Billy Budd, sjóliði, er síðasta bók ameríska rithöfundarins Hermans Melville. Allir þekkja söguna af Ahab skipstjóra og eltingaleik hans við stóra hvíta hvalinn, Moby Dick, þótt ekki allir hafi lesið hana. Billy Budd, er af allt öðrum toga. Söguhetjan er ungur, myndarlegur og indæll maður. Hann er ræður sig á kaupskip í breska kaupskipaflotanum seint á átjándu öld en er síðan neyddur til að ganga í sjóherinn.
Billy er bjartsýnn og tekur þessu af jafnaðargeði. Hann ætlar að standa sig vel. Líf hans breytist hins vegar mjög til hins verra vegna þess að John Claggart agameistara skipsins líkar illa við hann. Ástæða þess er óljós. Hugsanlega öfundar eldri maðurinn þann yngri og kannski er bara um að ræða meðfædda illkvittni og illsku Johns. Billy er því hins vegar vanastur að fólki líki vel við hann og honum finnst þess vegna erfitt að trúa að Claggart sé raunverulega illa við hann.
John Claggart reynir að tæla Billy til að samþykkja að taka þátt í uppreisn um borð en þegar það tekst ekki fer hann engu að síður til Edwards Vere og segir honum að Billy sé að vinna að því að fá aðra skipverja í lið með sér og æsa til uppreisnar. Billy stamar þegar hann kemst í tilfinningalegt uppnám og frammi fyrir skipherranum og agameistaranum verður honum orða vant eftir að bornar hafa verið á hann þessar upplognu sakir. Billy slær út hendi hittir John í ennið og drepur hann. Skipherrann er þar með í vondri stöðu. Hann trúir sögu Billy um að hann sé saklaus af áburði Claggarts og því að hann hafi ekki ætlað sér að drepa hann. En sjóherslögin eru harðneskjuleg og ósveigjanleg. Hér er einnig margt í húfi. Edward Vere er metnaðargjarn og hann vill alls ekki að það berist út um flotann að hann geti ekki haldið uppi aga á skipi sínu eða hafi sýnt einhvers konar linkind. Hann skipar þess í dóm menn úr áhöfn skipsins sem hann veit að munu gera eins og hann segir þeim og dómurinn dæmir Billy til hengingar.
Átök góðs og ills
Hvernig fer fyrir Billy verða svo lesendur nýrrar íslenskrar þýðingar á sögunni komast að þegar þeir lesa bókina. Sögunni var ólokið þegar Herman Melville dó og kona hans og ævisagnaritari reyndu að ljúka við hana með því að geta í eyðurnar með hliðsjón af nótum hans og því sem hann hafði sagt fyrir dauða sinn. Almennt fannst mönnum þeim ekki takast vel en síðar tók annar ævisagnaritari við verkinu og vann úr handritinu og nótunum útgáfu sem þykir mun betri. Enn dúkkar fyrri útgáfan þó upp reglulega.
Vegna þess að Herman tókst ekki að ljúka við bókina er erfitt að vita hvert hann ætlaði með söguna. Hér er auðvitað um ræða klassíska sögu af góðum, svolítið barnalegum manni í ósanngjarnri baráttu við vondan einstakling. Hið góða sigrar sannarlega ekki alltaf og Herman hafði sannað í sögunni af Moby Dick að hann gerði sér fulla grein fyrir að réttlæti heimsins er svona og svona. Hann var einnig fyllilega meðvitaður um hversu hörð og miskunnarlaus lög breska sjóhersins voru.
Nokkru fyrr en sagan af Billy Budd gerist voru uppreisnir tíðar um borð í skipum hans hátignar, Georgs III og allir þekkja söguna af uppreisninni á Bounty. Í sjálfu sér ekki undarlegt að menn reyndu að taka völdin af yfirmönnum sínum því grimmdin var mikil um borð í skipunum og aðbúnaður mannanna hræðilegur. Í viðleitni til að koma í veg fyrir frekari valdatökur um borð í herskipum voru sett mjög ströng viðurlög við öllu sem kallast gat agabrot.
Saga Melville-fjölskyldunnar
Baldur Gunnarsson þýðandi bókarinnar á íslensku skrifar áhugaverðan formála þar sem hann veltir fyrir sér þeim siðferðilegu og trúarlegu átökum sem lýsa sér í gegnum söguna af Billy Budd. Hann rekur einnig ævi Herman Melville og lífsreynsla hans endurspeglast í þeim bókum sem hann skrifaði. Faðir Hermans var kaupsýslumaður og naut velgengni sem slíkur til að byrja með. Herman og systkini hans ólust því upp við allsnægtir en misstu það allt þegar faðirinn varð gjaldþrota. Herman sá fyrir sér meðal annars með sjómennsku og var um tíma á hvalveiðiskipi. Hann hóf að skrifa eftir að hann kom í land og fyrstu bækur hans nutu mikilla vinsælda og metsölu. Þegar Moby Dick kom út vissu lesendur hins vegar ekki alveg hvernig ætti að taka þeirri sögu og hið sama átti eiginlega við um Billy Budd.
Herman hefur einstakan stíl og líkt og nítjándu aldar höfundum var tamt er textinn morandi í táknum, tilvísunum í klassískar bókmenntir, Biblíuna og nokkurs konar vísbendingum til lesandans. Nöfn skipta til að mynda alltaf máli. Þess má geta að skipið sem Billy er á þegar hann er kvaddur í herinn heitir í sögunni The Rights of Man eða Mannréttindi, eins Baldur þýðir það. Þegar Billy fer frá borði og um borð í Óbugandi, flotaskip hans hátignar, kallar hann: „Kærar kveðjur til þín, gamla Mannréttindi.“ Hér er auðvitað verið að gefa lesandanum í skyn að Billy sé ekki bara að kveðja skip heldur almenn mannréttindi sín við það að ganga í sjóherinn.
Þetta er áhugaverð saga og í dag almennt talin önnur bestu bóka Hermans, aðeins Moby Dick sé betri. En það er ómögulegt að segja hvor hefði orðið ofan á ef Herman Melville hefði enst aldur til að klára Billy Budd. Hins vegar er þessi saga ótrúlega áleitin og umhugsunarverð. Þetta er einmitt ein þeirra bóka sem gaman er að taka fyrir í bókaklúbbi og heyra vangaveltur annarra um þá örlagaríku atburði sem þarna verða, ákvarðanir Edwards skipstjóra og hver endalok sögunnar urðu.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.