Sæðisprufan

Út var að koma bókin Fyrir afa – nokkrar smásögur – eftir Vestmannaeyinginn Sigurgeir Jónsson, fyrrverandi kennara og sjómann, já, einn af þeim sem forðum sóttu síldina í Norðursjóinn. Sögur hans eru býsna smellnar og auðvitað með óvæntum lokahnykk, eins og þessi hér, Sæðisprufan, sannar:

Ég var búinn að finna fyrir ákveðnum óþægindum um nokkurn tíma. Þau byrjuðu nokkru áður en ég hélt upp á áttræðisafmælið og héldu síðan áfram. Þetta lýsti sér helst sem þreyta og máttleysi og var ekkert endilega bundið við líkamlegt erfiði. Reyndar var ég alltaf dauðuppgefinn eftir hring á golfvellinum en fann líka fyrir þessu eftir minni átök, svo sem að sprauta á gluggana eða sjá um að elda kvöldmatinn.

Þar sem þetta virtist ekkert ætla að lagast, þrátt fyrir alls kyns inntökur á vítamínum og bætiefnum, ákvað ég að hringja í heimilislækninn og fá ráð. Ég fékk símatíma eftir nokkra daga og tjáði honum þá hvað væri að angra mig; ég væri ekki neinn átakamaður lengur.

„Það fylgir nú bara aldrinum, góði minn,“ sagði doktorinn og bætti svo við: „en það er svo sem allt í lagi að kíkja nánar á þetta ef það skyldi nú vera eitthvað annað. Enda sýnist mér nokkuð langt síðan þú hefur komið í skoðun.“

Eftir að hafa kannað málið, sagði hann mér að mæta í blóðprufu eftir viku og hafa þá jafnframt þvagsýni meðferðis. „Við skulum hafa þetta allt á hreinu,“ sagði hann og bætti við að hann myndi svo hafa samband við mig í sömu viku upp á framhaldið.

Ég mætti í blóðprufuna á tilsettum tíma og skilaði af mér gulum vökva. Tveimur dögum seinna hringdi doktorinn í mig og sagði mér að mæta í viðtal klukkan 11 daginn eftir.

Nú heimtaði konan að fara með mér til að fá að vita milliliðalaust hvað út úr þessu kæmi. Að sjálfsögðu var það látið eftir henni og klukkan 11 á miðvikudegi vorum við mætt niðri á heilsugæslu þar sem doktorinn vísaði okkur inn á stofuna sína.

„Ég er búinn að fara yfir þetta allt hjá þér og miðað við mann á þínum aldri, finn ég nánast ekkert athugavert,“ sagði hann og bætti svo við einhverri speki um rauð og hvít blóðkorn sem hann sagði litlu máli skipta. „Það var eins með þvagprufuna, ekki að sjá að neitt alvarlegt sé að. En ég ætla að mæla hjá þér blóðþrýstinginn, svona til öryggis,“ bætti hann svo við.

Ég var ekkert að upplýsa hann um það að ég hefði sjálfur tekið hann heima um morguninn, hugsaði með mér að kannski væru græjurnar á heilsugæslunni betri. Sú mæling skilaði nánast sömu tölum og ég hafði lesið á mínum mæli fyrr um morguninn.

„Hmm,“ muldraði doktorinn. „Þetta virðist bara vera í lagi líka, púlsinn reyndar ívið of hár en bara í góðu lagi. Segðu mér aftur hvað það er sem er að hrjá þig.“

Ég endurtók það sem ég hafði áður sagt honum um sífellda þreytu og mæði eftir jafnvel minnstu átök. „Ég treysti mér varla lengur til að fara átján honur á golfvellinum,“ sagði ég. „Það er talsverð breyting frá því sem var.“

„Það er nú kannski ekkert undarlegt með mann á þínum aldri,“ sagði doktorinn. „Úthaldið minnkar eftir því sem árin færast yfir.“

Nú fannst konunni rétt að hún fengi að láta ljós sitt skína og hún upplýsti doktorinn um að við hefðum verið í golfferð í fyrra með honum Árna, 87 ára gömlum, sem hefði leikið sér að því að spila minnst átján holur á dag og stundum meira. Reyndar gleymdi hún að taka fram að Árni þessi var fyrrverandi margfaldur meistari í skíðagöngu en ég var ekkert að blanda mér í þá frásögn.

„Já,“ sagði doktorinn. „Það er misjafnt eftir mönnum hvernig aldurinn fer í þá. Málið er að ég finn bara ekkert alvarlegt sem amar að þér. Hins vegar ætla ég að gera eina lokatilraun með þig. Mig langar að fá hjá þér sæðisprufu, það er að segja ef þú treystir þér til þess,“ sagði hann og leit á mig ákveðnum augum.

Ég gaut augum á konuna sem sýndi bara jákvæð viðbrögð svo að ég sagði: „Jú, það ætti að vera í lagi, reyndar þori ég ekki að ábyrgjast magnið núorðið og því síður gæðin.“

„Það er ekki magnið sem skiptir máli,“ svaraði doktorinn að bragði. „Án þess að lofa neinu, gæti verið að í þeirri prufu væri eitt eða tvö atriði að finna sem gætu skýrt þennan slappleika þinn. Ég ætla því að láta þig hafa dós með þér heim sem þú svo tæmir þig í eftir hentugleikum í kvöld eða nótt og skilar svo til mín strax í fyrramálið þannig að við getum úrskurðað fljótlega hvort eitthvað er á því að græða.“

Við hjónin kinkuðum bæði kolli en doktorinn fór ofan í skúffu og náði þar í grænleita dós sem hann afhenti mér.

„Þú kemur svo með þetta beint til mín klukkan tíu í fyrramálið. Er ekki í lagi með þá tímasetningu?“

Þar sem hvorugt okkar hjóna hafði orð á öðru en að það væri í lagi, lauk samtalinu og við héldum heim.

En ýmislegt fer öðruvísi en ætlað er. Kvöldið fram undan var ekkert til að hrópa húrra fyrir og eftir svefnlitla nótt mættum við enn á ný til fundar við doktorinn þar sem ég afhenti tóma, græna dós með þeim orðum að þetta hefði bara ekki gengið sem skyldi.

„Nú,“ sagði doktorinn. „Hvað klikkaði?“

Ég hagræddi mér í stólnum á móti honum og sagði honum að fyrst hefði ég reynt í gærkvöldi, fyrst með hægri hendi, svo með vinstri og loks með báðum en ekkert hefði gengið.

„Þá kallaði ég á konuna til að hjálpa mér,“ bætti ég við. „Hún reyndi fyrst með báðum höndum og síðan með tönnunum og enginn árangur. Þá datt okkur í hug að hringja í hana Dóru, nágrannakonu okkar, og biðja um aðstoð. Hún er afskaplega lagin við marga hluti og oft fljót að redda hlutunum. Hún kom en það var sama hvað hún reyndi, með báðum höndum, í  handarkrikanum og svo loks milli fótanna. En allt var við það sama og hjá okkur hjónunum, ekkert losnaði. Og rétt fyrir miðnættið gáfumst við endanlega upp. Þess vegna færðu núna tóma dós.“

„Ætlið þið virkilega að segja mér,“ sagði doktorinn og horfði spurnaraugum á okkur, „að þið hafið fengið hana nágrannakonu ykkar til að hjálpa ykkur við þetta?“

„Já,“ svaraði ég. „Og það var alveg sama hvernig við reyndum, öll þrjú. Við gátum ekki náð lokinu af andskotans dósinni.“

Ritstjórn október 23, 2024 07:00