Hús daganna sem Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur sett á Facebook, eru ákaflega fróðlegt og skemmtilegt efni. Við hjá Lifðu núna höldum áfram að segja frá húsunum.
Hús dagsins (115). Dunhagi 19 í Reykjavík. Býsna sögufrægt hús og eitt af Sigvaldahúsunum svokölluðu, verk Sigvalda Thordarson. Húsið nr. 21 er einnig hluti af teikningunni en það er ekki til umræðu hér. Sögufrægur er Dunhagi 19 kannski einkum fyrir það að kvikmyndin “79 af stöðinni” var tekin upp að stórum hluta í glæsilegri íbúð á efstu hæð árið 1962. Þar fóru fram eftirminnilegar senur með þeim Kristbjörgu Kjeld og Gunnari Eyjólfssyni. Íbúðina áttu dr. Gunnlaugur Þórðarson lögmaður og Herdís Þorvaldsdóttir leikkona. Um er því að ræða æskuheimili Hrafns kvikmyndagerðarmanns, Tinnu fyrrv. Þjóðleikhússtjóra og þeirra systkina. Reyndar má geta þess að Tinna og Egill Ólafsson söngvari hófu búskap í kjallaranum á húsinu 1975 og bjuggu í húsinu næstu fimm árin. Það var einmitt á þeim árum sem Egill varð einn af Stuðmönnum og Þursaflokkurinn varð til. Húsið var byggt árið 1957 af þeim dr. Gunnlaugi og Herdísi ásamt móður Herdísar, Maríu Víðis Jónsdóttur kaupmanni í Hafnarfirði. Þriðji byggingaraðilinn var Magnús E. Baldvinssson úrsmíðameistari og kona hans Unnur H. Benediktsdóttir. Herdís bjó lengst í húsinu af þessu fólki eða til 2008. Til gamans má geta þess að í fáein ár þar til fyrir skemmstu bjuggu Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona, nú leikhússtjóri, og maður hennar Heimir Sverrisson leikmyndahönnuður í frægu íbúðinni á efstu hæð. Sú sem lengst hefur búið í húsinu af núverandi íbúum er Bergljót Halldórsdóttir lífeindafræðingur.