Ótrúlega heillandi bók

„Ég var getin á dansgólfi í Buenos Aires árið 1927.“ Bók sem byrjar svona gefur sannarlega fyrirheit um skemmtilega sögu og Ferðabíó hr. Saito stendur undir þeim væntingum og eiginlega meira til. Þetta er gjörsamlega heillandi saga og svo frábærlega fléttuð og skrifuð að hún sogar mann að sér og heldur manni gersamlega föstum.

Það er þess vegna við hæfi að stærsti hluti bókarinnar gerist á eyju. Hún hefst í Buenos Aires, fyrst með getnaði Litu en næst víkur sögu til Fabiolu, móður hennar. Hún er skilin eftir nýfædd á dyraþrepi Magdalenuklausturs í þeirri borg. Móðir hennar dó af barnsförum og faðirinn vissi ekki sitt rjúkandi ráð og ákvað því að losa sig þannig við barnið. Fabiola fæddist fyrir tímann, var svo lítil að hún passaði í skókassi og hefði í raun alls ekki átt að lifa af en gerði það samt. Hún vex upp í klaustrinu en fljótlega verður ljóst að þessi stúlka verður ekki tamin eða felld að rútínu klausturslífs. Hvort það tengist því að hún var sett í skókassa nýfædd eða því að faðir hennar lagði á flótta eins hratt og fæturnir gátu borðið hann verður Fabiola hugfangin af skóm, fótum og dansi. Hún stingur af úr klaustrinu á hverju kvöldi til að dansa tangó fram á nótt.

Síðar fær hún starf í skóbúð og reynist hafa nánast yfirnáttúrulegan hæfileika til að para réttu skóna við réttu fæturnar. Lita upplifir sig hins vegar alltaf sem hálfgert aukaatriði í lífi móður sinnar og kemur sér upp ímynduðum vini til að draga úr einmanaleikanum og syndahafur til að demba á skammarstrikum sínum þegar þau ganga of langt. Meðan móðir hennar heillast af skóm er Lita upptekin af höndum. En svo flækist Fabiola inn í atburðarrás sem hún ræður ekki við og þarf að flýja undan yfirvöldum eftir að hafa óvart tekið þátt í uppreisn á götum úti. Þær mæðgur ætla til Parísar, þar sem konur dansa cancan á Rauðu myllunni en enda þess í stað á hrjóstrugri eyju við Nýfundnaland, Upper Puffin Island. Þarna finnur Lita öryggið sem hún leitaði að á gistiheimilinu Betlehem, undir verndarvæng þeirra Maggý og Alberts og í vináttu sinni við Oonu dóttur þeirra.

Einstakur stíll

Það sem skilur þessa bók frá öðrum er hið frumlega og ótrúlega myndmál, einstaklega vel uppbyggðar persónur og hvernig höfundur tengir saman tákn og byggir upp sterka tilfinningu fyrir manneskjum og líðan þeirra í gegnum lýsingar á hlutum og fyrirbærum. Hún notar tungumálið á djarfan og skemmtilegan hátt og þýðandanum, Jóni St. Kristjánssyni tekst ótrúlega vel að fanga þennan sérstæða stíl. Annette Bjergfeldt er dönsk en líklega hefðu flestir talið höfundinn suðuramerískan eftir lestur bókarinnar. Hér er margt sem minnir á töfraraunsæi, Gabriels Garcia Marques, Vargas Llosas og Isabellu Allende. Hér er ástin í forgrunni í öllum sínum myndum. Tryggðin, umhyggjan, sálufélagið, stutt en ástríðufull kynni, augu sem mætast, hendur sem snertast og fætur sem flækjast saman í dansi. Það er líka mikil tónlist í þessari bók, heill hljóðheimur raunar. Kannski ekki skrýtið vegna þess að Annette Bjergfeldt er einnig lagahöfundur og söngkona. Hún hefur hlotið heiðursverðlaun danska útvarpsins fyrir tónlist sína, verið tilnefnd til tveggja Grammy-verðlauna og þrettán sinnum til dönsku tónlistarverðlaunanna. Augljóslega hæfileikrík kona.

Það er eiginlega ekki hægt að hrósa þessari bók nógsamlega. Hún er svo yfirfull af kærleika og hlýju, umburðarlyndi gagnvart allri sérvisku og því sem er sérstætt í fari mannanna að það er ekki hægt annað en að elska hana á móti.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 15, 2025 07:00