Náttúruleg og þrautreynd heilsubót

Jurtir og margvísleg náttúruleg efni geta gefið mikla heilsubót og aukið vellíðan. Þetta vissu formæður okkar og -feður og kenndu sínum börnum. Í dag þegar læknisdómar eru yfirleitt innan seilingar gleymist oft að grípa til þessara handhægu og þægilegu ráða. Rifjum upp nokkur náttúruleg og góð ráð sem nota má við ýmsum kvillum.

Bættu svefninn

Að drekka glas af flóaðri mjólk áður en farið að er sofa á kvöldin en gamalt og þrautreynt ráð við svefntruflunum. Vísindamenn eru ekki alveg sammála um hvað skipti mestu, ammínósýran tryptófan eða peptíð sem losna þegar mjólkin er hituð. Kannski skiptir engu hvort er því sannað er að efni í heitri mjólk hjálpa mönnum að slaka á og þeir sofna fyrr og ná dýpri og betri svefni.

Ilmurinn af lavender eða lofnarblómum hefur slakandi og róandi áhrif á fólk. Mjög margir fara í heitt bað á kvöldin og setja ögn af lavenderolíu út í til að hjálpa sér að sofna.

Þá þekkist einnig að drekka bolla af kamillutei fyrir svefninn, taka inn töflur úr Jóhannesarrunna, (St. John’s Wort) eða melantónín.

Lagaðu neglurnar

Neglurnar þynnast með árunum og oft verða þær stökkar. Til þess að laga það er gott að bera á þær kókosolíu eftir hvert bað, taka inn B-vítamín, það er B-complex sem er blanda allra B-vítamínanna, láta athuga stöðuna á járni í blóði og taka inn járn ef það vantar, taka inn magnesíum, sink og kalk. Hörfræ geta líka hjálpað og þau eru mjög góð fyrir konur því þau innihalda náttúrulegt estrógen. Að grípa um það bil lófafylli af valhnetum yfir daginn er líka frábært fyrir neglurnar því olíurnar í hnetunum styrkja þær.

Kláði

Sumarið er liðið á Íslandi og lúsmýið lagst í dvala en margir hyggjast ferðast til hlýrri landa og þar bíða moskítóflugur og annar ófögnuður. Það er gott til þess að vita að sítrónusafi getur dregið verulega úr kláða sem og áburður sem inniheldur sítrónu. Það er hægt að búa sér til eigin kláðavörn með því að skera sítrónu í sneiðar og setja úti í ólífuolíu og láta standa í nokkra daga. Olíunni er síðan hellt á flöskur og tekin með hvenær sem búast má við flugnabitum. Þess á milli er hún geymd í ísskáp.

Ógleði

Engifer er þekkt ráð við ógleði. Rótin hefur verið notuð með góðum árangri til að hjálpa ófrískum konum á fyrstu mánuðum meðgöngu og fólki í krabbameinsmeðferð. Fersk engiferrót er röspuð niður, sumir kjósa að afhýða hana fyrst og sett út í sjóðandi vatn. Látið standa í dálítinn tíma og síðan drukkið. Þetta ætti að slá á ógleðina innan tíðar.

Túrmerik

Túrmerik er fínasta krydd og einnig mjög góð tejurt. Það dregur úr bólgum í líkamanum sé það drukkið en það hefur einnig mjög góð áhrif á húðina. Túrmerik er gjarnan sett í sápur því það hreinsar bólótta húð og dregur úr elliblettum.

Hunang

Margir muna áreiðanlega eftir að hafa verið gefið hunang í heitu vatni þegar þeir voru með hálsbólgu í gamla daga. Þetta frábæra húsráð er gott og gilt og í hunangi eru bæði bólgueyðandi efni sem og bakteríudrepandi. Ef kvef og hálsbólga sækja að er fínt að fá sér eina teskeið af hunangi í bolla af heitu vatni og hver veit nema flensan hverfi.

Ritstjórn september 27, 2024 07:00