Samband spæjarans við skapara sinn

Samband spennusagnahöfunda og spæjara þeirra hefur jafnan verið nokkuð sérstakt. Fæstir rithöfundar þurfa að búa með persónum sínum lengur en þann tíma sem tekur að skrifa eina bók en spennusagnahöfundar eyða í mörgum tilfellum ævinni með þeim og margt hendir á langri ævi.

Sir Arthur Conan Doyle var orðinn svo leiður á Sherlock Holmes að hann gerði tilraun til að drepa hann og Agatha Christie lýsti því yfir að ef hún hefði vitað að hún ætti eftir að skrifa þrjátíu bækur um Hercule Poiroit hefði hún gert hann yngri og skemmtilegri. Í síðustu bók sinni Curtain sem kom út árið 1975 dó Hercule en aðdáendur hennar sættu sig við dauða hans ólíkt lesendum Doyles sem knúðu hann til að reisa Holmes upp frá dauðum.

Hinn íslenski Erlendur Sveinsson, lögreglumaðurinn í fyrstu bókum Arnalds Indriðasonar, er um margt sérstæður. Hann er einfari og innra með honum býr sorg sem á rætur í sektarkennd vegna dauða yngri bróður hans. Endir síðustu bókar þar sem hann var aðalpersóna er á þann veg að ekki verður í annað ráðið en að Erlendur hafi orðið úti á svipuðum slóðum og bróðirinn. Undanfarin ár hafa aðrir séð um að leysa þau mál sem fjallað er um þar á meðal Flóvent og Thorson, Marion Bríem og fyrrverandi lögreglumaðurinn, Konráð.

Vissar tískusveiflur einkenna þessa tegund bókmennta og í dag virðist pendúllinn hafa sveiflast frá því að hetjan sé drykkfelldur einfari með þráhyggjukennda þörf fyrir að leysa morðmál yfir í sérkennilega einstaklinga á einhverfurófi sem hafa einstaka sýn á mál og næmt auga fyrir smáatriðum sem fara framhjá öðrum. Hér má nefna hinn einstaka Kalman, sjériff á Raufarhöfn og þernuna Molly Gray í bókum Nitu Prose. Nokkrir slíkir eru svo áberandi í sjónvarpsþáttum þar á meðal rannsóknarlögreglumaðurinn Adrian Monk, Professor T sem Ben Miller leikur í breskri útgáfu af þáttum sem upphaflega urðu til í Belgíu.

Patrick Malahide í hlutverki Roderick Alleyn.

Ekki alltaf átök

Aðrir spennusagnahöfundar eiga í mun átakaminni samböndum við sögupersónur sínar. Nefna Ngaio Marsh en Roderick Alleyn var rannsóknarlögreglumaður hjá Scotland Yard og af aðalsættum. Hið sama gildir um söguhetju Dorothy L. Sayers, Lord Peter Wimsey. Þessar tvær konur áttu það sameiginlegt með Agöthu Christie að vera upprunnar í breskri yfirstétt. Ngaio var reyndar nýsjálensk en tengsl fjölskyldu hennar við England og enskar hefðir voru mikil. Þeir Roderick og Lord Peter eiga það sameiginlegt að vera velmenntaðir heiðursmenn með næman skilning á list. Þeir eru greindir og miklir mannþekkjarar. Bæði Ngaio og Dorothy kunnu vel við persónurnar sem þær höfðu skapað. Þeim þótti jafnvel reglulega vænt um þá og vildu gjarnan veg þeirra sem mestan og bestan. Lord Peter er raunar frekar hégómlegur og svolítið ósjálfbjarga á stundum en það skrifast kannski á upprunann. Dorothy lýsti honum sem blöndu af Fred Astaire og Bertie Wooster í bókum P.G. Wodehouse. Roderick Alleyn á hinn bóginn er ákaflega fágaður maður og hlédrægur. Hann verður ástfanginn af myndlistarkonu sem hann kynnist við rannsókn morðmáls og þau giftast og eignast einn son. Ngaio vildi að hann nyti hamingju í einkalífinu.

Jill Scott lék Precious í þáttum gerðum eftir bókunum um Kvenspæjarastofu nr. 1

Það vildi Alexander McCall Smith líka að hin hlýlega Precious Ramotswe gerði líka. Hugmyndin að persónunni og kvenspæjarastofu hennar í Botswana varð til þegar Alexander McCall Smith horfði á Botswana-konu með hefðbundið vaxtarlag elta hænu. Konan ætlaði hænuna í kvöldmatinn og sennilega hefur hún enga hugmynd um að tilburðir hennar hafi kveikt neistann að einni vinsælustu bókaseríu í heiminum í dag. Alexander eða Sandy eins og hann er gjarnan kallaður fæddist í Ródesíu sem nú heitir Zimbabwe árið 1948. Hann ólst upp í Bulawayo og lauk þaðan framhaldsskólaprófi. Eftir það hélt hann til Skotlands og lauk lagaprófi frá Edinborgarháskóla en Afríka togaði í hann og því sneri hann aftur og kenndi við lagadeild háskólans í Botswana. Síðar sneri hann aftur til Skotlands og er nú heiðursprófessor í læknisfræðitengdum lögum við háskólann í Edinborg. Alexander er mjög afkastamikill. Auk bókanna um Precious Ramotswe hefur hann þegar gefið út bækur um Isabel Dalhousie sem er kvenspæjari ekki ólíkur Ms. Marple, Agöthu Christie. Fyrsta bókin í þeim flokki Sunnudagsklúbbur heimspekinganna hefur komið út í íslenskri þýðingu. Höfundurinn segir þessar tvær bókaseríur allsendis óskyldar þótt ákveðið andrúmsloft notalegheita einkenni báðar. Það má vissulega til sanns vegar færa og bæði Isabel og Precious eiga stóran aðdáendahóp um allan heim og engar líkur á að höfundur þeirra ákveði að drepa sögupersónur sínar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 6, 2025 07:00