Menn og minni í útvarpsþáttum hátíðanna á RÚV

Óvenjulega marga áhugaverða þætti er að finna í Spilara RÚV að þessu sinni. Þetta eru mislangir og ólíkir þættir enda viðfangsefnin margvísleg og umsjónarmenn koma að þeim á mismunandi hátt. En allir þessir þættir eru áhrifamiklir hver á sína vísu og skila hlustendum fróðari um efnið en áður.

Þótt oss skilji hábrýnd heiðin

Í þessum áhugaverða þætti er sögð saga af tæplega fjörutíu ára vináttu tveggja bænda á síðari hluta nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Lífsbaráttan var hörð hjá báðum en þeir voru trygglyndir og þráðu að menntast en gátu ekki látið verða af því vegna efnaskorts. En það stoppaði þá ekki í að lesa og leita sér þekkingar víða. Þeir höfðu báðir mikinn áhuga á tónlist og lögðu séra Bjarna Þorsteinssyni lið við að safna þjóðlögum og báðir fengust þeir við að skapa tónlist. Þeir Sigtryggur Helgason og Benedikt Jónsson frá Auðnum voru greinilega miklir hæfileikamenn og áhugavert að fylgjast með hvernig þeir gátu ræktað vináttu sína þótt þá skildi að hábrýnd heiði. Umsjónarmaður er Trausti Dagsson

https://www.ruv.is/utvarp/spila/thott-oss-skilji-habrynd-heidin/38698/bh1m51

Er ekki allt í lagi heima hjá þér?

Stundum er þessari spurningu kastað fram milli krakka í hálfkæringi en ekki alveg víst að hún hitti þann sem hún beinist að vel fyrir. Það er nefnilega ekki allt í lagi heima hjá öllum. Í þessum áhrifamikla þætti segja fjórar manneskjur sem ólust upp hjá mæðrum sem glímdu við andleg veikindi frá uppvexti sínum og atvikum sem sitja í þeim. Í sumum tilfellum eru það uppákomur vegna veikinda móðurinnar og stundum viðbrögð umhverfisins til góðs eða ills. Þetta er feikilega vel unnið heimilidaleikhúsverk og sannarlega óhætt að mæla með því að hlusta. Það eru þau Eva Björk Kaaber, Helga Rakel Rafnsdóttir, Ragnar Ísleifur Bragason og Katla Rós Völudóttir sem segja frá.

Handrit og leikstjórn: Eva Rún Snorradóttir.

Tónlist: Gunnar Karel Másson.

Kór: Valgerður Rúnarsdóttir, Rannveig Þöll Þórsdóttir, Sólhildur Svava Ottesen og Oddrún LáraFriðgeirsdóttir, auk þátttakenda verksins.

https://www.ruv.is/utvarp/spila/er-ekki-allt-i-lagi-heima-hja-ther/38426/beelt1

Söngfuglinn frá Merkinesi

Það er einhver hljómur í rödd Ellyjar Vilhjálms sem gerir hana auðþekkjanlega og eftirminnilega. Allir landsmenn þekkja hana og lögin hennar hljóma enn í eyrum okkar oft og iðulega. Sýningin um hana í Borgarleikhúsinu naut mikilla vinsælda og Katrín Halldóra Sigurðardóttir frábær í hlutverki söngkonunnar. En um margt er saga Ellyjar sveipuð dulúð. Í þættinum Elly Vilhjálms söngfuglinn frá Merkinesi spilar Jónatan Garðarson lög sem heilluðu hana, hljóðritanir með söng hennar og segir frá því sem vitað er um líf hennar.

https://www.ruv.is/utvarp/spila/elly-vilhjalms-songfuglinn-fra-merkinesi/38646/bghqb1

Stollen-brauð og stríðsminningar

Á aðventunni 2019 tók Rúnar Snær Reynisson viðtal við Helgu Ruth Alfreðsdóttur á heimili hennar á Egilsstöðum. Helga kynntist síðar íslenskum manni og flutti með honum til Íslands. Fyrst bjuggu þau hjónin á Ólafsfirði en fluttu síðar austur á Egilstaði þar sem Helga starfaði lengi sem íþróttakennari. Hún var að baka Stollen-brauð eins og hún gerði árlega þegar Rúnar Snær bankaði upp á og meðan brauðið fékk að hefa sig og síðar bakast rifjaði hún upp minningar frá stríðstímum í heimalandi sínu Þýskalandi. Helga ólst upp á afskekktri eyju þar sem Hitler rak tilraunastöð en verkefni hennar var að smíða eldflaugar. Enginn mátti koma í heimsókn öðruvísi en að sækja um sérstakt leyfi. Umsjónarmenn þessa þáttar voru Rúnar Snær Reynisson og Gígja Hólmgeirsdóttir

https://www.ruv.is/utvarp/spila/stollen-braud-og-stridsminningar/38706/bh4491

Sweet-systur 

Halla Harðardóttir fann fyrir tilviljun hljómplötu í safni ríkisútvarpsins þar sem kvennasveitin Sweet-systur söng nokkur vel valin lög. Þetta er lakkplata en búið var að færa efni hennar yfir á stafrænt form. En hverjar voru þessar sætu systur?  Halla hóf leit að nöfnum kvennanna og það reyndist talsverð fyrirhöfn en dagskrárgerðarmaðurinn gafst ekki upp og tókst að varpa ljósi á hverjar þessar hæfileikakonur voru og hvernig það kom til að þær sungu inn á plötu sem síðan var varðveitt á RÚV: Þessi þrautseigi og útjónarsami dagskrárgerðaramaður á þakkir skildar fyrir leitina og að rifja upp þá tíma þegar stúlkur stofnuðu söngsveitir til að skemmta löndum sínum.

https://www.ruv.is/utvarp/spila/sweet-systur/38708/bh4nq1

Rúna Guðjónsdóttir á að baki fjölbreyttan og áhugaverðan starfsferil í myndlist.

Á tíræðisaldri og nýhætt að mála

Í Víðsjá þriðjudaginn 16. desember var einstaklega skemmtilegt viðtal við myndlistarkonuna Sigrúnu Guðjónsdóttur eða Rúnu um barnabókina, Rauði fiskurinn, en hún var endurútgefin núna fyrir jólin. Bókin kom fyrst út árið 1972 og margir eiga góðar minningar um að hafa lesið hana eða lesið fyrir börnin sín. Rúna verður 100 ára í ár. Hún er nýhætt að vinna, varð að hætta að mála vegna þess hve sjónin er tekin að daprast.

https://www.ruv.is/utvarp/spila/vidsja/23618/b725mj?fbclid=IwY2xjawO_ycBleHRuA2FlbQIxMABicmlkETBKdGtHb3lKek5kMlI4WldOc3J0YwZhcHBfaWQQMjIyMDM5MTc4ODIwMDg5MgABHrkV-wq-9ax4g67EcIJH32Hes5QtQqfwTmlAM0kVdtOyvvFzNfFB-NXSBh1Q_aem_AoFHM7m4fT1U2-u7BFCAHg

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.