Sérstakur skattur á fólk á hjúkrunarheimilum

 

 

Bjarni með eiginkonu sinni Brynju Eggertsdóttur.

Þegar Bjarni Kristinn Grímsson var að alast upp á Ólafsfirði á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, var Ólafsfjörður síldarbær. Börnin gerðu sér það að leik að fara í vatnsslag á síldarplaninu. Þrjú lið öttu þar kappi, Ytri púkar, Brekkupúkar og Bæjarpúkar. Þá var vinsælt hjá börnunum að fara í bíó og horfa á myndir með Roy Rogers og Zorró.  Sýnt var þrisvar í viku, tvisvar á sunnudögum og einu sinni í miðri viku.  Enginn var vegurinn um Múlann á þessum tíma og Ólafsfjarðargöngin ekki komin.  Vegurinn um Lágheiði var eini vegurinn til og frá bænum en flóabáturinn Drangur sigldi milli Akureyrar og Ólafsfjarðar. Bjarni  sem var var fæddur og uppalinn á Brekkunni átti síðar eftir að verða bæjarstjóri í heimabænum.

Fyrsta elliheimili landsins

Bjarni gegnir í dag starfi fjármálastjóra hjá Hjúkrunarheimilinu Eir. Hann er ekki ókunnugur rekstri öldrunarheimila, því þegar hann var bæjarstjóri á Ólafsfirði var hann stjórnarformaður dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hornbrekku. Það er talið að eitt fyrsta elliheimili landsins hafi verið reist í Ólafsfirði á fjórtándu öld. Það hét Kvíabekkur og var spítali og heimili fyrir gamla presta, en það þótti kostur við staðsetninguna að þar var góður aðgangur að fiskmeti. Bjarni segist hafa kynnst því í stjórn Hornbrekku að það geti verið tvíbent að vera með hjónaíbúðir í dvalarrými. Hjón eldist ekki endilega saman og rýmin séu rekin á daggjöldum frá ríkinu. Ef þau séu ekki nýtt falli daggjöldin sem fylgi þeim niður og þá missi heimilið tekjur. Það þurfi ákveðna nýtingu til að heimili geti staðið undir rekstrinum.

Greiðslur ekki í takt við þjónustuna

„Í dag er það orðið þannig að dvalarrýmin eru færri, en hjúkrunarrýmin fleiri og fólk fer veikara en áður inná hjúkrunarheimilin“, segir Bjarni.  Hann segir að það kosti sitt að reka heimilin og hver heimilismaður þurfi að taka þátt í að fjármagna reksturinn. Þannig sé lagður á eins konar skattur frá ríkinu.  „TR reiknar út kostnaðinn eftir tekjum og eignastöðu aðila og upphæðin sem þeir borga er algerlega óháð því hvernig þjónustu menn fá. Ríkið tekur þessa peninga af fólki og þeir fara ekki beint til hjúkrunarheimilisins, en hluti af þeim er kannski notaður í daggjöld ríkisins. Í raun er þetta sérstakur skattur sem menn eru að borga, skattur sem er hugsaður sem einhvers konar tekjujöfunun“, segir hann.

Þjónustan mætti vera betri

Bjarni og Brynja ásamt sonum sínum .

Aðbúnaður á hjúkrunarheimilum er mjög misjafn að sögn Bjarna, sem segir að daggjöldin skapi þannig umhverfi að þeir sem reki heimilin þurfi stöðugt að vera á tánum og spara á öllum sviðum. Það sé erfitt fyrir fólkið sem fær þjónustuna, þegar það sé alltaf verið að sjá á eftir hverri krónu. „Þetta er spurning um forgangsröðun“, segir Bjarni og telur að þjónustan á hjúkrunarheimilunum mætti vera betri. „Eldra fólkið er búið að byggja upp þetta samfélag og nú er það okkar að sá til þess að það geti átt gott líf í ellinni. Fólk er lengur heima en áður. Sveitarfélög og ríki koma til móts við þarfir þeirra sem eru heima. Þegar þeir eru hins vegar komnir yfir þann þröskuld að geta séð um sig sjálfir  á að reka þessi heimili með myndarbrag og ekki spara of mikið“, segir hann.

