Mataræði á efri árum

Nýlega var flutt frétt af því í kvöldfréttum RUV að stór hópur eldra fólks er leitaði á bráðamóttöku vegna byltuslysa eða veikinda þjáðist af vannæringu eða um helmingur. Vitnað var í nýja rannsókn er kynnt var á málþingi um byltuvarnir á Landspítalanum fyrir skömmu. Þetta eru alvarlegar fréttir og benda til að fólk sé ekki nægilega meðvitað um næringarþörf sína eða ekki í aðstöðu til að tryggja að það fái nægilega góðan mat yfir daginn.

Ólöf Guðný Geirsdóttir prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands var tekin tali í fréttinni og sagði hún að veikindi og undirliggjandi sjúkdómar yllu því oft að fólk borðaði minna. Matarlyst væri oft minni vegna lyfjainntöku. Vannæring og vökvaskortur eru þess vegna í mörgum tilfellum liður í því að fólk dettur. Því svimar vegna þess að líkamann vantar næringarefni og vökva. Eldra fólk þarf að borða reglulega yfir daginn og mikilvægt er að koma sér upp rútínu hvað varðar neyslu matar og drykkjar. Gott er að einsetja sér að borða minnst eina heita máltíð á dag og drekka minnst 11/2 l af vatni. Ef fólk neytir ekki nægilegs prótíns yfir daginn minnkar vöðvastyrkur og þar með hæfnin til að hreyfa sig af öryggi og styrk.

Heppilegt mataræði fyrir fólk fimmtíu ára og eldra

  1. Mikilvægt er að velja fjölbreyttan og næringarríkan mat. Samkvæmt ráðleggingum landlæknisembættisins ætti fullorðin manneskja að velja að borða sjö skammta af grænmeti og ávöxtm á hverjum degi. Í þessum fæðutegundum eru mikilvæg vítamín, steinefni og andoxunarefni auk trefja sem eru líkamanum mjög nauðsynleg.
  2. Hver og einn þarf að borða sem svarar 1-1,5 g af prótíni fyrir hvert kíló líkamsþyngdar sinnar og það sýnir sig margir borða mun minna af prótínríku fæði. Þess vegna er gott að velja prótínríkt snakk eins og hnetur, prótínstykki sem fást úti í búð eða drekka prótíndrykk sem millimál minnst einu sinni á dag. Prótín er sömuleiðis mikilvægt til að viðhalda heilbrigði beina en það er helst að finna í baunum, kjöti og fiski.
  3. Allir ættu að forðast mikið unnar matvörur og sykur eftir fremsta megni. Úrval matvara í íslenskum verslunum er mikið og auðvelt að sneiða hjá óhollri vöru og velja hollari kost. Brennsla fólks hægist með árunum og þess vegna erfiðara að losa sig við umfram kaloríur en áður var.
  4. Aldrei verður lögð of mikil áhersla á mikilvægi þess að drekka nóg yfir daginn. 8-10 glös af vatni er eðlilegur dagskammtur fyrir venjulega manneskju í venjulegri virkni en ef þú hreyfir þig mikið eða ert í miklum hita þarf að drekka meira. Margir byrja hvern dag á að drekka tvö glös af vatni og eitt um miðjan morgun. Tvö glös með hádegismatnum, eitt í eftirmiðdaginn, tvö með kvöldmatnum og eitt áður en gengið er til náða.
  5. Trefjar örva meltinguna og eru sérlega góðar fyrir þarmaflóruna og því heilbrigðari og fjölbreyttari sem hún er því öflugra er ónæmiskerfið. Nú er hægt að fá gerjaða drykki eins og kombucha og kefir úti í búð en þeir eru sérlega góðir til að efla þarmaflóruna. Trefjar fær fólk úr grænmeti, ávöxtum og grófu korni.
  6. En jafnvel þótt fólk gæti þess að velja fjölbreytt og hollt fæði búa sumir við að þeir eiga erfitt með að melta ákveðnar fæðutegundir og vinna úr þeim næringarefni. Til að tryggja nægilegt magn a D-vítamíni, B12-vítamíni og ýmsum steinefnum kjósa margir að taka inn fæðubótarefni. Gott er að leita ráðlegginga hjá heilbrigðisstarfsfólki um hvað sé best að velja og hvernig best sé að setja saman þau fæðubótarefni sem fólk tekur inn. Einnig ætti alltaf að spyrja hvort lyf sem verið er að ávísa á mann hafi aukaverkanir og þá ekki hvað síst hvort þau hindri upptöku tiltekinna næringarefna eða hafi áhrif á meltingu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.