Myndlistarkonan Anna Leósdóttir opnar sýningu sína Margt býr í fjöllunum í Hannesarholti á morgun, laugardaginn 11. janúar, klukkan 14:00. Anna sýnir náttúruna í nýstárlegu ljósi og minnir Íslendinga á fjöllin sem einkenna Ísland öðru fremur.
„Þetta eru vissulega ekki hefðbundnar náttúrumyndir, heldur mín túlkun á náttúrunni,“ segir Anna um sýninguna, sem samanstendur af ellefu akrýlverkum þar sem fjöll eru í fyrirrúmi, tilkomumikil og glæsileg ásýndar, í óvenjulegri umgjörð, sem dregur fram og undirstrikar þá orku sem frá þeim stafar.
Með sýningunni segist listakonan vilja vekja athygli á mikilvægi íslenskrar náttúru. Hana beri að vernda og hlúa að því hún sé einstök á heimsvísu. „Ekki síst nú þegar sótt er að úr náttúrunni úr öllum áttum,“ bendir Anna á.
Anna hefur fengist við myndlist um árabil og á að baki fjölda einkasýninga. Hefur hún meðal annars haldið sýningar í Viðey, á kaffistofu Hafnarborgar í Hafnarfirði og í Ráðhúsi Reykjavíkursvo fátt eitt sé nefnt.
Sýning Önnu í Hannesarholti stendur yfir frá 11. til 30. janúar.
Öll velkomin.