Hugmyndin um margskipt gleraugu er mjög aðlaðandi, þegar menn þurfa orðið tvær gerðir af gleraugum, aðra til að sjá fjær sér og hina til að sjá nær sér. Já, og sumir nota jafnvel þrenn. En stundum vill það brenna við að menn eigi erfitt með að venjast margskiptu gleraugunum og gefast jafnvel upp á þeim. Kristinn Kristinsson sjóntækjafræðingur hjá Glerauganu, segir að það hendi afar sjaldan að fólk geti alls ekki notað gleraugun. Það taki hins vegar stundum tíma að venjast þeim. Hann reyni alltaf að leysa málin fyrir fólk og í versta falli, ef menn telji sig alls ekki geta notað marskipt gler, sé málið leyst með því að láta það fá tvenn gleraugu, ein lesgleraugu og önnur til að sjá fjær sér.
Ekki góð kaup í gleraugum sem enda í skúffunni
Ef menn eiga erfitt með að nota nýju margskiptu gleraugun, geta verið fyrir því nokkrar ástæður. Sú fyrsta er að ekki hafi verið rétt mælt fyrir gleraugunum og sjónpunkturinn í þeim sé ekki á réttum stað í glerinu. Önnur er sú að glerin séu ekki nógu góð. Stundum eru framleiðendur að selja eldri gerðir af glerjum á tilboðsverðum. „En það er ódýrara að kaupa vönduð og góð gleraugu, en kaupa ódýrari gleraugu sem enda í skúffunni“, segir Kristinn. Hann noti mest margskipt gleraugu frá þýska fyrirtækinu Rodenstock, sem hafi 140 ára reynslu í faginu. Það stundi eigin rannsóknir og þróun og það sé mikil þróun í glerjum eins og öðru. Kristinn bætir því við að góð glampavörn og rispuvörn í gleraugunum skipti líka máli, því þá endist þau lengur og það hafi jafnframt áhrif á tærleika glerjana.
Fara aftur með gleraugun í búðina
En hvað er til ráða ef menn geta ekki notað nýju margskiptu gleraugun? „Að fara aftur með þau í búðina“, segir Kristinn. Hann segist einungis geta talað fyrir sitt fyrirtæki og þar sé ábyrgð á öllum gleraugum. „Við bjóðum nokkrar útgáfur af margskiptum glerjum og ef gleraugun virka ekki fyrir einhvern er hægt að skipta um gler og fá aðra útgáfu. Oft dugir það til“, segir Kristinn og bætir við að það sé misjafnt hversu langan tíma það taki fólk að venjast margskiptum gleraugum. Það sé lykilatriði að mælingin sé góð, en hún sé mikið nákvæmnisverk. Það þurfi að vera gott flæði frá efri hluta gleraugnanna niður í sjónpunktinn, þannig að fólk finni ekki fyrir því þegar skiptir um í glerjunum og nýju glerin séu sífellt að verða betri og sjónsviðið breiðara.
Sinnir þeim sem nota linsur
Kristinn lærði sjóntækjafræði í Danmörku eins og svo margir Íslendingar. Þegar hann var að velja sér framhaldsnám höfðaði hún meira til hans en viðskiptafræði eða hagfræði. Hann tekur þrjár Gleraugnaverslanir, eina í Kringlunni, aðra í Skeifunni og þá þriðju á Skólavörðustíg. Hann segir starfið fjölbreytt og að hann sé í sambandi við fólk allan daginn. Hann bjóði alla almenna þjónustu fyrir þá sem þurfa gleraugu og hafi sérhæft sig í sjónlinsum, sem líka eru farnar að verða marskiptar. Á meðan blaðamaður Lifðu núna staldraði við, snaraðist inn í verslunina maður, sem taldi að linsan hefði farið inn í augað á sér. En það reyndist ekki vera og Kristinn vísaði honum til augnlæknis. „Það gerir gæfumuninn fyrir sjónina að nota góð gleraugu“, segir Kristinn „ Og einnig þarf að skipta um gleraugu, eftir því sem tækninni fleygir fram.