Tengdar greinar

Tíu mest lesnu greinar ársins á Lifðu núna vefnum

Tíu mest lesnu greinarnar á Lifðu núna árið 2022 voru eftirfarandi og gefa nokkra hugmynd um það efni sem er þeim hugleikið sem eru komnir yfir miðjan aldur.

1 „Óvænt hversu auðvelt var að hætta að vinna“.

Mest lesna greinin var þetta viðtal við Heimi Sindrason tannlækni sem er þekktur fyrir ýmislegt, en líklega þó mest fyrir lagið sem hann samdi við ljóð Tómasar Guðmundssonar skálds, Hótel Jörð.  Þótt Heimir hafi lagt fyrir sig langskólanám, gekk námið hjá honum brösuglega til að byrja með.

Fyrst þú nennir ekki að læra getur þú alveg eins farið bara að vinna fyrir þér,” sagði móðir Heimis þegar útkoman úr jólaprófunum á fyrsta ári hans í MR voru birtar. Þær gáfu til kynna að Heimir hefði ekki stundað námið vel það sem af var vetrar og það boðaði ekki gott fyrir vorprófin. ,,Ég er búin að fá pláss fyrir þig í Hraðfrystihúsinu í Vestmannaeyjum og nú skaltu fara þangað,” sagði móðir hans og það varð úr. ,,Ég sagði skilið við skólann en þar hafði ég byrjað haustið 1961. Þegar ég fékk svo stúdentsskírteinið mitt 1967 stóð að ég hefði verið þar frá ´61 til ´67, það er að ég hefði verið sex ár að ná stúdentsprófinu. Mér þótti leiðinlegt að hafa þetta á skírteininu af því það átti ekki að taka nema fjögur ár að ná stúdentinum. En Guðrúnu Helgadóttur, ritara rektors, varð ekki hnikað og sagði að þetta væri sannleikurinn sama hvaða leið ég hefði farið að því að ná prófinu. Og auðvitað gat ég sjálfum mér um kennt.”

Sjá allt viðtalið.

2. Kynntust á bar fyrir 40 árum og eru nýgift

Viðtal við hjónin Jón Ársæl og Steinunni Þórarinsdóttur myndhöggvara vakti mikla eftirtekt en þau búa í Reykjavík og hafa búið sér annað heimili í náttúruparadís undir Eyjafjöllunum.

Þau eru þakklát fyrir góða heilsu sem þau segja að sé forsenda þess að geta átt góð efri ár. ,,Það eru nefnilega mikil sannindi í málshættinum um að heilbrigður maður eigi sér margar óskir en óheilbrigður aðeins eina. Mér leið alltaf eins og ég væri eilífur,” segir Jón og brosir, ,,en hef nú komist að því að svo er ekki.”

Steinunn samsinnir Jóni og bætir við að sér hafi þótt skrýtið að hafa verið beðin um viðtal um það hvernig væri að eldast. ,,Ég sá enga ástæðu til að ræða aldurinn yfirleitt en þegar ég fór að hugsa mig um hefur lífið auðvitað tekið breytingum með hækkandi aldri. Sem dæmi hafa hendur mínar minnt á sig  en ég er ekki lengur með hendur ungrar konu,” segir Steinunn en hún fór að finna fyrir sliti við vinnu sína því höggmyndalist reyni óneitanlega á hendurnar. ,,Ég hef oft þurft að reiða mig á aðstoð við vissa vinnu í seinni tíð og þá hefur Jón komið sterkur inn sem sérlegur aðstoðarmaður og reddari“.

Smelltu hér til að lesa allt viðtalið.

3. Gerðu upp gamlan sveitabæ eftir að þau fóru á eftirlaun

Grænhóll á Barðaströnd er annað heimili hjónanna Eiríks Jónssonar fyrrverandi formanns Kennarasambands Íslands og Bjargar Bjarnadóttur leikskólakennara, sem er ættuð af Barðaströndinni. Í þessu viðtali greinir Eiríkur frá því sem hann tók sér fyrir hendur eftir að hann hætti sem formaður KÍ.

