Gætu íþróttafélögin mokað snjó fyrir eldri borgara?

Það er ekki hægt að segja að veturinn í höfuðborginni hafi verið snjóþungur að þessu sinni, en á því hefur orðið breyting síðasta sólarhringinn. Stundum kvartar eldra fólk yfir að það komist ekki leiðar sinnar um götur og gangstíga borgarinnar að vetrarlagi, þegar ófærð og hálka er mikil. Fólk kvartar líka yfir því að snjórinn hlaðist upp í háa ókleifa hryggi meðfram göngustígum og götum.  Guðrún Helgadóttir rithöfundur sagði eitt sinn í samtali við blað Félags eldri borgara, að í útlöndum væri eldra fólk sýnilegra en hér á Íslandi og þar kæmi veðrið dálítið við sögu, eins og það var orðað. En grípum niður í blaðið.

Það er þægilegra að vera gamalmenni til dæmis í Kaupmannahöfn þar sem þú getur kannski gengið úti við velflesta daga. Mér finnst fullorðið fólk alls ekki mjög sýnilegt í þessu landi og ég held að til dæmis séum við ekki nógu dugleg að taka eldra fólk með í leikhús og á tónleika og slíkt“ Hún segir að sumir eldri borgarar séu hreinlega í veðurgíslingu í sófanum yfir vetrartímann“.

Við breytum ekki loftslaginu á Íslandi, Kaupmannahöfn er mun sunnar en Reykjavík, á 55 gráðum á meðan við erum á 64 gráðum norður, og snjóþungir vetur eru þreytandi fyrir flesta. Björn Ingvarsson hjá þjónustumiðstöð borgarlandsins  segir þeirra markmið að koma fólki á öruggan hátt um borgina, þannig að allir komist leiðar sinnar. Það sé ekki sérstaklega verið að huga að ákveðnum hópum fólks, heldur sé snjómokstri forgangsraðað miðað við þær leiðir sem séu fjölfarnastar.

Vegagerðin sér um að moka snjó af götunum, sem teljast þjóðvegir í þéttbýli, svo sem eins og Hringbraut, Miklubraut og áfram út úr bænum.  En þjónustumiðstöðin sér um að moka aðrar götur og þeim fjölförnustu er haldið opnum allan sólarhringinn. Hjólastígar og göngustígar eru einnig mokaðir, allt eftir því hversu margir fara um þá. Þegar hálka er mikil eru götur og gönguleiðir sandbornar.  Björn segir að húsagötur séu teknar eftir þörfum, en helstu umkvartanir fólks varðandi moksturinn,séu hryggirnir sem myndist þegar göturnar séu mokaðar. Þeir loki stundum fyrir innkeyrslur. „En við mokum ekki innkeyrslurnar. Það er mikill fjöldi innkeyrslna í borginni og það er ekki gerlegt að moka þær allar. Íbúarnir verða að sjá um að moka þær, en við höfum stundum velt því fyrir okkur hér, hvort t.d. íþróttafélögin sjái sér engan hag í að moka innkeyrslur hjá fólki. Það væri kjörin leið til fjáröflunar fyrir þau“.

Ritstjórn janúar 23, 2019 07:03