Nærmynd af Eddu Björgvins

Þau eru orðin ansi mörg hlutverkin sem Edda Björgvinsdóttir hefur leikið um ævina, á leiksviði, í kvikmyndum og í sjónvarpi. Um þessar mundir stendur hún á sviðinu í Gamla bíó í verkinu Eddan.

Sýningin byggir á handiriti eftir Eddu og Björk Jakobsdóttur og fjallar um leikkonu á besta aldri sem er boðuð í vinsælan spjallþátt til að ræða um feril sinn og slá á létta strengi. Edda er frumkvöðull, ein fyrsta íslenska konan sem lagði gamanleik fyrir sig. Auk þess að leika hefur hún verið fararstjóri og hún er vinsæll fyrirlesari svo eitthvað sé tínt til af öðrum verkefnum sem hún hefur tekið að sér.

Þá átti hún Willy‘s

Valgeir Guðjónsson

Valgeir Guðjónsson

Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður var skólabróðir Eddu í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hann segir að hún hafi haft sérstöðu í skólanum. „Þá var hún trúlofuð og átti Willy‘s jeppa og eina dóttur,“segir Valgeir og bætir hlæjandi við að þrátt fyrir það hafi hún verið mjög skemmtileg. „Hún var kannski ekki svo mikið að fara út fyrir girðinguna á þessum árum, það gerði hún síðar,“ segir Valgeir.  Valgerður Matthíasdóttir dagskrárgerðarkona kynntist Eddu á upphafsárum Stöðvar 2, fyrir tæpum þrjátíu árum.  Þær tvær hafa hlegið mikið saman. „Edda er fædd fyndin. Hún er ekki síður fyndin í einkalífinu. Hversdagurinn er hennar uppspretta af karakterum, tilsvörum og fyndnum sögum. Hún er alveg einstök að því leytinu að hún sér lífið á svo skemmtilegan hátt og verður við það oft, alveg ótrúlega fyndin. Það er engu líkt að fá að umgangast hana hversdags því hún lætur öllum líða vel í kringum sig með jákvæðni og skemmtilegheitum,“ segir Vala Matt.

Fyndin alla daga

Annar samstarfsmaður Eddu í gegnum tíðina er Þórhallur Sigurðsson leikari betur þekktur sem Laddi. Hann er sammála Valgerði í því að Edda sé skemmtilegur félagi. „Hún er frábær, hún er yndisleg og fyndin alla daga,“ segir Laddi. Þau tvö hafa leikið saman á sviði, í kvikmyndum, og sjónvarpsþáttum. Björk Jakobsdóttir, leikkona segir að Edda hafi verið fyrirmyndin hennar. Hún hafi litið upp til hennar og geri enn. „Hún er húmorgyðjan mín,“ segir Björk og lýsir Eddu sem hörkuduglegri kjarnakonu og mikilli framkvæmdadívu. Þórhallur segir að það vaði stundum á Eddu. „Hún er ekki alveg nógu skipulögð, það er svolítið kaos í kringum hana,“ segir hann og bætir við hún geti verið ör og fari þá stundum fram úr sér.  „Svo á hún til að gleyma hlutum og sjálfri sér líka,“ segir hann. Valgerður segir að Edda eigi til að vera stressuð.

Valgerður Matthíasdóttir

Valgerður Matthíasdóttir

Besta meðalið við stressi 

„Já, hún á það alveg til að vera stressuð. Þannig er það oftast með fólk eins og hana því hún er bæði afburða gáfuð og hæfileikarík. Hún er ekki hversdagsleg manneskja. Hún er í raun listamaður á heimsmælikvarða bara búsett á Íslandi. Þó hún geti stundum verið stressuð þá er hún svo ótrúlega dugleg að finna leiðir til að vinna á stressinu. Hún kann að nota alls kyns hollan mat, slökunaraðferðir og svo auðvitað hláturinn sem er besta meðalið við stressi,“ segir Valgerður.

Klassískur kjörgripur

„Hún er sambland af fiðrildi og fagmanneskju. Kröfuhörð á sjálfa sig og aðra. En stundum getur hún verið uppum alla veggi og út um allt. Stundum svolítið fljótfær. Full af mótsögnum eins og

Björk Jakobsdóttir

við erum öll,“ segir Björk og hrósar því að vinna með Eddu. „Við hvetjum hvor aðra áfram. Ég held að hún sé klassískur kjörgripur. Manneskja sem hugsar vel um vini  sína og fjölskyldu,“ segir Björk.

Með alvarlegan undirtón

Mönnum ber saman um að Edda sé góður vinur eða eins og Þórhallur orðar það.  „Hún er vinur vina sinna. Hún hugsar vel um þá sem að henni standa.“ Valgeir segir hana skemmtilega og jákvæða. „Það er gott að tala við hana. Hún hefur alla dýptina til að tala um alvarlega hluti þó hún sé ekki að ræða þá við hvern sem er, hvenær sem er,“ segir Valgeir. Hann segir Eddu skemmtikraft með alvarlegan undirtón eins og fyndið fólk sé gjarnan. „Ég held að hún eins og margt þekkt fólk, haldi ákveðnum hlutum fyrir sjálfa sig,“ segir Valgeir.

Gagnrýnin á sjálfa sig

Haraldur Sigurðsson

Haraldur Sigurðsson

„Edda er mjög traustur vinur. Og þó það líði stundum langur tími milli þess að við hittumst þá er alltaf eins og við höfum hist í gær. Hennar bestu kostir eru án efa meðfædd jákvæðni og hvað hún er góð manneskja. Hún dæmir aldrei fólk og hún gefur svo ofboðslega mikið af sér við alla, jafnt við þá sem hún þekkir vel og ókunnuga sem eru alltaf að koma til hennar á förnum vegi og finnst þeir þekkja hana svo vel,“ segir Vala. Þegar fólk er beðið um að nefna einhverja ókosti sem Edda hefur þá vefst viðmælendunum tunga um tönn nema þegar kemur að sjálfsgagnrýni hennar eins og kemur fram í orðum Völu Matt.  „Hún hefur ekki marga ókosti. Hún er ansi vel heppnuð manneskja. Mér finnst kannski hennar helsti ókostur hvað hún getur oft verið sjálfsgagnrýnin og hörð við sjálfa sig. Hún mætti alveg vera mildari við sjálfa sig.“

 

Hér fyrir neðan eru svipmyndir af  Eddu

 

 

Ritstjórn febrúar 6, 2015 13:00