Ég hef mjög einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta. Fötin frá Sævari Karli. Þannig hljóðaði textinn í sjónvarpsauglýsingu sem vakti athygli á níunda áratug síðustu aldar. Uppfrá því varð verslun Sævars Karls staðurinn þar sem Íslendingar keyptu sparifötin sín. Sævar Karl hóf verslunarreksturinn árið 1974 ásamt Erlu Þórarinsdóttur viðskiptafélaga sínum og eiginkonu. Verslunin gekk vel og á uppgangstímanum fyrir hrun vildu margir kaupa hana. „En hún var ekki til sölu“, segir Sævar Karl. Það fór þó svo að þau fengu tilboð sem ekki var hægt að hafna og seldu verslunina árið 2007, nokkru fyrir hrun.
Komu með afa í búðina
Sævar Karl sem nú hefur snúið sér að myndlist, segir að það sem hafi verið skemmtilegast við starfið í versluninni hafi verið allt fólkið sem hann hitti á þessum tíma. „Það sem var mest gefandi var að hitta kúnnana mína og gera þá glaða. Við þjónuðum mörgum kynslóðum. Fólk kom með börnin sín, eða afa sinn í búðina til okkar. Við þekkjum fjölda fólks á öllum aldri um allt land. Það er meiriháttar að vera farsæll kaupmaður og að sjá viðskiptavinina koma aftur og aftur með bros á vör“.
Tekur mörg ár að hætta
Sævar Karl segir að þau hjónin hafi verið í fyrirtækinu af lífi og sál og líka heima hjá sér. „Það tekur langan tíma að losa sig við það“, segir hann og rifjar upp að þegar hann var á skíðum í Austurríki jólin 2008 hafi hann skíðað samhliða heimamanni þar sem bauðst til að sýna honum brekkurnar og bestu staðina. Þeir tóku tal saman. „Hann hafði rekið stórfyrirtæki en hætt fyrir 7-8 árum og sagði að það hefði tekið sig 4 ára að hætta. Ég held að þetta sé öðruvísi með konur, en karlar hafa ekki mikið hugmyndaflug út fyrir vinnuna og hafa því ekki að svo mörgu öðru að hverfa. Menn venjast því sem stjórnendur að dagleg störf fari í það að leysa viðfangsefnin í vinnunni“ segir Sævar Karl.
Hélt að síminn myndi ekki stoppa
Þessa dagana tekur Sævar Karl þátt í samsýningu sem nú stendur yfir í Feneyjum á Ítalíu. Henni lýkur um miðjan júní og þá verður hún tekin niður og sett upp aftur í München í Þýskalandi, en Sævar Karl og Erla fluttu þangað skömmu eftir að þau seldu búðina. „Ég hélt þegar ég seldi búðina að ég hefði svo mikla reynslu og þekkingu að eftirspurn eftir mínum kröftum yrði svo miklil að síminn myndi ekki stoppa. En svo reyndist ekki. Við ákváðum að hefja nýtt ævintýri í lífinu og flytja til München þar sem yngri sonur okkar, Atli Freyr bjó. Borgin er yndislega falleg og þar fluttum við inní 30 íbúða fjölbýlishús. Mér fannst gott að vera þar sem enginn þekkti mig og hálf óþægilegt að koma heim og sjá nafnið mitt blasa við á húsgaflinum í Bankastrætinu“.
Þjóðverjar sigldu framhjá kreppunni
„Ég fór að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera“, segir Sævar Karl. Hann segist hafa fundið skóla svipaðan Myndlistarskóla Reykjavíkur í næstu götu og farið að sækja tíma þar. Hann reyndi fyrir sér með hönnun eigin fatalínu, en árið 2008 fóru Þjóðverjar hins vegar að búa sig undir kreppu, felldu niður byggingakrana og drógu saman á öllum sviðum. Þótt línan kæmist í fagtímarit í Þýskalandi gerði samdrátturinn það að verkum að ekki var jarðvegur fyrir nýjungar að sinni. Mörg fyrirtæki minnkuðu vinnu fólks niður í hálfs dags vinnu og biðu eftir betri tíð. „Mér sýndust Þjóðverjarnir sigla þannig framhjá kreppunni“ segir Sævar Karl.
Ólst upp í Laugarneshverfinu
Sævar Karl er Reykvíkingur og ólst upp á Laugarnesveginum í hópi 5 systkina. Faðir hans Óli Diðriksson vann hjá Shell alla ævi, en móðir hans Bergljót Ólafsdóttir var kjólameistari. Aðspurður hvort mamma hans hafi haft áhrif á að hann varð klæðskeri, segist hann ekki vita almennilega hvort svo sé. Hann hafi sem ungur maður haft mikinn áhuga á fötum og viljað vera vel til hafður. Hann gekk í Laugarnesskóla, fór seinna í Loftskeytaskólann og útskrifaðist þaðan 17 ára. Hann segir að flestir sem fóru í Loftskeytaskólann hafi haft áhuga á tækni og margir hafi síðan farið í flugumferðastjórn, vélstjórn og slík störf. Loftskeytaskólinn hafi á þeim tíma verði tækniskólinn í Reykjavík.
