Mamma, þú ert ekki lengur 25 ára

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

 

Ég tek stundum að mér að vera leiðsögumaður í skemmtilegum ferðum um Ísland og Grænland fyrir Bandaríkjamenn. Ég var að koma heim úr einni slíkri, þreytt eftir covid í hópnum, tafir á flugi og týndar ferðatöskur. Taskan mín var enn á Grænlandi þegar ég var að fara heim  til Akureyrar í flugi. Ég ákvað því að bregða mér upp á háaloft í höfuðborgarkotinu okkar og koma suðurlandaferðatöskunni minni norður í stað þeirra sem var strandaglópur í Kulusuk. Sú bleika er notuð þegar við förum til Malaga til dvalar á haustin. Þægilegt að hafa hana fyrir norðan fannst mér, enda búið að borga fyrir eina tösku.

Ég skrönglast upp lausa stálstigann sem liggur upp á háaloftið. Þegar ég sting hausnum upp fyrir brúnina sé ég þá bleiku lengst úti í horni. Ég hafði vonast til þess að geta teygt mig í hana úr stiganum. Nei, ekki var það svo gott. Ég príla upp á pallinn, skríð og næ í töskuna. Ég læt hana gossa niður tröppuna. Þá vill ekki betur frá en að trappan sígur og færist til.

Mín fyrsta hugsun var að ég myndi enda þessa jarðvist á háalofinu. Alein í íbúðinni og síminn niðri á eldhúsbekk. Ég kalla ekki allt ömmu mína en mér var verulega brugðið. Eitthvað yrði ég að gera. Vonandi myndi maðurinn minn fara að spyrja spurninga ef ég kæmi ekki með fluginu! En ekki fyrr.

Ég velti því hvort ég gæti stokkið niður og notað þá bleiku til lendingar. Það yrði nokkuð hátt stökk. Mér leist ekki á það, enda um fulla lofthæð að ræða. Þá tók ég það ráð að setjast á brúnina. Með öðrum  fætinum tókst mér að koma taki á stigann og draga hann upp og nær. Ég fór á fjóra fætur og gat náð fyrstu tröppu og skrölt af stað. Þá datt þvottabrettið í geymslunni yfir neðstu tröppurnar. Ég hoppaði úr miðjum stiganum niður á þá bleiku.

Mér var sannarlega létt og lofaði sjálfri mér að næst myndi ég taka símann með á loftið. Ég hringdi í yngri son minn til þess að segja honum frá hlægilegu ferðinni á loftið. En hann hló ekki. Þess í stað sagði hann: „Mamma, ég held að það sé kominn tími á að þú áttir þig á því að þú ert ekki lengur 25 ára.“

Ég veit ekki hvort það á bara við um mig að mér finnst erfitt að sættast við að vera búin að missa liðleika æskunnar. Vera með slitin hné og slitna mjöðm sem þarf á viðgerð að halda. Mér finnst það hundleiðinlegt. Undanfarin ár hef ég staðfastlega reynt að stinga höfðinu í sandinn gagnvart þessari staðreynd. En þarna á hanabjálkanum kviknaði týra. Það er ekkert spaug að brotna og ég ætla að reyna að hafa þessi orð sonar míns að leiðarljósi. Hvort það tekst á framtíðin eftir að leiða í ljós.

Sigrún Stefánsdóttir ágúst 9, 2024 07:00