Mannbætandi bók

Mikið ofboðslega er gott að eiga listamenn, skapandi, gefandi og hæfileikaríkt fólk sem er tilbúið að gefa af sér og opna hjörtu okkar hinna. Bjarni Snæbjörnsson er einn slíkur. Hann berskjaldaði sig á sviði í söngleiknum Góðan daginn, faggi og nú fylgir hann þeirri frábæru sýningu eftir með stórkostlegri bók, Mennsku. Hún er vel skrifuð, vel uppbyggð, einlæg og falleg. Hún opnar manni sýn, gleður mann, gerir mann reiðan og svekktan, breytir manni og kemur út á manni tárunum. Eiginlega bara alveg eins og góð bók á að vera.

Bjarni ólst upp á í litlu þorpi á Íslandi. Þar var samkynhneigð eiginlega ekki til og ef hún var rædd var það á neikvæðan hátt. Það var ljóst að þar var eitthvað ljótt á ferð, óeðlilegt og jafnvel ógeðslegt. Þetta kom lítið við barnið þótt hann kysi frekar að leika sér við stelpur en hamast með strákunum, væri mjúkur og viðkvæmur, var hann samt góður í fótbolta og því nokkuð hamingjusamt barn. Það breyttist þegar kynþroskatímabilið gekk í garð. Þá fór hann sjálfur að gera sér grein fyrir að hann væri öðruvísi og hin börnin fundu á honum veikan blett. Hann var lagður en einelti en átti sína vini. Það var ekki það sem honum reyndist erfiðast. Glíman við eigið sjálf var mun verri. Óttinn og kvíðinn við að vera hafnað, skömmin yfir að vera svona á skjön við allt sem var viðurkennt af samfélaginu þróaðist upp í hreint sjálfshatur.

Í bókinni segir að aldrei megi vanmeta máttinn í sterkum fyrirmyndum en allan sinn uppvöxt skorti Bjarna algerlega hinsegin fyrirmyndir. Hann átti því ekki annan kost en að leitast við að grafa sjálfan sig, afneita eðli sínu, mennsku sinni og berjast við að passa í formið, vera normal og það kostaði hann lífsgleðina, hamingjuna og sálarróna. Það er svo verðmætt að hafa fengið innsýn inn í hugarheim og líðan íslensks hinsegin unglings, ungs manns og fullorðins einstaklings. Saga Bjarna endar vel en hann er líka meðvitaður um að hann er heppinn. Saga margra annarra í sömu sporum um allan heim hefur endað illa.

Alltaf þegar ég les svona áhrifamiklar og vel unnar bækur sit ég eftir með spurninguna, af hverju? Hvers vegna í ósköpunum erum við svona treg til að fagna öllum þeim margbreytilegu og fallegu myndum sem mennskan birtist í? Við vitum öll að menn, konur, kvár og stálp eru alls konar og eiga að vera alls konar. Það er það sem hefur skapað veröldina okkar, siðmenninguna, fegurðina og listina. Illskan og ofbeldið mega svo fara í norður og niðurfallið fyrir mér.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 5, 2024 07:00