Tengdar greinar

Nördinn sem leysti af í hljómsveit 10 ára gamall

Þórir sjóðheitur við Hammondinn.

Þórir Baldursson er orðinn 76 ára gamall og eftir litríkan tónlistarferil má með sanni segja að hann sé sá Íslendingur sem hefur náð mestum frama sem hljóðfæraleikari og framleiðandi (producer) í útlöndum í hryntónlist. Hann hefur aldrei verið sá sem stendur fremst á sviðinu en aðrir í tónlistarheiminum voru fljótir að koma auga á hæfileikabúntið frá Íslandi og vildu hafa hann með. “Hann er hinn fullkomni fagmaður,” er haft eftir tónlistarmanni sem hefur spilað með Þóri. Hann segist ekki hafa haft rænu á að láta taka af sér myndir með þessum heimsfrægu stjörnum sem hann var að vinna með. Hann eigi aftur á móti myndir af stjörnum dagsins í dag sem hann njóti að verja tíma með.

Hefur starfað með mörgum af stærstu stjörnunum

Þórir hefur starfað og spilað með mörgum stærstu sjörnum heims og bjó lengi í útlöndum. Íslendingar vita margir hverjir ekki hversu stórt nafn Þórir er búinn að vera í tónlistarheiminum en núna, 76 ára gamall, er hann sannarlega orðinn að tónlistargoði meðal þeirra sem vit hafa á.

Þórir fór til Svíþjóðar og Finnlands með hljómsveit Karls Lilliendahl 26 ára gamall og þaðan lá leiðin til Munchen. Þar komst hann fljótlega inn í upptökuheiminn og þá var ekki aftur snúið. “Þetta var á áttunda áratugnum og þá var allt kraumandi í Munchen og mikið um að vera,” segir Þórir. Á þessum tíma varð hann fljótt stórt nafn. Nöfn eins og Elton John og Boney M vildu fá hann til að vinna fyrir sig og Íslendingurinn með skrýtna nafnið vakti æ meiri athygli.

Flutti sig yfir hafið

Þórir með eina af stjörnunum sínum.

Þegar Þórir var búinn að vera í nokkurn tíma í Munchen var hann farinn að vinna mikið fyrir bandaríska tónlistariðnaðinn því hróður hans hafði borist yfir hafið. Hann þurfti því að ferðast mikið frá Þýskalandi til Bandaríkjanna og ákvað á endanum að flytjast til New York en þetta var 1980. Þar var hann m.a. að vinna fyrir Tom Molton sem var með Grace Jones á sínum snærum og Þórir starfaði töluvert með henni í frægu upptökuveri sem hét Sigma sound. En þá var skollin á kreppa í Bandaríkjunum og Þórir segir að ef hann hefði haft hugmynd um það hvað keppa þýddi hefði hann aldrei flutt þangað. Mjög mörg verkefni, sem hann hafði verið ráðinn í, féllu niður svo þá tók hann ákvörðun um að flytja heim til Íslands. “En það var ekki alveg auðvelt því þegar maður hefur verið lengi í burtu þá tekur alltaf tíma að komast aftur inn í bransann,” segir hann en fékk samt meira að gera hér þá en úti í New York.

Aftur til New York

Önnur stjarna rís hátt.

Þórir fór svo aftur til New York í þrjú ár til að vinna með tónlistarmönnum við upptöku á svokallaðri R&B tónlist eða rhythm and blues. 1990 var hann svo alkominn heim og hefur auðgað tónlistarlíf okkar Íslendinga ríkulega síðan. Þórir fór fljótlega að kenna jasspíanóleik í Tónlistarskóla FÍH þar sem hann hefur kennt í 27 ár en hætti því í fyrra. Faðir Þóris var lífskúnstner sem spilaði á harmonikku í hljómsveit milli þess sem hann fór á sjóinn. Fyrsta hljóðfærið sem Þórir spilaði á var því harmonikka. Þaðan fór hann yfir á píanóið og þannig þróaðist ferillinn smátt og smátt.

Pabbi kallaði  strákinn í afleysingar

“Pabbi kom siglandi til Keflavíkur frá Dalvík þar sem hann fæddist. Hann var tónlistarmaður í frístundum og spilaði í hljómsveit sem kom m.a. fram í Ungó í Keflavík. Þegar píanóleikarinn í hljómsveitinni forfallaðist kallaði pabbi mig til.” Þá var Þórir aðeins 10 ára gamall. Þórir byrjaði því snemma að vinna sem atvinnutónlistarmaður en fór þó í MR eftir grunnskóla. Eftir þrjú ár þar var hann búinn að gera sér grein fyrir því að hugur hans stefndi lóðbeint í tónlistina.

Hefur alltaf verið tækjanörd

Þórir hefur tekið Hammondorgelið, sem hann eignaðist 1968, margoft í frumeindir og sett saman aftur. “Þetta er hluti af nördaskapnum í mér,” segir hann og hlær. En fyrir bragðið er hann sá sem veit mest um Hammondorgel á Íslandi og hefur gert upp allmörg slík. “Ég hef alltaf verið tækjanörd. Pabbi var mikill handverksmaður, mjög laginn smiður og mikill “bílskúramaður”. Ég hef líklega erft eitthvað af því,” segir hann.

Þórir hefur töluvert að gera í tónlistinni um þessar mundir. Hann hefur nýverið spilað á tveimur diskum, annars vegar með Sigurði Flosasyni og síðan með hljómsveitinni

Afmæliskort frá afabarni.

Gammar en í þeirri hljómsveit hafa verið frá upphafi, auk Þóris, þeir Stefán S. Stefánsson og Björn Thoroddsen. “Svo dettur alltaf inn eitt og eitt útsetningarverkefni,” segir hann. “Ég er mjög ánægður með lífið eins og það er. Ég hef mátulega mikið að gera fyrir mann á mínum aldri,” segir hann og hlær. “Ég er búinn að hafa nóg að gera um ævina og nú er mjög gott að hafa tíma til að setjast niður og velja verkefnin. Svo þykir mér óskaplega gaman að hafa tíma til að fylgjast með barnabörnunum fæðast hvert af öðru.”

Þórir er þrígiftur og á fjölda barnabarna en það yngsta fæddist í maí á þessu ári. “Barnabörnin eru krydd lífsins,” segir Þórir með áherslu og augljóst að hann nýtur þess að hafa tíma til að umgangast þau.

Áhugamaður um flug

Þórir spilar reglulega með öllum helstu tónlistarmönnum sem við eigum, hér er hann með Einari Val Scheving og Sigurði Flosasyni.

Þórir varð snemma áhugamaður um flug eins og títt er um þá sem hafa alist upp í nánd við flugvöllinn og tók einkaflugmannspróf ungur. Hann hefur komist upp á lagið með að nota svokallaðan flughermi sem hann getur kallað upp á tölvunni. “Þessi tæki eru orðin svo ótúlega fullkomin að það er eins og maður sé að stýra flugvél. Þannig fæ ég útrás fyrir flugáhugann,” segir goðsögnin og nördinn Þórir Baldursson.

 

 

 

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

 

Ritstjórn nóvember 6, 2020 07:13