Sigrún Hjálmtýsdóttir söngkona með meiru

Diddú lifir lífinu lifandi og söngurinn er allt um kring

Sigrún Hjálmtýsdóttir, eða Diddú eins og við þekkjum hana öll, hefur verið ein af okkar ástsælustu söngkonum allt frá því hún steig fyrst fram á sjónarsviðið 19 ára gömul. Það var með Spilverki þjóðanna 1975 en þá var framtíðin óskrifað blað en ljóst var að sviðslistir freistuðu. Leiklist kom alveg til greina en 25 ára, eða 1980, fór hún til London í Guildhall School of Music and Drama og kom heim þaðan 1985. Það  stóð til að hún færi til Ítalíu í framhaldsnám í söng en þá kom babb í bátinn. Hún átti nefnilega von á barni með manni sínum Þorkeli Jóelssyni hornleikara. Hún ætlaði þá bara að eiga barnið og fara með það með sér til Ítalíu en þá kom annað babb í bátinn. Í ljós kom að börnin voru tvö sem hún bar undir belti. “Og nú eru þessar elskur orðnar 35 ára,” segir Diddú og skellihlær. “Ég hugsaði þá með mér að ég ætlaði aðeins að hinkra heima, orðin tveggja barna móðir. Kennarinn, sem ég var búin að fá úti á Ítalíu, sagði mér að plássið myndi bara bíða eftir mér. Við fórum síðan þangað með stelpurnar þegar þær voru orðnar eins og hálfsárs og tókum þá au pair með okkur. Ég var þar í heilt ár sem nýttist rosalega vel því mér lá svo á að tileinka mér allt sem ég gat.” Síðan komu þau heim og Diddú fékk strax mjög mikið að gera. Hún er búin að vera fyrirferðarmikil í íslensku tónlistarlífi síðan, allt þar til nú á covid tímum. En það er ekki af því verkefnin bjóðist ekki. Búið var að ráða hana á tíu tónleika í desember sem var ýmist frestað eða þeir felldir niður.

Diddú hefur kennt söng í árafjöld og kennir núna í klassísku deildinni í MÍT (menntaskóli í tónlist) og líka í söngskóla Sigurðar Demetz. “Ég er alltaf á leiðinni að minnka við mig kennslu,” segir Diddú sem hefur samt ekkert dregið af sér við að koma fram. En svo margir ungir söngvarar sækjast eftir leiðsögn hennar og hún vill ekki neita efnilegu ungu fólki sem vill lærar hjá henni. “Ég man svo vel þegar ég ætlaði sjálf að fara að læra söng að ég upplifði höfnun. Ég sóttist eftir ákveðnum kennara en hún var svo eftirsótt að hún gat ekki tekið við mér. Ætli það hafi ekki þau áhrif að ég segi ekki nei við þá sem vilja koma til mín í söngnám,” segir Diddú og brosir.

Diddú var orðin 25 ára þegar hún fór í sígilt söngnám til London þar sem hún var í 6 ár. Þorkell fór með henni til að byrja með en hann komst á fastan samning hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands 1981 og fór þá heim. Þau voru því í fjarbúð í nokkur ár en Diddú lauk sínu námi ekki fyrr en 1985. Þá var hún búin með það sem nú heitir bachelorgráða.

Diddú hefur reglulega boðist að syngja í útlöndum og hefði getað byggt feril sinn upp þar. Það hefði útheimt að hún byggi úti í Evrópu sem hún var ekki tilbúin að gera. Hún var alveg sátt við hlutskipti sitt hér heima því hún hafði strax mjög mikið að gera og hefur enn. Diddú er ekki á samfélagsmiðlum og er því ekki að segja opinberlega frá því sem hún er að fást við og virðist því vera minna áberandi en reyndin er.

