Allir þeir sem horfðu á RÚV á níunda og tíunda áratug síðustu aldar þekkja Bergerac. Rannsóknarlögreglumanninn snjalla á eynni Jersey sem leysti hvert einasta sakamál sem þar kom upp og átti stormasömu sambandi við fyrrum tengdaföður sinn, bankamanninn Charlie Hungerford. Nú er búið að gera nýja seríu byggða á þessum sömu persónum og verið er að sýna þá í Bretlandi.
Það var John Nettles sem lék Bergerac í fyrri þáttunum og eflaust enn í fersku minni minni margra, enda myndarmaður með ísblá augu. Við hlutverkinu tekur Damien Molony, ekki síður myndarlegur en allt önnur týpa. Að öðru leyti eiga þessir tveir, Jim Bergerac, margt sameiginlegt. John Nettles lék að vísu fráskilinn mann en Damien ekkil. Báðir glíma við fíknivanda, báðir eiga dóttur og báðir takast á við tengdaforeldri. Charlie Hungerford er hins vegar kona í nýju seríunni. Rík og ansi lunkin peningamanneskja með langan og farsælan feril í bankageiranum að baki. Það er hin frábæra Zoë Wanamaker sem leikur hana.
Þegar nýju þættirnir byrja er Jim Bergerac á fundi í tólf spora samtökum og lýsir lamandi sorginni sem hann er að takast á við. Hann er í leyfi frá lögreglunni og aðeins sex mánuðir eru síðan konan hans dó. Í fyrstu halda áhorfendur að áfengisneyslan sé að baki en fljótlega er ljós að svo er ekki. Dóttir hans býr hjá honum en ákveður að flytja til ömmu sinnar, enda þar meira öryggi að finna. Þegar eiginkona sonar eins ríkasta manns á eyjunni er myrt í barnaherbergi heimili síns freistar Jim þess að fá að koma aftur til starfa. Hann þarf að hafa fyrir því að sannfæra yfirmann sinn um að hann sé tilbúinn og ákveður að taka sig á, kveðja flöskuna. En það eru hæðir og lægðir bæði í rannsóknninni og lífinu og Jim stendur tæpt. Það er svo ekki úr vegi að gleðja bílaáhugamenn með að upplýsa að hinn nýi Bergerac á og keyrir líka Triump Roadster árgerð 1949.
Drykkfelldi einfarinn
Þetta þema er svo sem ekkert nýtt. Í langan tíma hafa flestir snjallir rannsóknarlögreglumenn og spæjarar sakamálaþátta og -bóka glímt við vímuefnavanda, verið einamana, sorgmæddir einfarar í leit að lífsfyllingu gegnum starfið. Allir svo gagnteknir af því að leysa glæpamál að ekkert annað kemst að meðan einhverjir þræðir eru óleystir. Hér bætist við að Jim Bergerac þarf að takast á við samstarfsfélaga, Barney Crozier sem telur verið ýta sér til hliðar og í raun gera lítið úr sér með að kalla inn mann sem er greinilega óhæfur til starf.
En allt er þetta hráefni í dásamlega sjónvarpsköku og þessir þættir verða án efa jafnvinsælir og hinir fyrri. Ekki skemmir tökustaðurinn fyrir. Þegar fyrri þáttaseríurnar voru sýndar jók það gríðarlega ferðamannastraum til Jersey. Fólk heillaðist af fallegu umhverfinu og ekki spillti að tennisvellir, golfvellir og sundlaugar voru þar nægar. Útsýni yfir hafið er dásamlegt og ekki vantar að persónur þáttanna nýti sér það á ögurstundum.
John Nettles er áttatíu og eins árs og þegar breskir fjölmiðlar leituðu til hans og spurðu hvernig honum litist á að verið væri að endurgera þættina sagðist hann fagna því. Þeir forvitnuðust auðvitað um hvernig honum litist á arftaka sinn og hann sagði: „Ef ég var Cliff Richard er hann mun líkari Clint Eastwood.“ Ekki leiðinlegur samanburður það.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.