Quesadillur fyrir barnabörnin

Hefðbundnar quesadillur eru mexíkóskur réttur þar sem tortillur eru lagðar saman með osti á milli. Síðan er hægt að leika sér með hráefni sem sett er með í þennan rétt. Hér er hugmynd að mjög skemmtilegu ostamauki sem er verulega bragðgott. En mjög gott er einnig að hafa bara ost, á þann hátt þykir börnum tortillurnar oft bestar.

2 chili

200 g mozzarellaostur, rifinn

100 g fetaostur

12 – 16 grænar ólífur, steinalausar

2-3 msk. kóríanderlauf, saxað

8 hveititortillur

4 msk. ólífuolía

1 tsk. paprikuduft

Hitirð ofninn í 200 °C. Saxið chilialdinin og hafið fræin með því þau gefa mikið bragð. Þeir sem vilja minna brags geta fræhreinsað þau áður en þau eru söxuð. Setjið þau svo í matvinnsluvél ásamt mozzarellaostinum, fetaostinum, ólífunum og kóríanderlaufinu. Látið vélina ganga þar til blandan er orðin að grófgerðu mauki. Hægt er að saxa allt smátt og blanda saman í skál. Setjið 4 tortillur á pappírsklædda ofnplötu. Skiptið ostamaukinu jafnt á þær og leggið hinar tortillurnar ofan á. blandið saman ólífuolíu og paprikuduft og penslið tortillurnar vel. Leggið álpappírsörk yfir og bakið í miðjum ofni í 5 mínútur. Fjarlægði þá álpappírinn og bakið áfram í 5 mínútur eða þar til tortillurnar eru farnar að taka lit. Takið þær þá út og skerið í fjóra til átta geira hverja. Þessi réttur er tilvalinn til að bjóða barnabörnunum sem koma í heimsókn um helgar en líka í partíið með bjór.

Ritstjórn janúar 24, 2021 16:01