Lögbrot að fella niður fasteignaskatt sjötugra og eldri?

Bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum tók þá ákvörðun árið 2012 að fella niður fasteignaskatt og gjöld hjá þeim íbúum bæjarins sem eru orðnir sjötugir og eldri.   Þetta hefur verið gert í þrjú ár og nemur niðurfelling þessara gjalda í ár rúmlega 52 milljónum króna. Innanríkisráðuneytið hefur málið til skoðunar. Það telur þetta ólöglegt.

Vilja auðvelda fólki að búa áfram heima

Rut Haraldsdóttir framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar segir, að margir þeirra sem eldri eru búi áfram í sínum stóru einbýlishúsum. Bærinn vilji stuðla að því að þeir geti búið heima sem lengst, meðal annars vegna þess að í Eyjum sé einungis eitt öldrunarheimili. Uppgangur hafi verið í bænum síðustu ár og fasteignamat hafi hækkað, þannig að það hafi reynst mörgum eldri borgurum erfitt að standa straum af rekstri fasteigna sinna. Þess vegna hafi verið gripið til þessa ráðs að fella niður fasteignaskatta og gjöld hjá íbúðareigendum sem eru komnir yfir sjötugt. Þetta telji ráðuneytið ólöglegt en sveitarstjórnin sé ekki sama sinnis og hafi ákveðið að láta á málið reyna.

Ekki sjálfgefið að allir á eftirlaunum hafi lágar tekjur

Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er sveitarstjórnum heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum, samkvæmt ákveðnum reglum þar um. Hjá Sambandi sveitarfélaga er ekki að finna yfirlit yfir það hvernig sveitarfélögin hafa túlkað þetta, en ekki er vitað um fleiri sveitarfélög en Vestmannaeyjar sem hafa farið þá leið að fella gjöldin alveg niður. Gunnlaugur Júlíusson sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambandsins segir að þar sem hann þekki til, hafi menn í sveitarfélögunum yfirleitt farið þá leið að veita afslátt af fasteignaskatti og fasteignagjöldum með hliðsjón af tekjum viðkomandi íbúðareiganda. Þetta hafi verið gert í Reykjavík og Garðabæ svo dæmi séu tekin. Hann bendir á að það sé heldur ekki sjálfgefið að allir sem séu komnir á eftirlaun séu með lágar tekjur.

Rut segir að í Vestmannaeyjum hafi af ýmsum ástæðum þótt einfaldara í framkvæmd að miða niðurfellingu gjaldanna við aldur, en tekjur.

Ritstjórn júlí 16, 2014 15:50