyllibyttur, geðsjúklinga eða menn sem eru með allt niður um sig í fjármálum. Það séu hins vegar þeir sem helst reyni að komast í samband við hana.

Síðast eftir að hún skráði sig á Tinder eftir nokkurra mánaða fjarveru þaðan skráði hún sig 39 ára. Hún sagði mér að viðbrögðin hefðu verið mun betri en þegar hún skráði réttan aldur sinn. Það hefðu meira segja dottið inn nokkrir ágætis menn á hennar rétta aldri. Hún komst á nokkur deit og varð meira að segja nokkuð hrifin af einum þeirra sem hún hitti. Gamanið kárnaði hins vegar þegar maðurinn komst að því að hún var um það bil tíu árum eldri en hún hafði sagst vera. Hann fór í fýlu þrátt fyrir að hann hefði mært hana á fyrri deitum, bæði fegurð hennar og andlegt atgervi. Ævintýrið endaði með því að hann sagði bless og sagði henni í leiðinni að hann væri að leita sér að yngri konu en hann væri sjálfur. Hún spurði á móti nokkuð hvasst hvort hann væri að leita að öldrunarhjúkrunarkonu.

Við stöllurnar hittumst fyrir nokkru og vorum að ræða þessi mál og hvernig leitin að hinum eina sanna gengi, og hvað þær sæju fyrir sér hittu þær hinn eina rétta. Enga þessara vinkvenna minna langaði í sambúð, þær langar hins vegar að eiga vin sem þær geta hitt þegar þær vilja og hafa tíma til. Þær vilja skuldbindingalaust samband. Félaginn sem þær langar til að eiga er einungis til þess ætlaður að eiga gæðastundir með honum. Fara í ferðalög, bíó, út að borða eða hvað annað sem konum á miðjum aldri finnst skemmtilegt að gera. Þær vilja hins vegar eiga sitt sjálfstæða heimili þar sem þær ráða ríkjum einar.

Þetta stemmir við opinberar tölur því samkvæmt þeim kjósa sífellt fleiri að búa einir og það einskorðast ekki við ungt fólk. Fólk á öllum aldri vill frekar búa eitt en með öðrum. Því hefur löngum verið haldið fram að maður sé manns gaman og því væri gaman að fá góða rannsókn á því hvað veldur því að fólk kýs að búa eitt. Er það vaxandi sjálfselska eða hefur fólk það betra fjárhagslega og á því auðveldara með að standa eitt undir heimilisrekstri?

Jóhanna Margrét Einarsdóttir mars 4, 2019 07:23