Amma heitir afar látlaus bók eftir Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur, sem fjallar eins og nafnið bendir til, um ömmu hennar og nöfnu, Hólmfríði eða ömmu Fríðu eins og hún kallar hana í bókinni. Amma Fríða ólst upp í Sandgerði á Raufarhöfn og var fyrsta stelpan úr þorpinu til að taka próf uppí Menntaskólann á Akureyri. Hún bjó um tíma hjá fólki í bænum en síðar á heimavist skólans. Mánaðarlega fengu hún og vinkonur hennar senda peninga að heiman og leyfðu sér þá að fara á Hótel KEA og fá sér kaffi og ristað brauð með marmelaði. Í bókinni er saga ömmu Fríðu rakin, ástir og örlög, sem voru svipuð örlögum margra annarra íslenskra kvenna á þessum tíma, en þegar hún var 85 ára gaf hún út sína fyrstu ljóðabók sem heitir Dagar sóleyjanna koma. Hún kynntist mannsefninu sínu, Grími, í Menntaskólanum á Akureyri og að sjálfsögðu er sagt frá kynnum þeirra í bókinni, allt frá því þau spiluðu saman borðtennis, þegar hún var í þriðja bekk en hann í sjötta.
Ég var í þrjú ár í skólanum eftir að hann hafði lokið námi þar. Ég átti í sambandi sem entist hér um bil tvo vetur en svo datt úr því botninn, eins og gengur. Þetar ég lít til baka finnst mér að ég hafi ekki verið reglulega heppin með þessa skólaást mína. Á þessum tíma bjó Grímur á Seyðisfirði, þar sem hann var kennari við barna- og uhnglingaskólann. Hann vann þó ein tvö sumur í brúarvinnu á Norðausturlandi. Eitt sumarkvöld fórum við Gógó með rútu frá Raufarhöfn að Lundi í Axarfirði, en það var samkomustaður þar sem haldin voru böll. Þangað komu þeir, sætu brúarstrákarnir, glaðir, hressir og miklir töffarar, jafnvel búnir að fá sér aðeins neðan í því. Við vorum mjög spenntar fyrir þeim. Þar dönsuðum við saman, við Grímur, og ég varð voðalega skotin í honum. Við kynntumst samt ekki fyrir alvöru fyrr en hann fór að koma til Raufarhafnar ti að vinna í síldinni, næsta sumar. Hann var þar í tvö sumur. Það var um þetta leyti sem myndin var tekin af honum, þessi sem mér þykir alltaf svo vnt um. Þar er hann ljóshærður með krullur sem hrynja niður á ennið á honum.
Á Raufarhöfn bjó hann í húsi frænku sinnar, sem var í næsta húsi við Sandgerði. Það var kallað Bessastaðir. Við byrjuðum smátt og smátt að ræða saman, fara saman á böll og svona. Við urðum samt ekki par strax. Við útskrift úr Menntaskólanum var gefin út bók með grínmyndum af okkur útskriftarnemendum. Á minni mynd var ég með nemanda á milli fótanna, að skoða upp í munninn á honum. Allir skólafélagar mínir vissu að ég væri harðákveðin í því að verða tannlæknir. Veturinn eftir að ég lauk námi fór ég suður til að læra við Háskóla Íslands.
Meðfram náminu vann ég hjá Óskari Halldórssyni útgerðarmanni. Þann vetur var Grímur enn að kenna austur á Seyðisfirði. Haustið eftir það kom hann suður og byrjaði sjálfur í Háskólanum. Um sumarið fórum við saman norður á Raufarhöfn. Þar opinberuðum við trúlofun okkar, ég 21 árs og hann 24. Við bjuggum saman í kjallaraherberginu í Sandgerði það sumarið, sem var ósköp notalegt. Þegar ég hugsa til baka finnst mér ég hafa verið ung, en þá var litið svo á að ég mætti nú ekki vera mikið eldri til að trúlofa mig.
Þegar við fluttum suður hóf hann nám í íslenskum fræðum, þangað sem hugur hans hafði alltaf stefnt. Ég, hins vegar, hætti námi og fór að vinna fyrir okkur báðum á Atvinnudeild Háskólans. Þetta var býsna algengt fyrirkomulag í þá daga, að konan ynni á meðan maðurinn var í Háskólanum.