Meydómur eftir Hlín Agnarsdóttur er saga af konu sem skrifar látnum föður sínum bréf í anda Kafka. Hlín ólst upp á Brávallagötunni í Reykjavík á móti Elliheimilinu Grund.
Bakkó
Yfir hverfinu gnæfir hin gotneskja kirkja og minnir á guð í upphæðum, guð sem enginn trúir á en allir leita til í nauðum, í næsta nágrenni biðsalur dauðans, fórnarlömb ellinnar í þungu lofti, gamalt konfekt í náttborðsskúffum, volgt maltið í glerflöskum klístrast á fölleitt harðplastið sem auðvelt er að þrífa, skúrepúlver í bland við hlandlykt úr gömlum lífrænum leiðslum, frelsarinn í líki dauðans fer með veggjum um völundarhús efstu daga, inni á herbergjum ljósmyndir af látnum börnum sem dóu ung úr kíghósta, tárvotur öldungur kyssir mynd af ungum syni í blómum skrýddri kistu, og gamlingjarnir eru góðir, sérstaklega hún Guðrún frá Melgerði með hann Jesú á bómull allan hringinn kringum rúmið, og saknaðarljóðin í bunkum sem harma horfnar sveitir landsins, lyngbrekkur dalanna, dúnmjúka árbakkana, sönginn í silungnum.
Þau búa beint á móti Grundinni góðu og mömmu finnst íbúðin of lítil. Samt er hún stór, fjögur herbergi, tvær stofur og tvö svefnherbergi. Langur og mjór gangur tengir öll herbergin saman eins og í heimavist eða vinnubúðum, miðjuna vantar, hjartanu hefur verið úthýst af arkitektinum. Innst er svefnherbergi systranna sem snýr út að götunni ásamt stofunum tveim. Þið hafið lokað á milli þeirra, hafið lagt aðra undir ykkur og hvítvoðunginn en í hinni er stássstofan með sófasetti, málverkum og hansahillum, fullum af bókum. Fremst á ganginum er svefnherbergi tvíburanna sem snýr út í steinsteypt portið ásamt eldhúsinu. Lítil og þröng geymsla á löngum ganginum nýtist ekki aðeins sem skógeymsla og hengi fyrir úlpur og yfirhafnir heldur líka sem skammarkrókur, fangaklefi þar sem hægt er að læsa okkur inni ef við erum til vandræða. Sem betur fer er lítill skjár á klefanum svo við köfnum ekki úr loftleysi eða deyjum úr myrkfælni. Sá sem lendir oftast í geymslunni er litlibró, því miður og innilokunarkenndin þjakar hann fram eftir öllu. Við hliðina á geymslunni eru bakdyrnar út í portið og bakgarðana með sundinu á milli sem við köllum Bakkó. Það verður aðalleikvöllur hverfisins, óaðskiljanlegur hluti bernskunnar, ásamt gamla kirkjugarðinum og Tjörninni. Lífið í Bakkó smýgur inn í hlustir á björtum vorkvöldum, lokkar og laðar með leikjum og ævintýrum. Hún heyrir hamarshögg í húsasundi, söngl í konu á svölum, bölv í karli í skúr, börn að leik; bak við hús í steinsteyptu porti stóð eitt sinn ryðguð tunna sem tók að sér brotið mandólín og skælandi balalæku og gott ef ekki gítar líka.
Þau eiga helst að ganga inn Bakkómegin. Ekki koma inn á skítugum skónum að framanverðu. Skórnir eiga að fara inn í geymsluna og þar mynda þeir táfýludaun og þungt loft. Mamma vill hafa allt hreint og fínt þótt börnin séu vart komin af barnsaldri. Það skiptir hana máli að allt líti vel út á yfirborðinu, að börnin séu vel klædd, að allt sé fallegt og smekklegt innanstokks, samt er mamma aldrei nógu ánægð með húsgögnin sem þú útvegar í gegnum dularfull viðskiptasambönd, briddsvini og gamla sprúttsala sem hafa efnast nógu mikið til að verða að heildsölum. Það eru ekki bara húsgögnin sem þú útvegar heldur líka fötin á börnin, eiginkonuna og sjálfan þig.
Þú ert sérfræðingur í vefnaðarvöru og vinnur nú sem sölumaður í heildsölu eins og Hermann, pabbi hans Kafka. Þú veist allt um efni og galdrar fram allt sem fjölskyldan þarf, handklæði, rúmföt, gardínur, bæði þykkar og þunnar, stóris með ýmiss konar munstri svo ekki sjáist inn um gluggana þegar fólk gengur nakið um heima hjá sér. Þú ert stórhuga, fljóthuga, snar í snúningum, randafluga sem flýgur hratt út um allan bæ. Situr aldrei kyrr nema rétt til að skófla í þig matinn, en þá má ekki trufla þig, því fréttirnar af endalausum vígaferlum mannskepnunnar er viðbitið með matnum. Nú verða „sagaðar“ fréttir, heyrir hún litla mín á hverjum degi. Niðursagaðar fréttir. Orð eru svo skrítin, eins og orðið krummaskítur sem notað er yfir eyrnamerg. Þegar hún er enn yngri skammar hún hund í sveitinni hjá móðursystur sinni sem heitir Krummi:
„Þú, ljótur Krummi sem kúkar í eyrun á mér,“ segir hún við hundinn.