Óli Gränz er heiti endurminninga Carls Ólafs Gränz, iðnmeistara og gleðigjafa, frá Vestmannaeyjum. Hann fæddist í Eyjum 16. janúar 1941 og hefur lagt gjörva hönd á margt á lífsleiðinni. Var ungur til sjós og síðar farsæll iðnaðarmaður, rak bílaleigu og verslun, settist á Alþingi og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, var bókaútgefandi á heimsvísu og mikilvirkur í félagsmálum. Óli segir frá æsku sinni og uppvexti, þátttöku í atvinnulífi og pólitík, einkamálum, prakkarastrikum og eldgosunum í Surtsey og Heimaey. Bókin er 315 bls. og prýdd fjölda mynda. Guðni Einarsson skráði. Útgefandi er Bókaútgáfan Hólar.
„Við Gústi minn (Ágúst Halldórsson) vorum boðaðir í röntgenskoðun upp á sjúkrahús (í Vestmannaeyjum). Ég fór heim í bað og klæddi mig í ljósar gallabuxur og hvíta skyrtu. Við komum upp á spítala og var okkur vísað inn í herbergi eða biðstofu þar sem voru 8-10 karlar fyrir, aðkomumenn sem unnu í frystitækjunum í Vinnslustöðinni. Þar inni voru líka vegleg vigt og kvarði til að mæla hæð manna. Hins vegar sást hvorki læknir né heilbrigðisstarfsmaður.
Um leið og ég birtist svona strokinn og fínn segir einn karlanna: „Já, þú ert læknirinn!“ Ég var ekkert að leiðrétta það en gat ekki sleppt tækifæri til að hafa smágaman. Ég sagði körlunum að ég þyrfti að vigta þá og mæla og skipaði þeim að hátta sig. Þeir spurðu hvar þeir ættu að setja fötin? Ég sagði að þarna væri allt þrifið oft á dag og meira að segja sótthreinsað. Þeim væri því alveg óhætt að brjóta bara fötin saman og setja þau snyrtilega á gólfið með fram veggjunum. Svo vigtaði ég þá og mældi. Þeir spurðu hvort ég þyrfti ekki að skrifa neitt hjá mér? „Nei, þegar maður er búinn að vera jafnlengi í þessu og ég þá bara leggur maður þetta á minnið,“ svaraði ég.
Um síðir kom læknirinn, kandídat úr Reykjavík, og rak upp stór augu þegar hann sá alla vertíðarkarlana á nærbuxunum, stuttum og síðum, tvístígandi á gólfinu. Hann spurði hvað væri eiginlega þarna á seyði?
„Ja, læknirinn sagði okkur að hátta okkur,“ sagði einn sem varð fyrir svörum. „Hann er líka búinn að vigta okkur og mæla,“ bætti annar við.
„Læknirinn? Hver það?“ spurði kandídatinn með furðusvip. „Þessi þarna,“ sagði maðurinn og benti á mig. Kandídatinn varð alveg brjálaður og rak mig út með það sama. Ég komst aldrei að því hvers vegna við vorum boðaðir í myndatökuna. Líklega var það vegna þess að ég fékk ungur berkla og hef verið með blett í hægra lunganu alla tíð síðan. Það kallaði á reglulegt eftirlit. Ég fór mjög þétt í röntgenmyndatökur vegna þessa og helst árlega á tímabili.“