Missa gott fólk

Bjarni segir hjúkrunarheimilin í landinu standa frammi fyrir því að aðrar atvinnugreinar geti greitt hærra kaup en þau. „Þar af leiðandi erum við að missa mjög gott fólk, m.a. bæði hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Þetta er vandamál sem þarf að leysa með einhverjum hætti. Það er þó nokkuð um erlenda starfsmenn á heimilunum og það er verið að gera meiri kröfur en áður um að þeir læri íslensku. Umönnun er ekki bara líkamleg, hún snýr líka að andlegu hliðinni og því að geta talað við aðra“, segir hann.

Meira sjálfbjarga og kröfuharðari

„Framundan er mikil fjölgun eldra fólks og þeir sem eru að eldast núna eru meira sjálfbjarga en fyrri kynslóðir og líka kröfuharðari. Það verður meiri þrýstingur á ríkið og aðra á næstu áratugum að veita góða þjónustu. Það er líka mikilvægt að samræma þjónustu ríkisins og sveitarfélaganna með einhverjum hætti, þannig að hér verði heildstæð þjónusta fyrir aldraða. Þá þarf að veita meiru fé í þennan málaflokk þegar fólkinu fjölgar“, segir Bjarni.  Hann bendir líka á að með því að fjölga hjúkrunarrýmum sé hægt að minnka vanda Landsspítalans.

Kynntist konunni í Sjallanum

Fjölskyldan fyrir nokkrum árum.

Bjarni ólst upp á Ólafsfirði hjá foreldrum sínum, þeim Grími Bjarnasyni sem var lengi póstmeistari í bænum og Guðrúnu Sigurpálsdóttur. Þau voru bæði Ólafsfirðingar. Hann á fjögur systkini, systur sem er elst og sú eina systkinanna sem býr enn á Ólafsfirði og þrjá bræður. Hann fór sextán ára gamall til Akureyrar og settist þar á skólabekk í MA.  Bjó fyrsta árið á heimavistinni en seinna út í bæ. „Síðasta árið mitt í skólanum var ég búinn að kynnast konunni minni, sem heitir Brynja Eggertsdóttir og er Akureyringur. Við kynntumst í Sjallanum . Ég var meira og minna hjá henni lokaárið mitt í MA og við fórum að búa heima hjá tengdamömmu“.  Brynja og Bjarni eiga þrjá syni og sá fyrsti fæddist árið 1975, sama ár og Bjarni útskrifaðist sem stúdent. „Það var útskrift og gifting í júní og um haustið fluttum við til Reykjavíkur“, segir Bjarni sem er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Rífandi gangur á Þingeyri

Bjarni vann með náminu í HÍ og hefur gengt mörgum áhugaverðum störfum um ævina „Ég byrjaði að vinna í frystihúsinu árið sem ég fermdist“, segir hann og hefur ekki vílað það fyrir sér um dagana að taka að sér ný störf og sinna félagsmálum. Fyrsta starfið sem hann réði sig í eftir að hann útskrifaðist úr háskólanum var framkvæmdastjórastarf á Þingeyri, en þar sá hann um rekstur kaupfélagsins, útgerðarinnar og fiskverkunarinnar á staðnum. „Við bjuggum þar í sex ár og þetta var góður tími og skemmtilegur.  Við fórum þangað þrjú og þarna fæddust okkur yngri synirnir tveir. Það var rífandi gangur á Þingeyri á þessum tíma og þar bjuggu um 500 manns“.

Ruslið flutt til Dalvíkur

Það togaði í Bjarna að fara aftur heim til Ólafsfjarðar þegar honum bauðst bæjarstjórastaðan í heimabænum.  „Það urðu mikil skriðuföll í Ólafsfirði einmitt þegar ég flutti heim síðla sumars árið 1988. Það rigndi mikið og var ekki hægt að komast til eða frá bænum í 2-3 daga nema fljúgandi á þyrlu eða siglandi á báti. Það þurfti að hreinsa allan bæinn, en um þetta leyti var verið að byrja að grafa Múlagöngin.  Ruslahaugurinn sem blasti við úr Múlanum, skriðuföllin sléttuðu hann út, hann hvarf og hefur ekki sést síðan. Eftir þetta var ruslið úr Ólafsfirði flutt til Dalvíkur, en slíkt hafði verið talið með öllu óhugsandi nokkrum árum fyrr.

Knattspyrnuvöllurinn tveggja metra hár

Bjarni og Brynja á góðri stund.

