Makalífeyrir

Flestir lífeyrissjóðir greiða makalífeyri í einhvern tíma, ef manneskja sem hefur greitt í sjóðinn fellur frá. Það er ástæða til að kanna rétt sinn, falli makinn frá, því það er líklegt að menn eigi þá rétt á makalífeyri.  Reglur um hann eru að vísu mismunandi eftir sjóðum og ástæða til að ítreka að það gilda ekki sömu reglur fyrir alla. En sem dæmi má sjá hér, hvernig reglur um makalífeyri eru hjá A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

  • Eftirlifandi maki eða sambúðaraðili sjóðfélaga á rétt á makalífeyri úr A-deild.
  • Fjárhæð fer eftir áunnum réttindum sjóðfélaga. Fullur makalífeyrir er helmingur af áunnum réttindum hins látna og greiðist hann í þrjú ár. Hálfur makalífeyrir greiðist í tvö ár til viðbótar.
  • Maki kann jafnframt að eiga rétt á framreikningi. Þá er reiknað með þeim réttindum sem sjóðfélagi hefði áunnið sér ef hann hefði greitt iðgjald til 65 ára aldurs.
  • Hafi eftirlifandi maki börn sín og hins látna á framfæri er makalífeyrir greiddur þar til yngsta barnið nær 22 ára aldri. Skilyrðin fyrir því eru að hinn látni sjóðfélagi hafi verið virkur greiðandi í sjóðinn við andlát eða verið lífeyrisþegi.
  • Sé maki með a.m.k. 50% örorku skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 67 ára við fráfall sjóðfélaga.

Hjá Lífeyrissjóði verslunamanna er miðað við að makalífeyrir sé greiddur þar til yngsta barn nær 23 ára aldri. Þar skiptir líka máli á hvaða aldri makinn er og hvort hann er öryrki. En almenna reglan hjá sjóðnum er sú að makalífeyrir sé aldrei greiddur skemur en í 3 ár. Hjá Lífeyrissjóði verslunamanna telst  sá vera maki, sem er í hjúskap með þeim látna, er í staðfestri samvist við hann, eða í óvígðri sambúð.

Þetta er eins og áður sagði mismunandi eftir lífeyrissjóðum og Lifðu núna hvetur alla til að kynna sér málin hjá sínum lífeyrissjóði.

 

 

Ritstjórn júní 1, 2016 13:19