Gyðjur og goð í trúarbrögðum heimsins hafa yfirleitt hver sitt verkefni og almennt fellur í hlut gyðjanna að varðveita friðinn, kærleikann, heimilisánægjuna og viskuna. En þær eiga líka til kjark, baráttuvilja og stjórnkænsku. Á Gyðjudögum leitast Marta Eiríksdóttir við að draga fram þessa þætti í skapgerð skjólstæðinga sinna og tengja konur við guðsneistann innra með sér. Hún býður einnig upp á jógaþjálfun fyrir konur á breytingaskeiði, flytur fyrirlestra um orkuljósin sjö innra með hverjum einstakling og skrifar bækur. Hennar sjöunda bók er nú í smíðum.
Sumir vilja meina að breytingaskeiðið sé gjöfulasti tíminn í ævi hverrar konu. Þá rýmkist sá tími sem hún hefur aflögu til að sinna hugðarefnum sínum og jafnframt leysist úr læðingi gífurlegur sköpunarkraftur. Það má eiginlega segja að Marta sanni þessi kenningu. Frá miðjum aldri hefur hún kosið að sinna sjálfri sér á alveg nýjan hátt og deila með öðrum upplifunum og afrakstri tilrauna sinna. Marta er jógadanskennari en hvenær kynntist hún jóganu fyrst?
„Ég byrjaði í Hatha jóga árið 1987 í jógastöðinni Heilsubót en þá var ég á fyrsta ári í Kennaraháskóla Íslands og einhver hafði talað um hvað jóga væri gott fyrir námsmenn því það hjálpar til við einbeitingu og hjálpar manni að halda innri ró í gegnum krefjandi nám eða aðstæður í lífinu. Ég heillaðist strax í fyrsta jógatímanum og hef stundað jóga síðan þá og er í dag sjálf að kenna jóga og jógadans en það lærði ég í Bandaríkjunum. Þangað hef ég svo leitað reglulega í endurmenntun á þessu sviði til þess að vera ferskur jógakennari. Það má segja að aðalsmerki mitt sé dansmeðferð með aðferðum jóga en ég hef notað dansinn bæði til þess að hjálpa konum að opna fyrir kraftinn sinn en einnig til þess að styrkja jákvæða sjálfsmynd. Dansinn opnar hjarta okkar og eykur lífsgleði en það er reynsla mín og þeirra kvenna sem ég hef dansað með í gegnum árin bæði hér heima og erlendis.
Ég er einnig leiklistarkennari og hef fléttað þeim verkfærum inn í lengri námskeið sem ég hef haldið með konum en ég vinn aðallega með konum því þær eru opnar fyrir þessu ævintýralega og vilja efla anda sinn og næmi. Þær vilja hafa gaman og upplifa töfra lífsins,“ segir Marta brosandi.
Gyðjur finna gleðina innra með sér
Fyrir utan jógakennsluna hefur þú haldið námskeið undir yfirskriftinni Gyðjur & gleði og þau hafa notið mikilla vinsælda. Hver er hugmyndin að umgjörð og uppbyggingu þeirra?
„Árið 2005 fór ég fyrst á Snæfellsnes með Erni Jónssyni sjúkranuddara en við unnum þá saman þar að helgarnámskeiði með körlum og konum,“ segir hún. „Það var magnað námskeið en svo fannst mér ég ætti að halda áfram ein með svona helgar fyrir konur. Námskeið okkar Arnars Jónssonar snérist um að efla orku líkamans með dansi og jóga, slökun og nálarstungum og fleiru. Tilgangur okkar var að auka jákvæðni og styrk þátttakenda, námskeið sem tókst mjög vel.“
Á útnesjum Íslands er náttúran mögnuð og kraftar hennar auðsæir. Marta hefur undanfarið verið á Suðurnesjum með námskeið sín, nánar tiltekið á Garðskaga og það þrátt fyrir að jörð skjálfi og reglulega gjósi í næsta nágrenni. Hvernig er það eru konur ekkert uggandi þarna á útnesinu?
