Brokkolí- og blómkálsbaka með gráðaosti

Nú er haustið að bresta á með öllu sínu ferska, íslenska grænmeti. Klúbbarnir eru að fara í gang og tilvalið að nýta allt dásamlega grænmetið, sem er komið í verslanir um þessar mundir, í veitingarnar í klúbbinn.

Bökudeig (fæst tilbúið í verslunum eða sjá bökuupskrift hér að aftan)

250 g brokkolí

250 g blómkál

1 laukur, smátt skorinn

1 msk. olía

1 tsk. óreganó, ferskt eða þurrkað

1 kúla ferskur mozzarellaostur

½ dós sýrður rjómi

80 g gráðaostur, mulinn

1 tsk. kapers

½ knippi fersk basillauf

salt og ferskmalaður pipar

Hitið ofninn í 180°C. Fletjið deigið út og leggið það yfir meðalstórt bökuform. Þrýstið því niður með fargi með því að setja bökunarpappír í botninn og þyngsl þar ofaná, snyrtið barmana. Bakið bökuskelina í 10–12 mínútur, lyftið farginu af og bakið áfram í 5 mínútur. Þá er bökuskelin tilbúin en líka má kæla hana og nota síðar.

Skiptið brokkolíinu og blómkálinu í litla kvisti og sjóðið í saltvatni í 5 mínútur. Hellið kvistunum í sigti og látið renna vel af þeim. Steikið laukinn í olíunni í nokkrar mínútur við meðalhita. Kryddið með óreganó, pipar og salti. Blandið brokkolíinu og blómkálinu saman við laukinn. Skerið mozzarellakúluna í litla bita og blandið ostinum saman við sýrða rjómann, gráðaostinn, kapers og helminginn af basillaufunum. Best er að nota matvinnsluvélina til að blanda þessu saman. Blandið grænmetinu og ostablöndunni saman og dreifið því jafnt yfir bökuskelina. Bakið í 30–35 mínútur eða þar til fyllingin hefur stífnað og grænmetið aðeins farið að taka lit. Dreifið að síðustu afganginum af basillaufunum yfir volga bökuna og berið hana fram. Bakan er líka góð köld.

Meðfærilegt bökudeig

250 g hveiti

svolítið salt

75 g smjör, kalt

1 egg

kalt vatn eftir þörfum

Hveitið og smjörið látið í matvinnsluvél og hún látin ganga þar til deigið er eins og fíngerð mylsna. Þá er eggið hrært saman við og að síðustu köldu vatni, einni teskeið í einu, þar til hægt er að hnoða deigið saman slétt og sprungulaust.

Ritstjórn ágúst 27, 2021 11:00