Tengdar greinar

Sjö hlutir sem gleymist að þrífa

Það voru ugglaust margir sem tóku sig til á dögum Covid og fóru að taka til í geymslum og þrífa eða laga til í íbúðinni sinni. Þannig var því háttað um konu nokkra sem sagt er frá á vefnum aarp.org. Hún hreisnaði eldhússkápa, fataskápa og tók til í ísskápnum. Þvoði hillur og ryksugaði út í öll horn. Óhreinindin sem höfðu safnast saman komu henni á óvart.

Margir áttuðu sig á heimilinu að það eru ákveðnir hlutir á heimilinu sem sitja gjarnan á hakanum þegar kemur að tiltektinni, hlutir sem þarf að þrífa, en sem við þrífum sárasjaldan. Og þótt fólk hafi enga sérstaka ánægju af hreingerningum skila þær hreinna og umhverfisvænna heimili, sem er gott fyrir heilbrigði þeirra sem þar búa.

1. Uppþvottavélin

Uppþvottavélin getur verið óhrein, þótt diskar og annað leirtau skili sér hreint og skínandi úr henni. Rannsóknir hafa sýnt að það safnast fyrir í uppþvottavélum bakteríur sem geta valdið sjúkdómum, allt frá matareitrun til útbrota í húð.

Til að losna við óhreinindi úr vélinni þarf yfirleitt að  taka upp síuna sem er á botni vélarinnar og þrífa hana. Þetta gildir um flestar nýlegar vélar. Best er að nota þvottaefni og bursta til að skrúbba óhreinindin í burtu. Síðan þarf að láta síuna þorna áður en hún er sett aftur á sinn stað. Mælt er með því að þetta sé gert einu sinni í viku.

Þegar búið er að hreinsa síuna þarf að hreinsa vélina að innan. Setjið skál fulla af ediki inní vélina og gætið að því að það sé skál sem má fara í uppþvottavél. Setjið á venjulega stillingu sem dælir heitu vatni inní vélina og losar þannig matarleifar og fitu sem situr föst í henni.

2. Bakaraofninn

Að hreinsa brenndar matarklessur úr botninum á ofninum og fituna sem hefur sest inní hann meðal annars á ofnhurðina, er líklega meðal þeirra heimilisverka sem menn hafa hvað minnstan áhuga á að taka sér fyrir hendur. Ofninn er að vísu það heitur þegar hann er notaður að bakteríur eiga sér þar ekki lífsvon. En það er ekki vegna baktería sem það er nauðsynlegt að þrífa ofninn. Brennandi leifar af mat á botni ofnsins hafa nefnilega áhrif á bragðið af matnum eða kökunum sem bakaðar eru í ofninum og geta eyðilagt það. Enginn kærir sig um kökur sem koma út úr ofninum eins og svartir kolamolar. Þá getur kviknað í fitunni sem hefur safnast saman í ofnunum.

Sumir ofnar eru sjálfhreinsandi og það er gott, svo langt sem það nær. En það er ekkert sem jafnast á við gömlu aðferðina við hreinsunina. Það eru oft sterk efni í ofnahreinsi. Það er hægt að nota sítrónusafa, matarsóda og edik til að hreinsa ofninn og losna þannig við lyktina af ofnahreinsinum sem á það til að verða eftir í honum, þannig að næsta máltíð sem er elduð í ofninum eftir hreingerninguna getur lyktað undarlega.

3. Háfurinn

Það er alls ekki óal­gengt að fólk gleymi að þrífa háfinn í eld­hús­inu en það er mjög auðvelt að taka rist­ina niður sem dreg­ur í sig öll óhrein­ind­in – og þetta er besta leiðin til að þrífa grind­ina.

Látið hana liggja í heitu sápu­vatni í klukku­stund. Stráið ein­um bolla af natroni yfir grind­ina, sem tek­ur öll auka óhrein­indi og bletti. Skolaðu og smelltu grind­inni inn í uppþvotta­vél. Leyfðu henni að þorna vel áður en þú smell­ir henni aft­ur upp í háfinn.

4. Margnota innkaupapokar

Viðurkennið það bara, innkaupapokarnir sem þið hendið í skottið eftir búðarferðina hafa aldrei komist í tæri við þvottavél. Þessir pokar sem eru mikið notaðir og aldrei hreinsaðir eru kjörlendi fyrir bakteríur. Þegar tekin var prufa af bakteríum í innkaupapoka sem hafið verði í skottinu á bíl í tvær klukkustundir og vökvi af kjöti hafði lekið niður í hann, kom í ljós að bakteríumagnið tífaldaðist við þetta. Ef sömu pokar eru notaðir til að bera heim hráar kjötvörur og hrátt grænmeti, væri með léttum leik hægt að búa til úr þeim salmonellu salat.

Til að komast hjá þessu er mælt með að fólk noti taupoka sem hægt er að þvo og setji þá reglulega í þvottavélina milli þess sem þeir eru notaðir. Það er líka ágætis regla að nota sér poka fyrir kjöt.

5. Þurrkarinn

Það er brunahætta af síu í þurrkara sem er full af ryki. Það þarf að hreinsa síuna eftir hvern þvott sem settur er í þurrkarann. Þeir sem hafa þurrkara með loftopi ættu að spyrja sig að því hvenær það var síðast hreinsað? Tauryk getur komist í loftopið sem liggur frá þurrkaranum og út. Það skapar brunahættu sem getur valdið miklu tjóni.

Það er hægt að hreinsa loftopið sjálfur með mjóum bursta, en það er líka hægt að fá fagmann í verkið. Góðu fréttirnar eru þær að það þarf einungis að gera þetta á þriggja mánaða fresti.

6. Rúmdýnur

Þó að fólk skipti að meðaltali á rúmunum á þriggja vikna fresti veita fæstir dýnunum nokkra athygli. Árið 2018 var gerð rannsókn á fjölda baktería annars vegar í bæli simpansa og hins vegar í rúmi mannfólks. Þessir frumstæðu frændur okkar sváfu á mun hreinni fleti en við. Einungis 3,5 prósent bakería komu frá húð þeirra, munnvatni og saur á svefnstaðnum á meðan sambærileg tala fyrir rúmdýnu mannsins var 35%.

Til að hreinsa dýnuna skaltu taka utan af henni verið og ryksugaðu alla dýnuna, sérstaklega í kringum sauma eða aðra staði þar sem óhreinindi og ryk safnast saman. Ef ekki er ver utanum dýnuna er hún ryksuguð vel. Notið blettahreinsi til að hreinsa burt staka bletti. Stráið matarsóda yfir dýnuna til að eyða úr henni lykt og ryksugið hann síðan burt. Þvoið verið utan af dýnunni eða setjið í hreinsun. Mælt er með að þetta sé gert á 6 mánaða fresti.

7. Borðtuskan

Stundum er borðtuskan skítugri en fletirnir sem þú ert að reyna að hreinsa. Rannsóknir hafa sýnt ótrúlegan fjölda baktería í borðtuskum. Þær þrífast vel í borðtuskunum, sem eru oft rakar og með þeim eru einnig hreinsaðar matarmolar sem bakteríurnar gæða sér á.

Eftir þrjá daga eru bakteríurnar í borðtuskunni orðnar rosalegar og best að skipta borðtuskunni út fyrir nýja og hreina tusku.

Ritstjórn september 9, 2021 07:00