Of gömul til að fá vinnu á Íslandi en ekki í Noregi

Guðrún Jóna hefur mikla ánægju af fjallgöngum. Hér er hún á Snæfellsjökli.

Guðrún Jóna hefur mikla ánægju af fjallgöngum. Hér er hún á Snæfellsjökli.

Guðrún Jóna Kristjánsdóttir þroskaþjálfi er búin að leita sér að vinnu í eitt og hálft ár hér á landi en án árangurs. Nú hefur hún hins vegar fengið vinnu í Noregi og er á förum af landi brott. „Eina starfið sem ég hef fengið hér er að kenna yoga þrisvar í viku, klukkutíma í senn, hjá Heilsuborg,“ segir Guðrún Jóna.

Ekki mikið eftir

Hún hefur fengið um tvöhundruð þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði og það hefur orðið að duga henni til framfærslu auk yoga kennslunnar sem hún fær smávægilegar greiðslur fyrir. „Ég borga 140 þúsund krónur í leigu á mánuði fyrir litla íbúð, svo það er ekki mikið eftir af mánaðartekjunum þegar ég er búin að borga leiguna,“ segir hún og bætir við að það lifi enginn mannsæmandi lífi af lífeyrisgreiðslum.  „Mér þykja lífeyrissjóðirnir gagnslitlir. Við erum skyldug að greiða til þeirra en uppskerum einungis smá þóknun úr þeim. Þeir einu sem fá eitthvað út úr sjóðunum eru stjórnendurnir sem eru með milljónir á mánuði,“ segir Guðrún Jóna.

Góð laun í Noregi

„Bíllinn minn bilaði síðast liðið haust og ég hef ekki haft efni á að láta gera við hann. Ég verð því að fá vinnu. Það var auglýst eftir hjúkrunarfræðingum til starfa í Noregi og ég athugaði málið en var sagt að þeir vildu hjúkrunarfræðinga en ekki þroskaþjálfa,“ segir Guðrún Jóna. Hún lét þó ekki deigan síga og hafði samband við fyrrverandi forstöðukonu á Sólheimum í Grímsnesi en hún starfar um þessar mundir í  Noregi. Hún benti Guðrúnu Jónu  á að hafa samband við hjúkrunarheimili í Granvin í Harðangursfirði . „Ég kom mér í samband við stjórnendurna þar og fékk strax tímabundna ráðingu. Launin Noregi eru góð, töluvert betri en hér auk þess sem frí íbúð fylgir starfinu. Vinnutíminn er 35 stundir á viku og hver vakt á sjúkrahúsinu sex tímar.“  Guðrún segir að flutningarnir leggist vel í hana. „Ég get ekki hugsað mér að lifa eins og niðursetningur á Íslandi. Það situr hins vegar svolítið í mér að ég á barnabörn á Íslandi sem mig langar að fylgjast með. Börn breytast svo mikið á stuttum tíma,“ segir hún.

Sagt upp vegna hagræðingar

Guðrún Jóna með hressum fjallgöngukonum á Kaldbak.

Guðrún Jóna með hressum fjallgöngukonum á Kaldbak.

Guðrún var forstöðumaður búsetunnar á Sólheima í Grímsnesi en í kjölfar skipulagsbreytinga þar missti hún vinnuna. Hún kann margar ótrúlegar sögur af atvinnuleitinni hér.  Hún sótti meðal annars um starf sem forstöðumaður heimilis fyrir fatlaða enda með mikla reynslu á því sviði hafði unnið árum saman með fötluðu fólki. „Á Sólheimum í Grímsnesi voru 25 starfsmenn undir minni stjórn og 43 fatlaðir einstaklingar. Á heimilinu þar sem ég sótti um vinnu voru fimm fatlaðir íbúar. Eitt af því sem ég var spurð um var hvort að ég teldi mig ráða við að sinna og stjórna þessum einstaklingum.“ Eitt sinn taldi Guðrún Jóna að hún væri búin að fá vinnu á hosteli á Suðurlandi. „Mannauðsstjórinn var tilbúinn að ráða mig og hafði sagt mér það. Svo kom yfirmaður hans ungur maður og spurði hvað ég væri eiginlega gömul. Það næsta sem hann sagði mér var að hann yrði að ráða stúlku úr sveitinni, ég fengi því ekki vinnuna. Stuttu síðar sá ég starfið sem ég hafði sótt um auglýst laust til umsóknar.“

Sótti um allskonar störf

Guðrún Jóna segist hafa sótt um allskonar störf á veitingahúsum, kaffihúsum, hótelum við skúringar en hún fái alltaf sömu spurningarnar: Hvað ertu gömul?  Heldur þú að þú ráðir við þetta? „Ég er afskaplega heilsuhraust og í góðu formi. En ég hef ekki fengið  spurningar hversu gömul ég er síðan ég var unglingur, fyrr en allt í einu núna, þegar ég er orðin 67 ára,“ segir hún. Fyrst segist hún hafa verið svekkt yfir viðbrögðunum sem hún fékk þegar hún var að leita sér að vinnu. „Svo varð þetta hræðilegt. Hræðilegt að fá ekki vinnu til að geta séð sómsamlega fyrir sér.“ Guðrún segir að aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart atvinnumálum eldra fólks sé grátbroslegt. „Stjórnvöld eru ekkert að gera í þessu. Finnst þetta ómerkilegt en það þarf svo sannarlega vitundarvakningu svo atvinnurekendur séu tilbúnir að ráða eldra fólk til starfa.“

 

Ritstjórn júní 24, 2016 09:47