„Ekki hef ég orðið vör við það. Ég hef alltaf haft áhuga á að vinna með fólki, sérstaklega konum því þær eru opnari fyrir öllu því andlega en ég er næm sjálf og nýti mér gjafir mínar til þess að hjálpa öðrum að líða vel. Fyrir mörgum árum kenndi ég í grunnskóla, en ég er grunnskólakennari að mennt, og strax þá vildi ég aðstoða nemendur mína í að vera besta útgáfa af sjálfum sér. Til þess notaði ég leiklist og margt fleira óhefðbundið. Þegar skólastofan veitti mér ekki nógu mikið rými til að vaxa þá menntaði ég mig meira á þessu sviði sem tilheyrir jóga, hugleiðslu og fleira. Ég fór til Bandaríkjanna og lærði jógadans og sálardans, hefðbundið jóga og jógaflæði. Ég blanda þessu öllu saman og fæ út töfra sem hreyfa við þeim sem koma til mín á námskeið. Allt sem hjálpar okkur að byggja okkur upp elska ég og nota dansmeðferð og tónlist til þess. Að hjálpa konum að uppgötva kraftinn sinn, andlegt jafnvægi sitt og tengja betur við innri röddina sína er verkefni mitt, að tengja þær við rödd Sálarinnar því þá líður okkur best þegar við erum tengdar,“ segir Marta.
Dansinn töframeðal
„Dans er mitt „medicine“ til að hjálpa öðrum, mínar töfragáfur, eins og indjánar myndu kalla það,“ heldur hún áfram. „Ég hef margra ára reynslu af námskeiðahaldi en þau miðast öll við að efla þátttakendur með óhefðbundnum aðferðum, aðallega dansi og jóga. Hugleiðsla er partur af þessu og hvíld en hún er mjög áríðandi til að kveikja á heilunarmætti líkamans. Í hvíld, í þögninni talar guðsröddin hið innra við okkur og bendir á leiðina sem passar okkur best hverju sinni. Við erum alltaf á hreyfingu, lífið er á hreyfingu, við erum ekki sú sama í dag og við vorum fyrir ári. Þess vegna koma konur aftur og aftur til mín á þessa gyðjuviðburði því þær fá alltaf eitthvað nýtt inn í tilveru sína til að efla hamingju og lífsgleði sem er aðaltilgangur námskeiðsins.
Ég er einnig viðburðarstjórnandi að mennt frá HÍ en var í raun farin að búa til viðburði löngu áður en sú diplómagráða krýndi mig formlega. Við eigum að vera glöð, það er fæðingarréttur okkar allra en að ná að tileinka sér það er þjálfun og konur fá þessa þjálfun með í kaupbæti. Margar konur þrá að gefa sér þessa hvíld frá heimilinu. Konur eru alltaf að hlúa að öðrum en þarna fá þær að hlúa að sjálfri sér. Þetta er það fyrsta sem þær upplifa, að forgangsraða sjálfri sér framar og betur því það er bara svoleiðis að þegar þú ert vel nærð og ánægð þá gefurðu meira af þér til þeirra sem standa þér næst. Þær læra að hlúa betur að málfari sínu, hvernig við tölum, hvað við segjum, setjum inn í lífið okkar með orðanotkun okkar. Þær átta sig á þessu þegar við erum í nærandi samverustund og ræðum málin.
Margar umbreytast og fara að hreyfa sig meira eftir þessa upplifun, búa til skemmtilegra líf og gera meira sem veitir þeim ánægju. Það gerist ýmislegt eftir svona sjálfsvinnu, sumt er stórt og annað smátt en það er í raun að átta sig á því hvað maður þráir en hefur ekki leyft sér eða bara gleymt sjálfri sér í hringiðu og önnum dagsins,“ segir Marta.
Nauðsynlegt að skemmta sér
Þú talar um að efla konur, styrkja þær og gefa þeim kraft til að nýta eigin hæfileika. Hvað heldur aftur af flestum að þínu mati?
„Samviskubit og fórnfýsi dettur mér strax í hug og stundum höft sem þær hafa skapað sér sjálfar með hugsunum sínum,“ segir Marta ákveðin. „Margar konur á mínum aldri eiga svo miklu meira inni en þær nota sér til framdráttar í lífi sínu. Mér finnst sjálfri líf mitt hafa byrjað eftir fertugt þó ég hafi samt notið þess að vera móðir og eiginkona. Það var samt alltaf eitthvað sem beið mín, innri rödd sem sagði mér að það væri meira sem ég ætti að gera á þessari jörð á meðan ég væri hérna. Lífið á að vera skemmtilegt segi ég og við eigum að njóta okkar og geisla. Konur á mínum aldri eru burðarbitar samfélagsins og fjölskyldna sinna. Þær hafa skilað góðu verki innan veggja heimilisins en þá er að gera góða hluti í samfélaginu í kringum sig og kannski þess vegna fara konur oft í pólítík eftir fertugt og ná árangri.
