Guðrún Pétursdóttir aðstandandi skrifar:
Mamma mín lenti á spítala á Selfossi og var ákveðið að hún lægi inni til frekari rannsókna. Þetta urðu 6 vikur, ástæðan var að ekki var hlustað á mig frekar en hjá mörgum læknum á undan, að hún væri orðin illa áttuð og þyrfti mikla aðstoð. Það sem gerðist var að hún var sett á herbergi fjærst vaktinni, hún man ekki hvernig bjallan virkar og vafrar fram úr rúminu dettur og brýtur á sér fótinn um ökla. Öklabrot eru slæm og enn verri á fullorðnu fólki, hún mun því aldrei ná sér af því. Það sem kom líka í ljós á spítalanum að hún gæti ekki búið ein, en þar fékk hún þó að fara í öldrunarmat (sem búið var að ganga eftir að hún fengi en ekki hlustað á aðstandendur).
Eftir sex vikna legu á sjúkrahúsi átti hún um tvo kosti að velja fara heim og búa ein ósjálfbjarga í hjólastól án nokkurrar aðstoðar frá heilbrigðiskerfinu eða fara í „biðrými“ til Víkur í Mýrdal. Hrædd, óörugg og ósjálfbjarga það var það eini kosturinn.
Það er mjög vel hugsað um fólkið á Hjallatúni og ekkert upp á það að klaga. Húsbúnaður er orðinn gamall og úr sér genginn en starfsfólkið er í einu orði sagt frábært!
Þannig má segja að manni líði betur með að það er þó hugsað vel um hana en það kemur ekki í staðin fyrir fjölskyldutengsl.
Það breytir því þó ekki að þarna er gamla konan á stað sem hún þekkir ekkert til á og enginn ættingi í minna en tveggja tíma akstursfjarlægð frá henni, flestir í tveggja og hálfstíma akstursfjarlægð. Þarna er hún og búið að takmarka mjög öll tengst við afkomendur, þú skreppur ekkert eftir vinnu til að kíkja við!
Það skiptir mjög miklu máli að fólk fái að dvelja í kunnuglegu umhverfi og eins nálægt fólkinu sínu og hægt er svo viðkomandi geti áfram tekið þátt í fjölskyldulífi og fylgst með afkomendum sínum.
Nú er mamma á biðlistum á nokkrum dvalarheimilum nær heimabyggð en hún er alltaf á sama stað á þeim listum, alveg sama hversu margir deyja á þeim dvalarheimilum. Þegar ég hringi og spyr þá er alltaf sama svarið að það eigi ekki að skipta máli þó hún sé í biðrými hún hafi sama rétt og þeir sem eru ennþá ósjálfbjarga heima hjá sér. Veit ekki hvort ég trúi því lengur! Mamma hefur þó okkur systkinin til að hringja og reyna að ýta á en það eru ekki allir svo heppnir!
Saga mömmu minnar er þó miður ekkert einsdæmi ég geri mér grein fyrir því. Það breytir ekki því að mamma mín er sorgmædd og kvíðinn í ókunnugu umhverfi og getur ekki verið í eins miklu sambandi við afkomendur og ef hún væri styttra frá okkur.
Ég hef oft furðað mig á því að það virðist sem ekki sé gert ráð fyrir að fólk í uppsveitum Árnessýslu þurfi að komast á dvalarheimili því þau fyrirfinnast ekki hér. Einhvern tíma stóð til að byggja slík fyrir uppsveitir en mér er sagt að hreppapólitík hafi komið í veg fyrir það!
Sigurður Ingi Jóhannsson -þú ert þingmaðurinn hennar og talaðir um það í kosningaráróðri að þið vilduð gera vel fyrir eldri borgara en af hverju voruð þið ekki löngu búnir að því!
Ég er sorgmædd og reið fyrir hönd eldri borgara á Íslandi og vona að ég þurfi ekki á aðstoð frá samfélaginu ef ég fæ að verða gömul kona!
Eins og Guðrún bendir á er móðir hennar ekki ein um að fá ekki pláss á hjúkrunarheimili. Um helgina voru til að mynda fréttir af Þórhöllu Karlsdóttur 91 árs sem hefur ekki fengið inni á hjúkrunarheimili í Reykjavík og stendur til að flytja hana hreppafluttningum á hjúkrunarheimili á Akranesi.
Grein Guðrúnar birtist fyrst á Fésbókarsíðu hennar.