Skínandi Jarðljós

Gerður Kristný er án nokkurs vafa eitt besta ljóðskáld landsins. Hvert orð er úthugsað, meitlaðar setningarnar litríkar og draga upp lifandi og fallega teiknaðar myndir. Hún er líka ótrúlega nösk á að finna óvænt og sérstæð sjónarhorn. Þetta sést hvað best þegar hún sækir sér innblástur í fornar, norrænar goðsögur eða Íslendingarsögurnar.

Þá birtist hún

öllum að óvörum

kona með skál

að skýla hinum kvalda

um aldir alda

Þarna verður fórn Sifjar, ástúð hennar, umhyggja og tryggð gagnvart sínum gallaða manni, Loka, svo ótrúlega skýr. Svo stígur hún fram Rannveig, móðir Gunnars á Hlíðarenda. Var hún örugglega á bandi sonar síns, ofbeldismannsins, sem hikaði ekki við að lyfta hönd og reka konu sinni kinnhest? Svo eru það allar hversdagsmyndirnar, svo dásamlega fagrar í einfaldleika sínum og tilgerðarleysi. Hver getur efast um að hér er verið að draga fé í dilka.

Hendur grípa

um horn

læri leggjast að

sauðarsíðu

En sterkast og dýpst nær Gerður Kristný þegar hún tekur sér fyrir hendur að lýsa meinlegum örlögum kvenna. Samúð hennar og skilningur er algjör en hvergi eru gífuryrði eða æpt úr predikunarstóli, þvert á móti. Hún lýsir mannlegum breyskleika, dæmir ekki en við skynjum ætíð sakleysi þolandans, þess sem átti ekki skilin þau örlög sem hann hlaut.

Herinn

reisti bragga

lagði vegi

og flugvöll

í mýrinni miðri

 

en líka barn í gröfina.

Þarna minnist hún Steinunnar Sigurðardóttur sem breskur hermaður myrti hér á stríðsárunum. Steinunn var á leið heim úr skólanum, Austurbæjarskóla, þegar á hana var ráðist. Hún hlaut höfuðhögg og lést af völdum þess áverka viku síðar. Ljóð Gerðar Kristnýjar Bölbæn er lagt í munn Bjarna Bjarnasonar sem ásamt Steinunni Sveinsdóttur var dæmdur fyrir tvöfalt morð á Sjöundá og er annað dæmi um svipaðan mannskilning. Það er eiginlega sama hvar er drepið ofan í þessa bók, það er ekki hægt annað en að hrífast með, fá smá kusk í augun og lesa, lesa, lesa, lesa.

Titilinn er líka einstakur. Ef við sætum uppi á tunglinu og horfðum til Jarðar er líklegt að ljós hennar bærist til okkar. Það er upphafleg merking orðsins en Gerður Kristný tengir það við vorkomuna, lömb að fæðast og ný birta að stíga upp frá jörðu til að gleðja vetrarþreytta landsmenn. Það fer svo að verða vísa nánast of oft kveðin að minnast á snilldarlega fallega kápu Alexöndru Buhl en það er ekki hægt að gera það ekki. Því hún ljær þessari mögnuðu ljóðabók einmitt þá umgjörð sem hún á skilið.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 20, 2024 07:00