Guðný Þórarinsdóttir og Hjörtur Hjartarson eiga sumarbústað í landi Miðdals við Laugarvatn þar sem Félag íslenskra bókagerðarmanna keypti á sínum tíma land. Hjörtur var í fyrstu frábitinn hugmyndinni um að kaupa sumarbústað. Hann sagðist ekki vera neinn “sumarbústaðamaður,” segir Guðný. Þau höfðu verið töluvert með föður Hjartar í bústað sem hann keypti á gamalsaldri og Guðnýju fannst það yndislegt. “Það var einhver sveitarómantík í mér. Ég er alin upp í sveit og mig langaði til að eiga eitthvert athvarf þar sem ég gæti til dæmis dundað mér við að rækta krydd og grænmeti. Við höfðum í gegnum tíðina leigt félagsbústaði á sumrin. Það var dásamlegt og ég mæli eindregið með því. En það er öðruvísi að geta gengið að eigin stað.”
Skiptar skoðanir
“Hjörtur hefur stundum sagt að ég hefði átt að giftast smið, einhverjum sem hefði ánægju af að dunda sér í sumarbústað. Það tók mig tvö til þrjú ár að smita hann af sumarbústaðabakteríunni, og ég gafst ekki upp. Ég leitaði lengi og var orðin sérfræðingur í sumarbústaðahverfum á Suðvesturhorninu. Og ég vissi hvað ég vildi. Ég vildi ekki hafa bústaðinn í meira en tveggja tíma akstursfjarlægð frá Reykjavík, þar sem við búum. Ég skoðaði marga sem voru ansi freistandi en Hjörtur fann þeim flest til foráttu. Þeir sem ekki voru of dýrir voru í slæmu ásigkomulagi.
Viðhaldsverkefnin blöstu við og hann hryllti við tilhugsuninni. Svo kom að því að ég gat togað hann með mér að skoða bústaði. Ég veit að hann vildi gera þetta fyrir mig fyrst ég sótti þetta svona fast. Við skoðuðum nokkra og vorum búin að finna einn í Þykkvabænum en ákváðum að kíkja á annan á leiðinni í bæinn sem við höfðum frétt af fyrir tilviljun. Það skipti engum togum að við féllum kylliflöt fyrir þessum bústað. Þar kom allt saman sem við vildum og meira að segja Hjörtur sá möguleikana, sem aðallega fólust í því að ekkert þyrfti að gera nema að slappa af og lesa. Svo kom smábakslag. Gömlu hjónin sem voru að selja bústaðinn fengu bakþanka. Ég var að reyna að vera ekki spæld, en meira að segja Hjörtur varð spældur, og þá vissi ég að ég hafði unnið hann yfir. En til allrar hamingju hringdu þau aftur og sögðust vilja selja og við slógum auðvitað til. Þar með vorum við orðin sumarbústaðaeigendur og það er búin að vera mikil sæla síðan. Ef einhver er hæstánægður með að vera sumarbústaðaeigandi, þá er það Hjörtur,” segir Guðný og hlær alsæl yfir að hafa sigrað í sumarbústaðaslagnum. Það var sætur sigur.
Eru ekki í bústaðnum til að vinna
Guðný og Hjörtur vinna bæði mikið eins og gengur og nota sumarbústaðinn sem athvarf til að slaka á og lesa. “Bústaðurinn er fullkominn staður til að lesa bækur og svo erum við bæði áhugamanneskjur um matargerð. Það er svo gaman að búa til og borða góðan mat í sumarbústað. Svo er mikill kostur hvað það er stutt í dásamlega staði sem rækta og selja ferskar afurðir, staði eins og Engi, Flúðir, Silfurtún, Friðheima og Stóru Reyki, en þar bíður manns iðulega góðgæti á brúsapallinum: Tómatar, paprikur, egg og jafnvel rúgbrauð. Þar er sjálfsafgreiðsla og fólki er treyst til að leggja pening í kassa á brúsapallinum. Þetta er svo dásamlegt samfélag.”
Sumarbústaðalífið á vel við börn
Guðný segir að sumarbústaðalífið eigi mjög vel við barnabörnin tvö. “Hér er garðslanga sem er geysilega vinsæl og frelsi til að sprauta að vild. Hér er leikvæði og náttúran kveikir svo margar hugmyndir hjá börnunum að sögurnar fljúga. Lífið er í öðrum takti í sveitinni”.