Nýlega var þetta hús, hús dagsins hjá Guðjóni Friðrikssyni sagnfræðingi, en hann hefur birt myndir og fróðleik um 160 hús á Facebook síðu sinni. Við birtum með hans leyfi færslu hans um þetta fallega hús og hann tók líka myndina.
Hús dagsins (159). Sólvallagata 15 í Reykjavík. Fyrir tæpum 100 árum myndaðist nýtt villuhverfi á svokölluðum Sólvöllum fyrir vestan gamla kirkjugarðinn og risu þar þá mörg falleg steinsteypt hús við götur eins og Sólvallagötu og Ásvallagötu. Flest voru í nýklassískum stíl sem þá var hæstmóðins og þar á meðal þetta fallega og vel viðhaldna hús, teiknað af stórmeistaranum Einari Erlendssyni árið 1925. Húsbyggjendur voru hjónin Gunnhildur Jónsdóttir og Bogi Ólafsson menntaskólakennari. Þau áttu húsið þó ekki lengi því um 1930 keypti það Páll Eggert Ólason prófessor, bankastjóri og bæjarfulltrúi. Hann bjó þarna með Margréti Magnúsdóttur, þriðju konu sinni sem dó árið 1946. Árið eftir seldi hann húsið. Páll Eggert var einhver stórvirkasti fræðimaður sem við höfum átt. Meðal verka hans er ritsafnið Menn og menntir, ævisaga Jóns Sigurðssonar forseta í fimm bindum og Íslenskar æviskrár. Á tíma Margrétar og Páls í húsinu bjó þar einnig ein af þekktustu kvenréttindakonum landsins. Sú var Inga Lára Lárusdóttir sem lengi ritstýrði ársritinu“19. júní”. Síðar eða 1962 eignuðust húsið hjónin Guðrún Stefánsdóttir og Guðjón Hólm Sigvaldason lögmaður, síðast forstjóri heildsölufyrirtækisins John Lindsay. Það er enn í eigu þeirrar fjölskyldu. Nú búa þar hjónin Helga Ottósdóttir hjúkrunarfræðingur og Stefán Sigurður, sonur Guðjóns Hólm og Guðrúnar, nú forstjóri John Lindsay.