Hlaðan eftir Bergsvein Birgisson er athyglisverð og vel ígrunduð stúdía á nútímanum og viðhorfum sem virðast vera á góðri leið með að ríða mennskunni á slig. Engin af þeim kerfum sem við höfum komið okkur upp eru undanskilin, menntakerfið, tæknin, samgöngur, fjölmiðlar, gervigreind og fleira. Bergsveinn skrifar fallegan og persónulegan texta og er ákaflega rökfastur. Það þarf ekki að vera sammála honum að öllu leyti til að skynja sannleikann í því sem hann er að segja og finna hjá sér þörf til að staldra við og ígrunda það sem hann ber á borð.
Við sem eldri erum finnum stundum til þess að okkur finnst við vera að falla í sömu gryfju og foreldrar okkar, dæsandi yfir hve allt var mun betra hér áður fyrr þegar við vorum að vaxa upp. Heimur versnandi fer virðist vera það orðtak eða sú mantra sem eldri kynslóðir tyggja óhjákvæmilega. En er ekki eitthvað til í þessu? Fer mannkynið kannski í eilífa hringi og hver kynslóð endurtekur sömu mistök og sú fyrri? Það kann að vera en hryllileg hryðjuverk eru hins vegar til allrar lukku ekki framin á nokkurra áratuga fresti.
Hlaðan minnir að mörgu leyti á Walden eftir bandaríska rithöfundinn Henry Thoreau. Hann líkt og Bergsveinn ákveður að hverfa aftur til náttúrunnar og einfaldara lífs. Þar telur hann sig finna innstu rök mannsins, tilgang hans og stöðu innan náttúrunnar. Til þess ákveða báðir að slíta sig úr viðjum síns samfélags og hverfa aftur til lífshátta sem ýmist eru horfnir eða við það að hverfa. Í tilfelli Thoreau er það skógurinn sem verður umgjörðin en Bergsveinn endurbyggir gamla hlöðu sem afi hans reisti með eigin höndum úr þeim efnivið sem fáanlegur var í næsta umhverfi hans. Bæði afinn og barnabarnið njóta svo aðstoðar sveitunga, nágranna og vina, en allir leggja hönd á plóg með gleði og hagleik. Lýsingarnar á byggingunni eru heillandi og mann langar óskaplega að fá að skoða hana, upplifa rekaviðarklæðninguna, rakasperrurnar, gluggana og hurðina með kýrauganu.
En auðvitað er það samt boðskapurinn um hvað húmanisminn snýst um hvernig hann á undir högg að sækja í samfélagi okkar sem óneitanlega verður manni hugstæður og kveikir þörf til að velta fyrir sér hvert samfélag okkar er að stefna og hvort ekki verði að leitast við að breyta ýmsu. Bergsveinn segir frá konu, búsettri á Ströndum sem skrifaði bók um líf sitt. Þar er hún sjálf í öðru sæti, sveitungar hennar í fyrsta. Þetta telur hann dæmi um hve upptekin við nútímafólk erum af okkur sjálfum, við erum ævinlega í forgrunni og allt er skilgreint með tilliti til okkar og út frá okkur sjálfum. Kynslóðirnar á undan lifðu fyrir samfélag sitt, fólkið í kringum sig og eilífa baráttu við að komast af. Það lá ljóst fyrir að sú barátta gengi betur ef fólk stæði saman.
Sverrir Norland talar að sumu leyti á líkan hátt í bók sinni Stríð og kliður. Hann eins og Bergsveinn er þess fullviss að hávaðinn, þessi eilífi kliður nútímasamfélags hefti hugsun mannsins, drepi í raun mennsku hans, samlíðan og samskiptahæfni. Bergur Ebbi deilir áhyggjum kollega sinna og það kemur fram í bókum hans, Stofuhiti og Skjáskot. Það er eiginlega óhjákvæmilegt að hlusta þegar svona rökfastir og vel lesnir menn skrifa. Hlaðan er umhugsunarverð bók, sérlega vel skrifuð og ætti að opna augu allra þeirra er lesa fyrir því hvernig umgengni okkar um þessa verðmætu veröld og fólkið í henni stefnir framtíð komandi kynslóða í hættu.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







