Mangó tískuávöxtur síðustu áratuga

Matarvenjur fólks um allan hinn vestræna heim hafa breyst mikið síðan árið 1970. Á sama tímabili hefur þeim fjölgað til muna sem eru of feitir. Til að mynda eru þrisvar sinnum fleiri Bandaríkjamenn of feitir nú en árið 1970. Skýringarnar eru ekki flóknar, fólk borðar of mikið af fæðutegundum sem innihalda of mikla fitu, sykur og korn. Á sama tíma borðar fólk ekki nóg af ávöxtum og grænmeti þrátt fyrir að neysla á þessum fæðutegundum sé að aukast. Á vefnum aarp.org birtist nýlega grein um hvaða ávexti og grænmeti Bandaríkjamenn hafa aukið neyslu sína hvað mest á.

Neysla á mangó hefur aukist um 3.200 prósent frá því árið 1970. Kannski er skýringin sú að mangó er mikið notað í þeytinga. En á meðan vinsældir mangó aukast hafa vinsældir plóma, ferskja, appelsína og greips, dalað.

Avocado er annar hástökkvari. Neysla þess hefur aukist um 1342 prósent síðast liðin 40 ár. Menn telja að ástæðuna fyrir auknum vinsældum þess séu auknar vinsældir mexíkósks matar en avocado er uppistaðan í hinni sívinsælu sósu, guacamole. Auk þess sem óteljandi greinar hafa birst um avocado þar sem hollusta þess er lofuð í hástert.

Neysla á lime hefur aukist um 1654 prósent. Kannski er skýringin auknar vinsældir margarítna.

Fólk borðar marktækt minni harða fitu en fyrir fjörutíu árum og velur í staðinn olíur.  Mesta aukningin hefur orðið í sölu á ólífuolíu og canola eða 87 prósent.  Þær eru taldar hollari í mat en dýrafita. Á sama tíma hefur neysla á svínafitu minnkað um 65 prósent og á smjöri um 8 prósent.

Neysla á niðursoðnum ávöxtum hefur minnkað um mikið. Til dæmis selst 90 prósent minna af niðursoðnum apríkósum en 1970. Á sama tíma hefur sala á frosnum berjum af öllu tagi tekið stökk.

Menn borða 1146 prósentum meira af brokkolí og 937 prósent meira af sveppum. Mikil aukning hefur sömuleiðis orðið í sölu á spínati og á papriku.

Ameríkanar borða líka miklu meira af allskonar belgjurtum svo sem linsubaunum. Neyslan hefur aukist um 3.170 prósent.

Það sama gildir um prótein. Minna er borðað að rauðu kjöti í Bandaríkjunum en árið 1970, hvort sem um er að ræða nautakjöt, svína eða lambakjöt. Þess í stað hefur neysla á fiski og kjúklingi aukist. Neysla á hnetum og hnetusmjöri hefur á sama tíma aukist um 51 prósent.

Ritstjórn febrúar 27, 2018 10:47