Það var mikill uppgangur hjá Knattspyrnufélaginu Leiftri þegar Bjarni og fjölskylda fluttu þangað. Bæjarstjórnin var búin að lofa nýjum knattspurnuvelli, en sá var galli á gjöf Njarðar að vatn flæddi iðulega yfir svæðið þar sem völlurinn átti að vera og var því hugmyndin að koma upp eins konar dælukerfi til að dæla því burt, þegar á þurfti að halda. „Ég samdi við þá sem unnu við Múlagöngin að keyra mulning úr göngunum sem var settur undir knattspurnuvöllinn.  Malarpúðinn varð 2ja metra hár og sett var í hann hitalögn. Það var því hægt að nota völlinn fyrr á vorin, en aðra velli og sleppa við að þurfa að dæla vatninu í burtu“, segir Bjarni.

Alltaf haft áhuga á trúmálum

Eftir fimm ár á Ólafsfirði pakkaði fjölskyldan aftur niður og flutti til Reykjavíkur. Það höfðu orðið pólitísk átök og niðurstaðan varð að Bjarni hætti sem bæjarstjóri, þó hann hefði ekki verið pólitískt kjörinn. Hann tók við stöðu fiskimálastjóra og var síðasti maðurinn til að gegna því embætti, þar sem Fiskifélagið, sem virkaði eins og sjávarútvegsráðuneyti hér áður fyrr, minnkaði verulega starfsemi sína árið 1999, en Fiskistofa og Hagstofan tóku við flestum verkefnum Fiskifélagsins.  Nokkru áður hafði Bjarni orðið formaður sóknarnefndar í Grafarvogskirkju „Ég hef alltaf haft áhuga á trúmálum“, segir hann.“ Ég hef setið á kirkjuþingi í 16 ár og verið sóknarnefndarformaður í 20 ár“.  Að auki var hann í framkvæmdastjórn Kristnihátíðarnefndar á árunum 1999 til 2000.  Hann segir að hátíðin á Þingvöllum hafi ekki verið jafn fjölmenn og búist var við. „Þjóðvegahátíðin mikla sem var haldin nokkrum árum fyrr fældi fólk frá. En það komu milli 10 og 20 þúsund manns á Þingvöll. Það var frábært veður og hátíðin var ógleymanleg“.

Við skírn barnabarns í Grafarvogskirkju.

Fólk ekki jafn líkamlega slitið og áður

Bjarni segist varla hafa haft tíma til að hugsa um það að hann sé að eldast. Það sé svo mikið um að vera hjá honum.  En fólk sé almennt farið að stunda líkamsrækt og sé ekki jafn líkamlega slitið og áður. Nútímatækni geri störfin líkamlega auðveldari. „Mín kynslóð á lífeyrisréttindi og á að geta haft það gott. Stórir hópar ferðamanna sem koma hingað eru eftirlaunafólk frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi. Við eigum líka að geta átt skemmtileg ár framundan og svo þegar að því kemur að við getum ekki séð um okkur sjálf fáum við í fyllingu tímans pláss á góðu hjúkrunarheimili þar sem séð verður um okkur“, segir hann.

Gaman að vera afi

Bjarni segist ekki hafa sérstakan áhuga á náttúrulækningum þó hann hafi tekið að sér að auglýsa Saga Pro.  „Ég byrjaði að taka það og það reyndist ágætlega. Mér finnst rétt að hlusta á góð ráð og sjá hvernig hlutirnir virka“, segir hann. Hann hefur stundað fjallgöngur, en þó minna síðast liðið ár en áður þar sem hann sleit liðband í fæti.  En  hann segist vera að byrja aftur í ræktinni og reyna eins og hægt er að halda sér í formi.  Bjarni og Brynja eiga fjögur barnabörn og tvö fósturbarnabörn.  Nú bregður svo við að þau sem eignuðust bara stráka, eiga bara afa- og ömmustelpur, en annað fósturbarnabarnanna er hins vegar strákur.  Bjarna finnst frábært að vera afi. Elstu afastelpurnar búa að vísu í Noregi með foreldrum sínum, en þegar þær koma heim á sumrin drífur Bjarni þær norður til að veiða á bryggjunni í Ólafsfirði, eins og hann gerði sjálfur lítill drengur.

Synir, tengdadætur og barnabörn um síðustu jól.

 

 

Ritstjórn janúar 20, 2017 12:52