Landssamband eldri borgara krefst skjótra viðbragða til að vinna bug á skorti á hjúkrunarrýmum í landinu og jafnframt að byggingu nýrra hjúkrunarrýma verði hraðað. Það krefst einnig fjölbreyttari lausna í húsnæðismálum fyrir eldra fólk í landinu.
Þetta kemur fram í ályktun sem sem var samþykkt rétt í þessu á landsfundi LEB sem haldinn er í Hafnarfirði í dag. Í ályktuninni segir jafnframt:
Landsfundur LEB lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu eldra fólks vegna viðvarandi skort á hjúkrunarrúmum.
Einnig lýsir fundurinn vonbrigðum sínum með hvað hægt gengur að mæta vaxandi þörf á hjúkrunarrýmum en í dag bíða um 425 manns eftir plássi og þar af eru tæplega 100 sem liggja á LSH og bíða eftir að geta útskrifast.
Í skýrslu Halldórs S. Guðmundssonar frá júní 2021 „Virðing og reisn“ er lagt mat á þörfina fyrir hjúkrunarheimili fram til ársins 2035 miðað við óbreytt hlutfall 80 ára og eldri sem þarfnast búsetu á hjúkrunarheimilum.
Til að mæta óbreyttri þörf þarf að bæta við 136 rýmum á ári sem er árleg fjárfesting uppá rúma 6 milljarða kr.
Það kemur fram í ályktunini að í fjárlögum þessa árs og fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2023-2027 er gert ráð fyrir að fjárfesta í hjúkrunarheimilum fyrir 19,5 milljarða króna sem séu rúmlega 400 rými eða um 70 ný rými að meðaltali á ári. Síðan segir.
Gangi þessi markmið óbreytt fram er ljóst að ekki er verið að taka á skorti á hjúkrunarrýmum og lausn á útskriftarvanda Landsspílans ekki í sjónmáli. Landsfundurinn krefst skjótra viðbragða og að brugðist verði við með hraðari uppbyggingu nýrra heimila um land allt, en jafnframt verði boðið uppá fjölbreyttari lausnir fyrir eldra fólk.
Einnig er mikilvægt að endurskoða greiðslufyrirkomulag íbúa hjúkrunarheimila, tryggja þeim fjárhagslegt sjálfstæði og gera allt ferlið gagnsætt.
Landssambandið krefst þess að koma að úrlausn mála og telur mikilvægt að eldra fólk hafi aðstöðu til að hafa áhrif á sitt eigið líf.
Þetta er ekki fyrsta ályktunin sem Landssamband eldri borgara sendir frá sér vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Það ríkir algert ófremdarástand í þessum málum. Fjögamalt fólk situr lasið heima og fær ekki þá aðhlynningu sem það þarfnast og margir aðstandendur eru örmagna.
Þetta er neyðarkall frá Landssambandinu um að stjórnvöld taki á þessum málum tafarlaust!