“Nei. Þú þarft ekki að drekka 8 glös af vatni á dag”

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson varafréttastjóri skrifar

Þetta var fyrirsögn á grein í New York Times 24. ágúst síðastliðinn. Höfundurinn er Aaron E Carrol, prófessor við læknadeild Indiana University í Bandaríkjunum. Honum er málið skylt, því að fyrir átján árum birti hann ásamt fleirum niðurstöðu úr rannsóknum á þessu máli í BMJ (The International Journal of Healthcare Improvement). Niðurstaðan var sú að þetta væri ekki sönn staðhæfing. Engin vísindi lægju að baki.

Þessi staðhæfing vakti mikla athygli í fjölmiðlum víða um heim, en bar engan árangur. Mýtan lifir. Til dæmis birtust tvær rannsóknir árið 2012 sem staðfestu kenninguna um átta glösin. Önnur birtist í Annals of Nutrition and Metabolism og upplýsti að börn í París fengju ekki nóg vatn. Hin birtist í tímaritinu Public Health and Nutrition og upplýsti að börn í New York og Los Angeles fengju ekki nóg vatn og skorti vökva í líkamann.

Þegar menn lásu smáa letrið kom í ljós að fyrri rannsóknin var kostuð af Nestlé Waters og sú seinni af Nestec, sem bæði eru fyrirtæki sem framleiða vatn í flöskum til almennra nota. Bæði eru dótturfyrirtæki Nestlé matvæla- og sælgætisrisans.

En hvernig verður svona mýta til? Carroll segir að ef til vill megi rekja hana til skýrslu Food and Nutrition Board árið 1947 í Bandaríkjunum, opinberrar stofnunar sem fjallaði um næringarfræði. Þar sagði að fullorðið fólk þyrfti um það bil 2,5 lítra af vökva á dag. Þetta vakti mikla athygli, en fæstir tóku eftir næstu setningu: “Mest af þessu vatni fá menn í almennum matvörum”.

Enn heldur vitleysan áfram. Íslendingar fara út í búð og kaupa vatn í flöskum fyrir hærra verð en bensín kostar. Fjöldi Íslendinga trúir því statt og stöðugt að kranavatn í útlöndum sé meira eða minna mengað, ef ekki eitrað og í besta falli óhollt. Sannleikurinn er sá að í hinum vestræna eða þróaða heimi er óhætt að drekka kranavatn, enda fólk í þeim löndum langlíft með afbrigðum. Það er önnur saga að vatn í útlöndum er mismunandi gott á bragðið.

Það er því umhugsunarefni, þegar maður sér innflutt vatn í dósum í verslun á Íslandi, innflutt frá Danmörku. Eða þegar maður sér Kanadamenn kaupa vatn frá Fijieyjum, þar sem ekkert vatn er annað en regnvatn, mengað hvers kyns yfirborðsefnum. Í Kanada er hinsvegar nánast ótakmarkað framboð af hreinu vatni, eins og hér á landi.

Mér þótti það líka athyglisvert fyrir nokkrum dögum, að fara í verslun og kaupa Ísmola. Þar fengust vær tegundir. Önnur íslensk, með smágerðum molnuðum ísmolum, sem bráðna á skammri stundu í glasi. Hin frá Skotlandi, betur fryst, harðari molar og þar að auki ódýrari.

Hugsið ykkur, flutt til Íslands frosið vatn í frystigámum, ódýrara en íslenskt!

En þetta er ekki eina mýtan á sviði heilsu og heilbrigðis. Tökum nokkur dæmi af handahófi.

Bólusetningar valda einhverfu. 1998 birtist grein í breska tímaritinu Lancet, þar sem þessu var haldið fram, byggt á athugun á átta – ég endurtek – átta börnum. Síðan hafa verið gerðar margar rannsóknir sem sýna engin tengsl. Í English Journal of Medicine var 2002 sagt frá rannsókn á 520 þúsund bólusettum börnum, sem sýndi engin tengsl. En mýtan lifir góðu lífi.

Flatfótur er skaðlegur og eyðileggur bakið. Strax í fyrstu skólaskoðun vart mér sagt að ég væri með flatfót, sem þyrfti að laga. Fram að því hafði mér liðið ágætlega með fæturna eins og ég fékk í vöggugjöf. Alla tíð síðan hafa menn viljað laga flatfótinn, með þeim eina árangri að ég hef fengið skó sem meiða mig, en eiga að laga flatfótinn. Þessi trú var svo sterk að Bandaríkjaher hafnaði mönnum með flatfót, stundum allt að 20 prósentum. New York Times sagði frá því 1990 að þessu hefði loks verið hætt, þegar það kom í ljós að flatir fætur gætu jafnvel verið traustari við erfiðar aðstæður. Seinast þegar ég vissi var verið að setja innlegg í skó hjá börnum til að laga flatfót. Mýtan lifir.

Sætuefni eru óholl. Það virðist vera sterk tilhneiging til að tortryggja allt sem er gott á bragðið. Fyrir nokkrum vikum heyrði ég það í útvarpinu að sykur væri jafn hættulegur og sterk eiturlyf. Það er almenn vitneskja að sykur getur verið fitandi og því voru fundin upp sætuefni í staðinn. Sennilega hafa engar vörutegundir orðið fyrir öðrum eins árásum. Nefnum aðeins eitt þeirra.

Fyrsta sætuefnið mun vera Sakkarín, fundið upp á Johns Hopkins sjúkrahúsinu 1878. Það var svo 1970, sem rannsakendur komust að þeirri niðurstöðu að Sakkarín gæti valdið krabbameini í músum og 1977 var það bannað í Bandaríkjunum. Frekari rannsóknir sýndu að það hefði ekki áhrif á menn og var þá leyft aftur. Fresca gosdrykkurinn varð músunum að falli, en sagt var að þær hefðu drukkið sem samsvarar að maður drykki 240 flöskur á dag. Nú er fólki ráðlagt að nota sakkarín í hófi, eða ekki meira á dag en 250 smápoka, sem passa í kaffibolla. Það er auðvelt að sýna þessa hófsemi.

Nokkrar aðrar lífseigar mýtur:

Djúpsteiktur matur veldur bólum.

Sykur og sælgæti æsa börn upp, enda mest af því í afmælum og öðrum gleðskap.

Að lesa í rökkri skemmir sjónina.

Að sitja nálægt sjónvarpinu skemmir sjónina.

Að fara út í frost með blautt hár veldur kvefi og jafnvel heilaskaða.

Ef þú klippir eða rakar líkamshár vaxa þau hraðar.

Þú getur fengið kynsjúkdóma af klósettsetum.

Til að láta renna af þér áfengisáhrif er gagnlegt að drekka mikið kaffi.

Ef börn eru lengi með snuð eða sjúga fingur fá þau skakkar tennur

Góðu fréttirnar eru að nú er dýrafita, smjör og rjómi orðin holl aftur og eggin eru að fá uppreisn æru. En hvað sem öðru líður eru engir tveir einstaklingar eins. Hvað sem er getur haft áhrif á einn, en ekki annan.

 

 

 

Ólafur Sigurðsson september 25, 2015 14:42