Sennilega verður hún Lorie Kleiner Eckert að teljast ofur amma. Eftir hana birtist nýlega grein á vefnum considerable.com þar sem hún gefur góð ráð um skemmtilegar samverustundir með barnabörnunum. Sjálf á hún tíu barnabörn á aldrinum tveggja til 13 ára. Hún segir að það sé ekkert sjálfgefið að það sé gaman að vera með barnabörnin og ef allir eigi að skemmta sér verði að vera skipulag á hlutunum. Börn Lori og barnabörn búa öll í næsta nágrenni við hana og hún býður þeim í heimsókn á hverjum mánudegi. Yngstu börnin koma til hennar alla mánudaga en þau eldri þegar þau eru í fríi í skólanum. Hún segir að það sé ekkert nauðsynlegt að nota öll ráðin sem hún gefi, það sé hægt að velja úr. En hún er föst á því að heimsóknir eigi að vera skipulagðar fyrir fram, hvort sem heimsóknin stendur í klukkustund eða heilan dag.
En svona er barnabarnadagur Lorie. Börnin koma klukkan 9.30 að morgni og þau eru hjá henni til klukkan 16.00. Fyrstu klukkustundina leika börnin sér. Lorie segir að þau bjóði stundum vinum, frændum og frænkum í heimsókn til hennar og þessi fyrsta stund dagsins sé mikilvæg svo allir nái áttum. Börnin séu óþreytt þegar þau komi, enginn sé í fýlu og þau njóti þess að kynnast hvert öðru og tengjast. Hún segir að það sé alveg óþarfi að eiga leikföng handa krökkunum, ef þau séu til þá sé það í góðu lagi. Hún bendir hins vegar á að afar og ömmur eigi að líta í kringum sig og kenna krökkunum að nota það sem til er á heimilinu. Það sé til dæmis auðvelt að búa til tjald úr tveimur borðstofustólum og teppi, ásláttarhljóðfæri úr pottum og pönnum, lest með því að raða nokkrum stólum saman og svo framvegis. Það sem gildi sé að vera skapandi. Þegar krakkarnir hafa leikið lausum hala um stund gefur hún þeim að borða. Hún segir að börn þurfi að snarla reglulega. Lorie segir að það eigi að leyfa börnunum að hjálpa til við að undirbúa hressinguna og taka til á eftir, það gildi líka um hádegismatinn. Börnum þyki gaman að gera gagn.
Eftir morgunhressingu er söngstund. Lorie segir að börn sem eru yngri en sjö ára njóti þess að syngja. Hún segist hafa komið sér upp sönghefti með barnalögum og þau syngi hún með börnunum. Börn séu íhaldssamar sálir og þau vilji syngja sömu lögin aftur og aftur í ákveðinni röð. Þegar söngstundinni er lokið tekur við sögustund. Hún segist lesa fyrir börnin en ef eldri börn séu í hópnum láti hún þau lesa fyrir þau yngri. Eða hún lesi fyrir þau yngstu og eldri börnin lesi sjálf. Svo er það hádegisverður eitthvað staðgott í magann. Reynið að hafa matinn einfaldan börnum líkar það best, segir hún. Eftir hádegisverð er föndurtími sem hún segir að börnin elski. Lorie segir að hún noti hluti sem hún er hætt að nota í föndur, efnisbúta, tómar dósir og pappahólka úr klósett- og eldhúsrúllum, hún tíni greinar og strá í garðinum og svo framvegis. Það séu ótal hlutir sem hægt sé að föndra úr, það gildi bara að vera skapandi. Dagurinn endar svo á því að allir fara út í garð og leika sér eða þau fara út í næsta almenningsgarð eða leikvöll. Eftir inniveru dagsins finnist öllum gott að komast út. Dagurinn hjá Lorie endar svo á því að hún gefur öllum örlítið nammi áður en þau fara heim. Lorie finnst þessir mánudagar með barnabörnunum bráðskemmtilegir. Hún segist að vísu oft vera uppgefin þegar krakkarnir fara til síns heima en það sé tímabundið ástand. Það besta sé að hún viti að hún sé að skapa góðar minningar fyrir sig og barnabörnin.