Eftir að ég varð fertug og eldri, var ég nógu þroskuð til þess að vita að ég mætti gefa mér tíma fyrir mig og rækta mig. Sumar konur sætta sig bara við það að vera mömmur og ömmur en huga ekki að sjálfri sér í leiðinni þegar þær eldast. Ég held að við konur getum bæði verið ömmur og mömmur og einnig gefið okkur sjálfum tíma til að leika okkur. Við verðum að skemmta okkur án þess að fá samviskubit en margar konur þjást af samviskubiti ef þær taka sér frí frá fjölskyldunni og hlúa að sjálfri sér eða gera vel við sig. Mér finnst aldurinn eftir barneignir og þegar við erum komnar á ömmualdur vera frábært tímabil í lífi kvenna. Ég er alveg á því að sinna fjölskyldunni vel og það nærir okkur einnig að baða okkur í kærleikanum sem við fáum flestar með nánum ástvinum okkar. En við þurfum líka að muna eftir okkur og hleypa hæfileikunum út í umhverfi okkar.
Breytingaskeið opnar stundum fyrir daprar hugsanir hjá konum en mér finnst þetta tímabil í lífi okkar eiga að vera þegar við komum út í lífið og segjum hér er ég og þetta get ég! Konur á þessum aldri eru yfirleitt frábærir starfskraftar, verða sjaldan veikar og þurfa heldur ekki að vera heima með veikt barn. Þær hafa þroska og getu til að sækja það sem þær vilja í lífi sínu, fanga drauma sína því flestar hafa það gott fjárhagslega og eru lausar við barnastúss og það sem fylgir annasömum yngri árum. Guð bjó okkur til svona en ég held að hann vilji að við gerum meira en að ala börnin okkar upp og passa svo barnabörnin. Ég held að aðalblómatími konunnar sé hreinlega eftir fimmtugt.“
Afkastamikill rithöfundur
Líklega væri flestum nóg að hafa umturnað lífi sínu á þennan hátt en Marta er einnig sískrifandi. Hvað rak þig að tölvunni til að setja saman sögur?
„Ég hef skrifað sögur síðan ég var lítið barn. Þetta er einn af þessum meðfæddu hæfileikum mínum en ég held að okkur sé öllum gefið eitthvað einstakt í fæðingargjöf. Ég segi að við finnum þær gjafir með því að veita eftirtekt því sem okkur finnst gaman að gera. Við eigum marga leynda hæfileika held ég. Hjá mér er það meðal annars að skrifa. Ég er íslenskukennari að mennt og hef alltaf haft gaman af málinu okkar ylhýra. Ég hafði hugsað um það í þó nokkur ár að skrifa bók um líf mitt til að byrja með og þá útfrá því hvað ég hafði lært í þessum lífsins skóla. Þegar við hjónin fluttum út til Noregs þá var ég atvinnulaus til að byrja með og ákvað að tíminn væri kominn til að semja bók og það gerði ég. Fyrsta bókin sem ég skrifaði þar heitir Þjáningin er fæðingarhríð skilningsins og kemur líklega út með vorinu 2025 en hún er einskonar sjálfshjálparbók, skrifuð árið 2012. Ég þorði ekki að gefa hana út strax þá heldur gaf ég út aðrar bækur í millitíðinni.
Ég skrifaði þessa sjálfshjálparbók samt annarri á ensku, einhvers konar útgáfu af henni beint á ensku og nefndi Becoming Goddess – Embracing Your Power! Ég gaf þá bók út hjá bókaforlagi sem Louise Hay sáluga átti og rak fyrir nýja höfunda en þessa útgáfu bókarinnar ensku kostaði ég sjálf. Þetta var heilmikið ævintýri sem leiddi mig á You Can Do It! ráðstefnu Hay House i Washington árið 2012 þar sem ég kynnti bókina mína við mjög góðar undirtektir. Þetta sama ár gaf ég einnig út æskuminningar úr bítlabænum Keflavík en þaðan kem ég. Í dag er ég sem sagt að hreinrita og klára mína sjöundu bók en ætlunin er að hún komi út með vorinu,“ segir Marta.
Það er margt framundan hjá Mörtu ef þú vilt kynnast henni betur: Föstudagskvöldið 10.janúar verður hún með fræðsluerindi um nýjustu bók sína Orkuljósin sjö hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands í Reykjavík. Laugardaginn 18.janúar eftir hádegi verður hún með Jógadansnámskeið, ferðalag í gegnum orkustöðvar líkamans, einnig hjá Sálarrannsóknarfélagi Íslands.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.