Fyrir forsetakosningarnar 1968 háðu forsetaframbjóðendurnir Gunnar Thoroddsen og Kristján Eldjárn einvígi í sjónvarpinu. Var mikill áhugi landsmanna á þessum viðburði en þetta var í fyrsta sinn sem forsetaframbjóðendur hér á landi háðu einvígi í sjónvarpssal. Illugi Jökulsson, blaðamaður og rithöfundur rifjar þennan atburð upp í bókinni Ísland í aldanna rás 1951 -1975. Þar segir Illugi „Víða um lönd var mál manna að sjónvarpið hefði veruleg áhrif á kosningar og breytti að ýmsu leyti tilhögun hefðbundinnar kosningabaráttu þar sem nú yrði mest áríðandi fyrir frambjóðendur að „koma vel fyrir“ í sjónvarpi. Frammistaða í sjónvarpi virtist hins vegar ekki hafa veruleg áhrif á íslensku forsetakosningarnar í þetta sinn. Gunnar Thoroddsen þótti ótvírætt standa sig mun betur en Kristján –leysti fumlaust úr öllum spurningum en Kristjáni vafðist tunga um tönn oftar en einu sinni.“ Illugi rifjar síðan upp hvað blaðið Ný vikutíðindi hafði að segja um frammistöðu frambjóðendanna. „Sjónvarpsþættirnir hljóta að hafa tekið af allan vafa um, hvor frambjóðendanna er frambærilegri sem forseti Íslands. Bar Gunnar þar af eins og gull af eiri, enda er hann búinn flestum þeim kostum, sem þjóðhöfðingja má prýða –fluggáfaður, hefur persónutöfra, alhliða menntun og reynslu til þessa starfs, svo ekki sé talað um ræðusnilld hans. Ekki er hér verið að gera lítið úr mannkostum dr. Kristjáns Eldjárns; þeir skulu ekki dregnir í efa, þótt hann hafi hvorki þá glæsimennsku né þekkingu á alþjóðamálum, sem dr. Gunnar…. Forsetinn má ekki svara annari hvorri spurningu –eins og dr. Kristján gerði í sjónvarpsþáttunum með orðum eins og þessum: ætliþað ekki, ég veit það ekki, eða ég býst við því.“ Illugi bætir svo við frá eigin brjósti „Hér hélt vitaskuld á penna sannfærður stuðningsmaður Gunnars en aðdáendur Kristjáns héldu því fram að þeirra maður hefði staðið sig prýðilega í sjónvarpinu. Þeir fáu sem hlutlausir gátu talist voru hins vegar á einu máli um að frammistaða Gunnars hefði verið töluvert betri.“