Ég fékk tilboð um að koma í byggingavinnu stax árið 2012 og þáði það. Elsti bróðir minn er byggingameistari og ég var að vinna töluvert hjá honum í frítímum hér áður fyrr og lærði margt af honum. Þetta var því í raun upprifjun en um leið margt nýtt sem ég lærði. Ég var síðan í byggingavinnunni til ársins 2016. Konan mín var fram að því að vinna en hún er leikskólakennari og starfaði hjá Kennarasambandinu, var lengi formaður Félags leikskólakennara og síðar varaformaður Kennarsambandsins.

Árið 2016 eignuðumst við gamlan sveitabæ á Barðaströndinni sem heitir Grænhóll. Við tókum okkur til og gerðum hann algjörlega upp, úti sem inni og unnum þá vinnu að mestu leyti sjálf. Við erum mikið þar, jafnt að sumri sem að vetri og erum smám saman að bæta aðstöðuna svo sem með að smíða barnahús og gera hlöðuna hæfa til að halda partý. Þetta  verkefni hefur sem sagt átt hug okkar meira og minna síðustu árin“.

Hér er slóð á allt viðtalið.

4. Meiri lífsfylling að búa með öðrum en vera einsamall.

Margrét Sölvadóttir og Jóhann Stefánsson hófu sambúð á efri árum.

Ég var fastagestur í dansinum hjá Félagi eldri borgara í Stangarhyl“, segir Margrét og þar hittust þau Jóhann fyrir fjórum árum. „Ég var búinn að vera ekkjumaður í fimm ár á þessum tíma“, segir Jóhann. „ Þegar maður er einsamall í lengri tíma, verður erfiðara að hafa sig af stað í að gera ýmsa hluti, svo sem eins og að fara í bíó, leikhús, sund eða ferðalög. Ég fór að hugsa málið, hafði heyrt af þessum dansi hjá eldri borgara félaginu í Reykjavík og ákvað að kíkja þangað“.  Þetta reyndist örlagarík ákvörðun, því þarna kom Margrét auga á hann. „ Hann sat þarna úti í horni þessi elska og bauð engum upp. Svo var ég stök í hringdansi og vinkaði til hans og spurði hvort hann kæmi ekki í dansinn. Ég hef ekki losnað við hann síðan“, segir hún hlæjandi. Ári eftir að þau hittust fóru þau að búa saman í Árbænum.

Sjá allt viðtalið við Margréti og Jóhann hér.

5. Átta atriði sem benda til þess að þú þurfir að drekka meira.

Þetta er þýdd grein um nauðsyn þess að innibyrða nægan vökva, þetta snýst sem sagt ekki um að drekka meira áfengi!  Í greinni segir meðal annars.

Ef þú ert þyrstur, ertu hugsanlega þegar farinn að tapa vökva, sérstaklega ef þú ert orðinn 65 ára eða eldri. Þegar menn verða eldri þarf meira til að þeir finni fyrir þorsta, en þegar yngra fólk verður þyrst. Vatnsskorturinn er því einfaldlega orðinn meiri þegar hann fer að segja til sín í elda fólki.  Jafnvel þótt menn finni ekki fyrir þorsta er þeim ráðlagt að drekka vel yfir daginn. Nefnd eru til sögunnar átta glös af vökva á dag og jafnvel meira hjá þeim sem eru í líkamlegri áreynslu. Fyrir utan venjulegt vatn er mælt til dæmis með safa, orkudrykkjum og vatni með bragðefnum.

Til að lesa alla greinina má smella hér.

Hér fyrir neðan er yfirlit yfir fleiri greinar sem voru meðal þeirra tíu mest lesnu á árinu. Til að lesa þær má smella á fyrirsögn hverrar fyrir sig.

  1. Fimm helstu ástæður þess að fólk skilur á efri árum. Kveikjan að þessari grein var skilnaður þeirra frægu hjóna,  Bills og Melindu Gates.
  2. Barnabörnin og starfslokin kölluðu þau suður. Viðtal við hjónin Sigurð Rúnar Ragnarsson og Ragnheiði Hall sem fluttu á eftir börnunum til höfuðborgarinnar.
  3. Getur borgað sig að byrja snemma að taka út lífeyri? Viðtal við Aðalstein Sigurðsson lífeyrisráðgjafa.
  4. Lína Rut Wilberg, listamaður og baráttukona. Viðtal við Línu Rut.
  5. Betra að ráðst í að minnka við sig meðan heilsan heldur. Viðtal við Bryndísi Evu Jónsdóttur innanhússarkitekt.

 

Ritstjórn desember 30, 2022 07:00