Ekki bara unglingar sem hanga í tölvu
„Nú eru loftskeytin horfin og allt komið í tölvurnar“ segir Sævar Karl. „Maður er alltaf í tölvunni. Þetta er orðinn sjúkdómur. Ég sest við tölvuna og bíð eftir frétt, en svo er ekkert að gerast. Þetta er svipað og þegar maður reykti, þetta er ávani. Það eru ekki bara unglingarnir sem hanga í tölvu. Maður fer á kaffihús, en ekki til að spjalla við fólk, því þar sitja menn þegjandi hver í sinni tölvu eins og þeir séu á skrifstofu en ekki kaffihúsi“. Eftir loftskeytaskólann var Sævar Karl á togurum í 3 ár.
Hitti blómarós á Borginni
Það urðu umskipti í lífi hans þegar hann kornungur hitti unga blómarós á Borginni. Það var Erla Þórarinsdóttir lífsförunautur Sævars Karls til næstum 50 ára. Þau voru um tvítugt þegar þau eignuðust fyrri drenginn sinn Þórarinn Örn. En þau eiga tvo syni og þrjú barnabörn. Annar býr í Þýskalandi en hinn í Noregi og þar eru barnabörnin. Þegar þau voru komin með barn fór Sævar Karl að vinna hjá Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli, en þar var unnið á vöktum og í vaktafríunum sneri hann sér að því að læra til klæðskera. Hann varð að lokum meistari í þeirri grein.
Stöðugar æfingar
Hann segir að það sem hann sé að gera í myndlistinni gangi út á það að gera stöðugt betur. Það sé eins með myndlistarmanninn og tónlistarmanninn, þeir þurfi stöðugt að æfa sig. „En eftir því sem maður lærir meira sér maður hvað maður veit lítið“, segir Sævar Karl sem stundaði nám í þrjú ár í og Kunstakademie Bad Reichenhall og útskrifaðist þaðan í myndlistinni. Hann er með vinnustofu í Ingólfsstrætinu í húsnæði sem eitt sinn var lager fyrir verslun Sævars Karls. Þar blasa við litrík og falleg verk, meðal annars stórt verk sem Markús Þór Andrésson skrifaði um í Læknablaðið. Þar lýsir hann verkinu og segir meðal annars. „Maður fær á tilfinninguna að kraftur og sveifla einkenni sköpunarferli slíkra verka og hugsar með sér að gaman væri að vera fluga á vegg á vinnustofunni.
Eignuðust nýja vini
Það má segja að eftir verslunarrekstur Sævars Karls og Erlu, hafi tekið við hjá þeim nýtt líf og nýtt ævintýri, bæði hér heima og í Þýskalandi. Þegar þau fluttu inní húsið í München ákváðu þau að bjóða öllum sem þar bjuggu í „reisugilli“ að íslenskum sið. Flest allir nágrannarnir mættu og þau buðu jafnframt fólki sem þau höfðu kynnst í München og þurft að hafa samskipti við. „Þannig kynntumst við fullt af fólki. Það búa þarna listamenn og fólk sem er mikið útávið. Eftir að við héldum reisugillið buðu aðrir okkur heim til sín og kynntu okkur fyrir sínum vinum. Þannig höfum við eignast nýja vini, þó við séum komin til útlanda og ég tali þýskuna ekki reiprennandi“, segir Sævar Karl.
Öðruvísi að sýna myndirnar
Hann hefur lengi haft áhuga á myndlist og um tíma ráku þau Erla gallerí í kjallara verslunar Sævars Karls í Bankastræti. Það eru tveir áratugir síðan hann fór fyrst á námskeið í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Þegar blaðamaður Lifðu núna hitti hann í Vinnustofunni í Ingólfssstrætinu á dögunum ómaði þar sígild ítölsk tónlist sem fór einkar vel með myndunum fallegu og Sævar Karl sat í hægindastól í gallabuxum og köflóttri skyrtu. Hann segist mála það sem hann langar til. Þegar hann haldi sýningar, sjái hann myndirnar öðruvísi en í vinnustofunni. Það sé gott að sjá hvernig aðrir upplifi myndirnar og það gefi sér kraft til að gera nýjar myndir, eða skipta um efni og stíl. En um myndirnar hljóti alltaf að vera skiptar skoðanir.