„Þegar maður sér uppskriftir þar sem hráefnin eru tuttugu og sex þá flettir maður nú oftast yfir á næstu síðu eða hugsar ekkert meira um þetta. Myndin sem fylgdi uppskriftinni var svo girnileg að ég sló til og sé ekki eftir því, þessi réttur er guðdómlega góður. Í hann notaði ég lambalæri sem beið sallarólegt í fjóra daga í ísskápnum áður en ég skar það niður deginum áður og marineraði eins og fram kemur í lýsingunni“, segir Albert Eiríksson listakokkur, þegar hann lýsir þessari uppskrift á matarblogginu sínu, sem má sjá með því að smella hér.
Það er rétt hjá Albert, rétturinn er guðdómlega góður, það getur hópurinn sem snæddi hann hjá Alberti og Bergþóri á dögunum, vitnað um. Hann átti dásamlegt kvöld á heimili þeirra hjóna sem verður lengi í minnum haft. Fiskisúpa kennd við Hrísey var í forrétt og hún er virkilega góð og öðruvísi en flestar aðrar fiskisúpur. Marokkóski lambapottrétturinn er sannarlega þess virði að leggja vinnu í hann, þegar mikið stendur til. Albert bætti að þessu sinni við uppskriftina, einum kúrbít og einni sætri kartöflu, en hann segir líka um að gera að nota í réttinn, það sem fólk á til í ísskápnum!
Marokkóskur lambapottréttur
2 tsk paprika
1 tsk turmerik
1 tsk kúmín
1 tsk kóríander
1 tsk kanill
1/2 tsk kardimommur
1 tsk salt
1/2 tsk cayenne pipar
smá saffran
1 tsk rifinn sítrónubörkur
1 msk rifinn hvítlaukur
1 msk rifið engifer
2 msk matarolía
500 g lambakjöt í bitum
1 laukur
2 msk tómatpurre
kjötkraftur
1 ½ dl þurrkaðar apríkósur
1 dl rúsínur
1 msk hunang
1 msk chili, saxað
⅓ dl pistasíuhnetur, saxaðar gróft
⅓ dl kóríander, saxað
⅓ dl steinselja
2 dl Grísk jógúrt.
Blandið saman papriku, túrmerik, kúmíni, kóriander, kanil, kardimommum, salti, cayenne, saffrani, sítrónuberki, olíu, hvítlauk og engifer í skál. Blandið vel saman
Skerið niður lambakjötið í munnstóra bita og blandið saman við kryddblönduna. Látið bíða í nokkrar klst við stofuhita eða í ísskáp yfir nótt.
Saxið laukinn og léttsteikið á pönnu, bætið við tómatpuré, kjötkrafti, apríkósum, rúsínum, hunangi, chili, pistasíum, kóríander og grískri jógúrt. Blandið vel saman. Blandið þessu og kjötinu saman og setjið í eldfast form – eða tagínu.
Setjið álpappír eða lok yfir formið og bakið í 3 klst við 150°C eða lengur á lægri hita
Saxið steinseljuna og stráðið yfir. Berið fram með kúskús.
Við bætum svo við linkum inná uppskriftirnar hans Alberts hérna fyrir neðan.