Nei við að vera á síðasta söludegi

Þórunn Sveinbjörnsdóttir.

„Vitið þið hvað er til í framkvæmdasjóði aldraðra til úthlutunar í ár? Það eru um 172 milljónir en innkoman er um 2 milljarðar. Hvar eru þeir peningar sem þarna eru í millum?  Næsta ár er álíka. Rúmlega 200 milljónir verða þá til ráðstöfunar ef ekkert er að  gert? Þetta er nefskattur sem við borgum og er ætlaður til uppbyggingar hjúkrunarheimila fyrst og fremst. Skortur á hjúkrnarheimilum veldur því að fólk festist inn á sjúkrahúsum og með því versnar heilsa fólks. Og svo tala fjölmiðlar niður til þessa fólks um að það skerði fráflæði  (gegnumstreymi)  frá Landsspítla en það er ekki eldra fólksinu að kenna! Hvar er virðingin fyrir langveiku fólki?“ spurði Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landsambands aldraðra á baráttufundi eldra fólks með fulltrúum stjórnmálaflokkanna í Háskólabíó. Þróurnn gerði frítekjumarkið einnig að umræðuefni.

„Vitið þið að flakkað hefur verið  með frítekumark eldri borgara mörgum sinnum síðan frá hruni. Ein ríkisstjórnin flutti það upp í 109 þúsund eftir hrun en fyrst eftir hrun var það 40 þúsund. Um síðustu áramót var það lækkað í 25 þúsund krónur. Hvaða vinnubrögð eru þetta að margskatta eldra fólk sem vill geta séð sér farborða. Að afla sér viðurværis er skráð í stjónarskrá vora! Það eru mannréttindi að vera sjálfbær eldri borgari og takmarkanir s.s. vegna aldurs eru brot á mannréttindum.  Heilinn hættir ekki að starfa við einn afmælisdag. Við segjum nei við að vera á síðasta söludegi. Þær skerðingar sem voru auknar á aldraða með nýjum lögum 1.  jan. s.l. verða að hverfa.  Skerðingar gagnvart lífeyistekjunum voru 38.30%, er var hækkað í 45%. Lífeyriskerfið er okkar önnur stoð fyrir velferð eldra fólks.“

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem mættu á fundinn voru sammála um að það yrði að hækka frítekjumarkið eða afnema það með öllu. Guðlaug A. Kristjándóttir frá Bjartri framtíð sagði að hennar flokkur vildi að það frítekjumarkið yrði afnumið hraðar en gert er ráð fyrir í núgildandi fjármálaætlun. Aldraðir ættu að geta aflað sér lífsviðurværis. Lilja Alfreðsdóttir Framsóknarflokki sagði að það ætti að afnema frítekjumarkið. Það væri keppikefli hennar flokks. Þorsteinn Víglundsson Viðreisn sagði að það kostaði aðeins 2 til 2 1/2 milljarð að afnema frítekjumarkið. Það ætti að afnema að fullu skerðingar vegna atvinnutekna og gera það í einu skrefi. Óli Björn Kárason Sjálfstæðisflokki sagði að það ætti að hækka fríktekjumark vegna allra tekna upp í 100 þúsund krónur strax. Inga Sæland Flokki fólksins vill afnema frítekjumarkið. Hún sagði að það væri lýðheilsusjónarmið að leyfa eldra fólki að vinna. Þorsteinn Sæmundsson Miðflokknum vill sveigjanleg starfslok. Hann segir að Miðflokkurinn telji að atvinnutekjur eigi ekki að skerða lífeyristekjur.  Jón Þór Ólafsson Pírötum segir að það sé hægt að breyta þessu strax. Það eigi að afnema allar skerðingar. Hann talaði fyrir borgaralaunum. Logi Einarsson Samfylkingunni segir að það eigi að hækka frítekjumarkið strax eftir kosningar. Það sé fyrsta skrefið, því næst eigi að hækka ellilífeyririnn það komi fleira eldra fólki til góða. Katrín Jakbosdóttir Vinstri grænum sagði að hennar flokkur vildi hækka frítekjumarkið upp í 109 þúsund krónur um næstu áramót. Síðan yrði að hækka framfærsluna svo enginn yrði undir fátækramörkum.

Það var líka rætt um framfærsluviðmið. Fram kom að Velferðarráðuneytið telur að fólk þurfi 224 þúsund krónur á mánuði til að geta fætt sig og klætt en 400 þúsund ef tekið er tillit til húsnæðiskostnaðar.

Inga Sæland sagði að það ætti að hækka persónuafslátt og tryggja að enginn fengi undir 300 þúsund krónum útborgað um hver mánaðamót. Það væri algert lágmark. Óli Björn sagði að hann myndi aldrei lofa því að greiðslur til ellilífeyrisþega yrðu hærri en lágmarkslaun í landinu. Þorsteinn Víglundsson sagði að innan við fimm prósent launafólks væri á lágmarkslaunum. Hann sagði að neysluviðmiðið væri ekki fullkomið viðmið en lífeyrisgreiðslur ættu ekki að vera lægri en lágamarkslaun. Lilja sagði að mestu máli skipti að fólk næði endum saman hver sem viðmiðin væru. Það þurfi að huga að heildarstefnumótun í málefnum eldra fólks. Það þurfi að bæta kjör þess heilt yfir. Guðlaug minnti á að margar eldri konur byggju við þröngan kost. Það þyrfti að huga að stöðu þeirra. Þorsteinn Sæmundsson sagði lífeyrisgreiðslur ættu að fylgja lágmarkslaunum en þau væru of lág í dag og það ætti að hækka þau. Þá  þyrfti að huga að húsnæðismálum og lækka vöruverð. Jón Þór benti á að það væru fimm viðmið í gangi þegar kæmi að framfærsluviðmiðum. Það þyrfti að búa til nýtt viðmið. Logi sagði allt of margir byggju við fátækt á Íslandi. Hann sagði að Samfylkingin styddi að lífeyrisgreiðslur hækkuðu í takt við laun í landinu. Katrín sagði að það væri óviðundandi að fólk væri undir fátækramörkum. Lágmarkslaun dygðu ekki til framfærslu og þau þyrftu að hækka. Hún sagði að lífeyrisgreiðslur ættu að fylgja launaþróun í landinu auk þess þyrfti að grípa til aðgerða í húsnæðismálum og draga úr þátttöku fólks í heilbrigðiskostnaði.

Ritstjórn október 16, 2017 13:24