Er það virkilega svo slæmt að fá sér einn lítinn?

Flestir Bandaríkjamenn þurfa ekki að hugsa sig um tvisvar þegar þeim er boðið vínglas með matnum, jafnvel ekki þó það sé á hverjum degi. Þeim finnst heldur ekki slæmt að setjast niður og slaka á með uppáhalds drykkinn sinn eftir kvöldmatibn.  Hafa rannsóknir ekki einmitt sýnt að hóflega drukkið vín sé bara mjög gott fyrir heilsuna?  Þannig hefst grein af bandaríska vefnum aarp.org, sem fer hér á eftir í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Því miður sýnir fjöldi rannsókna síðustu ára að þetta er bara óskhyggja. Það er ekki bara að rannsóknirnar setji stórt spurningarmerki við þá hugmynd að það sé gott fyrir hjartað að drekka glas af léttu víni, heldur er líka farið að skoða það  rækilega, hvort drykkja sem okkur þykir hófleg, sé kannski þegar öllu er á botninn hvolft, of mikil og skaðleg fyrir heilsuna.

Ein þessara rannsókna sem skýrt var frá í læknatímaritinu Lancet á sínum tíma, skoðaði 600 rannsóknir á drykkju fólks í mörgum löndum og áhrif hennar á heilsuna. Megin niðurstaðan var sú að drykkja víða um heim, og ekki bara drykkja í óhófi, ylli banaslysum í umferðinni, lifrarsjúkdómum, krabbameini, berklum og hjartasjúkdómum.

Margir gagnrýndu að það væri verið að bera saman áhrif drykkju í mörgum ólíkum löndum, þar sem helstu sjúkdómar sem herja á fólk, væru mismunandi. Sums staðar væru það til dæmis berklar en annars staðar hjartasjúkdómar.

Það var einnig dregið í efa í rannsókninni að það sé beinlínis hollt að drekka rauðvín, en þessu hefur verið haldið fram í 40 ár. Ástæðan fyrir því var upphaflega sú að vísindamenn fóru að rannsaka það sem þeir kölluðu„frönsku þversögnina“, til að reyna að skilja  hvers vegna lítið var um hjartaáföll í Frakklandi þar sem hörð fita er algeng í mataræði fólks. Þeir slógu því umsvifalaust föstu að það væri vegna þess að menn drykkju töluvert af rauðvíni, en það inniheldur andoxunarefni.  Rannsóknir fóru svo að sýna að rauðvínsdrykkja hélst í hendur við færri dauðsföll vegna hjartasjúkdóma og það sem var enn betra fyrir þá sem hafa unun af víndrykkju, að bjór og sterkt áfengi hefði svipuð áhrif.

Nýrri rannsóknir sýna sláandi niðurstöður þegar kemur að áfengi sem hjartalyfi. Ein slík sem gerð var við Háskólann í Cambridge og náði til um 600.000 manns, sýndi til dæmis að fái menn sér meira en 5 drykki vikulega eykst  hættan á því að þeir deyi úr hjartaáfalli. Þeir sem fá sér 10 drykki vikulega stytta líf sitt um 1-2 ár og þeir sem fá sér enn fleiri drykki, stytta líf sitt enn meira. Þessar rannsóknir hafa dregið verulega úr þeirri, að áfengi verndi fólk frá því að þróa með sér  hjartasjúkdóma.

Aðrir vísindamenn telja hins vegar ekki ástæðu til að fólk hætti að fá sér einn fyrir háttinn og einn þeirra segir í greininni. „Ég tel ekki að þessar rannsóknir breyti því að það  má mæla með því að fólk drekki í hófi. En það verður að setja hlutina í samhengi. Hættan sem fylgir því að fá sér einn drykk á dag, er miklu minni en ef menn reykja eða burðast með tugi aukakílóa“.  Hann telur jafnframt að einn drykkur á dag fyrir konur og tveir á dag fyrir karlmenn sé hæfileg drykkja, en þó þurfi að skoða þetta fyrir hvern og einn og jafnvel ástæða til að ráðfæra við lækninn sinn. Hann vill ekki slá hóflega drykku út af borðinu, að því gefnu að menn hafi eftirfarandi þætti að leiðarljósi.

Haltu þig stíft við hóflega drykkju.

Eins og fram hefur komið , ráðleggja bandarísk heilbrigðisyfirvöld, að konur fái sé ekki meira en einn drykk á dag og karlar ekki fleiri en tvo. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað menn eiga við þegar talað er um „drykk“.  Margir eiga það nefnilega til að fá sér vínglas af stærstu gerð og barmafylla það. Það telst hins vegar ekki einn drykkur heldur tveir, eða jafnvel þrír. Hæfilegur drykkur er í greininni talinn vera  um 370 ml af bjór, 75 ml. af léttvíni og 45 ml. af sterku víni svo sem 40% vodka eða viskí.  Þetta er ekki mikið magn og auðvelt að mæla þetta ef vill.

Ekki  hægt að  safna sjússunum upp

Fólk spyr sig hvort það sé í lagi að geyma sjússana milli daga, þannig að það megi drekka fleiri drykki í einu ef það fái sér áfengi bara þrisvar i viku.  En það er ekki í lagi að mati sérfræðinga. Þannig drykkja hefur í för með sér meira álag á lifrina, getur hækkað blóðþrýstinginn og eykur hættuna á að menn geri eitthvað alveg ábyrgðarlaust, svo sem eins og að keyra bíl undir áhrifum. Það er mælt með því að jafnvel þótt drukkið sé tvisvar eða þrisvar í viku, haldi fólk sig bara við sinn daglega skammt. „Þegar við eldumst, veruðum við viðkvæmari fyrir áhrifum áfengis, vegna þess að hæfileiki líkamans til að vinna úr því minnkar. Þannig finnur fólk meira fyrir áfengisdrykkju með aldrinum“, segir einn sérfræðinganna og bætir við að þá aukist líkurnar til dæmis á því að fólk fari að detta.

Ekki drekka ef þú þjáist af lifrarsjúkdómi

Því eldri sem þú verður, þeim mun líklegra er að þú fáir lifrarsjúkdóma, svo sem eins og aukna fitusöfnun í lifur. Það er oft mælt með því að fólk láti tékka á  fitu í lifrinni, sérstaklega ef það er á lyfjum sem hafa áhrif á hana. Þeir sem hafa of mikið magn fitu í lifur, ættu að sleppa því alveg að neyta áfengis.

Ekki drekka vegna þess að þú telur það gott fyrir heilsuna

Ef þú hefur fengið þér martíni glas fyrir svefninn síðustu þrjátíu árin, er í góðu lagi að halda því áfram. En ekki byrja að drekka af því þú telur að það sé hollt fyrir þig.  Hjartavernd í Bandaríkjunum hefur aldrei mælt með því að menn drekki áfengi. Línan hefur alltaf verið þessi. „Ef þú drekkur, gerðu það þá í hófi.

 

Ritstjórn apríl 5, 2022 07:04