Líðum ekki ótímabært brottkast

Egill Eðvarðsson, myndlistarmaður, leikstjóri og pródúsent hjá Sjónvarpinu hlaut heiðursverðlaun Eddunnar að þessu sinni. Egill á að baki hálfrar aldar feril í sjónvarps- og kvikmyndagerð og hefur komið að ótrúlegum fjölda verkefna, einkum í sjónvarpi. Hann tók við verðlaununum í beinni útsendingu á Eddunni um helgina og hélt þakkarræðu, þar sem hann ræddi bæði störf sín og aldur – og sagði meðal annars.

En talandi um aldur þá vil ég ljúka þessu, með því að segja við þau ykkar, sem yngri eruð, svo ég tali nú ekki um ykkur sem stýrið og stjórnið landinu okkar. Ekki setja okkur út í kuldann þau okkar, sem komin eru á aldur…hvað sem það nú þýðir…vinnum áfram saman! Fyrir örfáum árum hafði ég aldrei leitt hugann að því að einn daginn bæri mér að hætta að vinna. Jú, skiljanlega ef ég væri búinn að missa það og ruglaði saman þrífæti og þáttastjórnanda. En ef ég væri nú fullfrískur í höfði og hönd og hefði enn brennandi áhuga á faginu…ætti ég samt að hunskast heim, taka til í kompunni eða ganga með sjó.

BREYTA ÞESSU, KRAKKAR! LÍÐUM EKKI ÓTÍMABÆRT BROTTKAST!!!

Ég sjálfur er reyndar svo heppinn, að mínir ágætu yfirmenn á RÚV, þeir Skarpi og Magnús Geir, fela mer ennþá stór og verðug verkefni og hafa skilning á því að ég hef enn heilmikið fram að færa. Já…vil, kann og get! Eða eins og David Attenborough, tæplega 93 ára að aldri í dag og enn að, orðaði það einhvers staðar… dýrmæta reynslu, þroska og þekkingu skyldi aldrei vanmeta. Þau eru ómetanleg veriðmæti, ekki síður en nauðsynlegur ákafi æskunnar.

Ritstjórn febrúar 25, 2019 15:02