Segðu okkur Eggert, hvað er Pizza?

Margir sem nú eru komnir yfir miðjan aldur muna þá tíð þegar pizza var alsendis óþekkt fæða á borðum Íslendinga. Morgunblaðið ræddi í desember árið 1970, við Eggert Eggertsson matreiðslumann í Smárakaffi, sem tjáði blaðinu að Íslendinga vantaði enn margt til að geta tekið á móti erlendum ferðamönnum, sem sumir vildu ítalska rétti, en aðrir kínverska. Hann var síðan spurður að því hvernig gengi að kynna Íslendingum ítalska réttinn Pizza. Gefum Eggerti orðið.

Jú takk, bærilega, þetta er að koma, ég held að flestum þykir þessi réttur góður, en sjálfsagt verða menn að venjast honum.“

„Segðu okkur, Eggert, hvað er Pizza?“

„Pizza er heimskunnur ítalskur þjóðarréttur, sem samanstendur af brauðbotni, ansjósum eða sardínum, tómötum og osti, eiginlega miklu af osti, því að hann er bæði undir og ofan á. En réttur þessi má ekki harðna, hann verður alltaf að vera ferskur og nýr. Hans verður að neyta strax. Sú raunverulega Pizza hefur skinku og aspargus að uppistöðu og ríkulegt af kryddi, rosemary og timian og alls konar kryddi til viðbótar.“

„Segðu mér, Eggert, heldurðu að Pizza falli Íslendingum í geð?“

„Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Í flestum löndum, bæði austan hafs og vestan, er að finna matsölustaði, þar sem aðalrétturinn er ítölsk Pizza. Ferðamenn og heimafólk nýtur þess í ríkum mæli að heimsækja þessa staði og gæða sjálfum sér og gestum sínum á þessu lostæti. Þá er Pizzan borin fram heit,nýbökuð og glas af góðu öli eða víni þá jafnframt borið með.“

Ritstjórn janúar 15, 2015 16:07