Vírus með kórónu

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Þessar vikurnar þori ég varla að opna augun á morgnana, hvað þá að opna fyrir útvarpið. Hvað eru margir smitaðir hér? Hvað eru margir látnir í Kína? Hvernig er haldið utan um mál á Ítalíu? Hvað er að gerast í afbókunum ferðamanna til landsins? Hvers vegna er smithætta minni þegar 900 manns hittast en þegar þeir ná tölunni 1000. Hvað ræður því hvort Sinfóníuhljómsveitin spilar fyrir fullu húsi eða hvort stór ráðstefna er blásin af. Já, hver morgun er bara eitt stórt spurningamerki og þetta spurningamerki étur upp sálarró mína.

Á forstofuborðinu liggur bunki af bókunum á flugi og hótelum sem var gengið frá snemma í febrúar. Fjárfesting upp á tæpa hálfa miljón, enda áætlað ferðalag yfir hálfan hnöttinn og vel það. Ég forðast að líta á bunkann. Erum við að fara eða erum við ekki að fara? Ég bara veit það ekki. Já – hver veit hvað á eftir að gerast hér á næstu vikum og mánuðum á tímum covid 19.

 Þessi staða er ný fyrir okkur öll. Þegar ég var stelpa á Akureyri voru ferðalög alls ekki sjálfgefin. Ég fór nokkrum sinnum með rútu til Reykjavík og það var dags ferðalag, sem kostaði sitt. Ég var komin langt í námi í menntaskóla þegar bekkurinn fór í flug til Noregs. Það var mitt fyrsta utanlandsflug. Mér fannst ég ekki hafa verið að missa af neinu sem unglingur því enginn í kringum mig var að ferðast.

Svo gerðist eitthvað. Ferðaskrifstofur fóru að bjóða upp á ferðir í sólina eða  í skíðafrí. Lággjaldaflugfélög kepptust við að fljúga okkur út í heim fyrir slikk. Barnabörnin eru þegar búin að ferðast til fjölda landa og fjögur þeirra dvelja erlendis þessa dagana fjarri íslenskum covid-fréttum.

Þessi óvissa um hvað er í vændum og hvernig við getum komist hjá því að smitast og að smita aðra veldur óróa og ugg. Hvað má ég og hvert kemst ég? Ég fæ engin svör. Það er eins og manni hafi verið kippt úr sambandi. Allt það sem maður hefur gengið að sem vísu virðist ekki jafn sjálfgefið og það var fyrir nokkrum vikum. Við erum þó bara að berjast við einn vírus með kórónu. Áleitnar spurningar vakna þegar ég ligg andvaka á nóttunni. Ég spyr mig hvernig forfeðrum og formæðrum okkar sem upplifðu heimstyrjaldir, Spönsku veikina, eldgos og frostavetur á eigin skinni, leið þegar þau opnuðu augun á morgnanna. Ég get alls ekki ímyndað mér það. Hvað með ykkur hin?

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir mars 9, 2020 22:31