Mikill tími fer í söngkennsluna sem Diddú hefur gífurlega gaman af. “Söngtímarnir fara fram eftir kúnstarinnar reglum með frussutjald á milli okkar,” segir Diddú. “Það eina sem hefur ekkert breyst er söngur við útfarir. Og nú er ég gjarnan eini söngvarinn en covid hefur frekar komið niður á kórsöng.” Undanfarið hefur Diddú tekið þátt í viðburðum í streymi, til dæmist á tónleikum Siggu Beinteins og jólamessum. “Svo tók ég þátt í dásamlegum viðburðum á vegum listahátíðar en þá var ég pöntuð sem “listagjöf” heim til fólks. Vinur eða ættingi var búinn að panta listamenn til að koma heim og syngja t.d. fyrir afmælisbarn þar sem máttu vera 10 saman. Stundum fór þetta fram í stigagöngum eða bílakjallörum ef plássið var naumt og þá gátu nágrannarnir tekið þátt. Þetta var mjög gaman og gefandi fyrir mig og var fábært framtak. Þetta sýndi hvað hugmyndaauðgi getur sprottið fram í neyðinni.”

Diddú hefur aðeins einu sinni á ævinni staðið fyrir tónleikum sjálf en það var þegar hún fagnaði sextugsafmæli sínu. Annars hefur hún alltaf fengið beiðni um að taka þátt í öðrum verkefnum. Hún hefur nóg að gera en segir að einu stofnanirnar sem ekki hringi lengur séu Íslenska Óperan og Synfónían. “Síðasta hlutverkið sem ég söng var Næturdrottningin í Töfraflautunni sem var sett upp í Hörpunni fyrir 10 árum síðan og fyrir það hlutverk fékk ég viðurkenninguna Söngkona ársins. Þá var ég 55 ára en svo ekki söguna meir,” segir Diddu og brosir. “ En auðvitað verða ungir söngvarar að fá tækifæri og kynslóðaskipti eru mjög eðlileg. Ég hef sannarlega fengið mín tækifæri,” segir hún.

“Ég byrjaði mjög seint að kenna því þegar ég kom sjálf úr námi varð strax svo mikið að gera hjá mér að syngja sjálf. Svo var það fyrir 10 árum að ég prófaði að taka nemanda og það gekk mjög vel. Ég fékk hugrekkið til að miðla þekkingu minni sem var orðin allmikil og nýtist ungu fólki vonandi áfram.”

Ömmuhlutverkið segir Diddú að sé stærsta og merkilegasta hlutverkið sem hún fékk nýlega. “Nú eru barnabörnin orðin tvö og við erum svo þakklát fyrir að vera með í lífi þeirra,” segir hún. Þau koma gjarnan öll í mat til þeirra á sunnudögum en í byggingunni sem þau hjónin bættu við húsið síðast er stór stofa þar sem er risastórt borð sem er líka hægt að stækka. Þess vegna fer mjög vel um stækkandi fjölskylduna við borðhaldið.

Diddú og Þorkell búa í húsinu sem þau festu kaup á 1981 þegar hann sá lítið sumarhús auglýst til sölu í Mosfellssveitini. Hann er alinn upp neðar í dalnum þar sem faðir hans var garðyrkjubóndi. Diddú segir að þeir sem hafa alist upp í þessum dal vilji aldrei fara þaðan og hún er alveg sátt því enn njóti hún sveitaverunnar ríkulega. Þau viti nú alveg hvenær best er að ferðast til borgarinnar sökum umferðar. Í venjulegri umferð sé mjög fljótfarið alla leið vestur í bæ þar sem yngsta dóttir þeirra býr. Annar tvíburinn er búinn að koma sér fyrir í Mosfellsbænum en hin í Skerjafirði.

Diddú fer helst fjórum sinnum í viku í leikfimi til Báru. “Ég verð að gera þetta til að passa nú í vinnufötin,” segir hún hlæjandi og veit að öll hreyfing skiptir miklu máli þegar árunum fjögar. Henni þykir betra að gera æfingar í sal með leiðbeinanda á meðan Þorkell fari daglega í göngur um sveitina, sama hvernig viðrar.

Diddú hefur fengist við að mála myndir í gegnum tíðina og segir að það sé tómstundaiðja sem hún muni gera meira af. Eins og fleiri listamenn fær hún útrás á fleiri en einu sviði listarinnar. Þau hjónin eru líka með nokkrar kindur sem þau nýta sér til matar svo ljóst er að Diddú og Keli eru ekkert plat sveitafólk. Náttúran er allt um kring.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn janúar 20, 2021 08:17