„Ég fæ aldrei nóg af pólitík. Pólitík er lífið sjálft. Ég fylgist hæfilega með því sem er að gerast og finnst bara ósköp gott að horfa á þetta úr fjarlægð. Ég er sátt við minn pólitíska feril og sé ekki eftir neinu þó auðvitað hafi stundum reynt á mann,“ segir Sigrún Magnúsdóttir þjóðfræðingur og fyrrverandi ráðherra.
Hún segist kunna því vel að hafa meiri tíma fyrir sjálfa sig og sín hugðarefni. Sigrún er gift Páli Péturssyni fyrrverandi félagsmálaráðherra. Heilsu Páls hefur hrakað undanfarin ár og er hann kominn í hjólastól. „Eðli málsins samkvæmt kallar það á að ég sé meira heima,“ segir hún og bætir við að þetta sé góður félagsskapur. „Mér finnst flott að geta enn þá þrasað við karlinn minn. Við getum nú alveg talað um menn og málefni,“ segir hún og hlær.
Pólitískur ferill Sigrúnar spannar marga áratugi. Hún var í forystusveit Framsóknarflokksins og sat í ótal ráðum og nefndum á vegum flokksins. Hún sat lengi í borgarstjórn Reykjavíkur fyrst fyrir Framsóknarflokkinn en síðar fyrir R listann og var formaður borgarráðs í sex ár eða frá 1994 til 2000. Eftir að Sigrún hætti afskiptum af borgarmálefnum hóf hún nám í þjóðfræði við Háskóla Ísland þá á besta aldri. Hún undirbjó stofnun Sjómannasafns Reykjavíkur og varð síðar forstöðumaður safnsins. Sigrún var kjörin á þing 2013 og varð umhverfisráðherra í samsteypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem sat til ársins 2017.
„Mér fannst alveg ótrúlega gaman í náminu Háskólanum. Við vorum þar fimm konur á besta aldri sem höfum verið í góðu sambandi síðan en við útskrifuðumst allar 2005 og 2006. Ein þeirra sendir okkur á hverju föstudagskvöldi tölvupóst með fallegum skilaboðum. Þetta finnst mér alveg einstakt.
Í dag uni ég mér vel í ýmiskonar fræðagrúski. Ég hef verið að skrifa greinar fyrir í Fréttabréf ættfræðifélagsins og í Heima er best. Svo hef ég verið að halda fyrirlestra fyrir U3A, Háskóla þriðja æviskeiðsins. Það nú meira hvað það er þróttmikið félag. Mér finnst skemmtilegra að halda fyrirlestra en skrifa, ég er svo mikil félagsvera. Annars hef ég verið að skoða sögu Hólaskóla. Ég tel að það hafi verið rothögg fyrir byggðaþróun í landinu þegar skólinn var lagður niður og fluttur til Reykjavíkur 1802. Það var gríðarlega mikil menningarstarfsemi á Hólum. Þar hef ég hef verið að einbeita mér að því að skoða sögu þeirra fimm höfðingjasona sem síðastir útskrifuðust frá skólanum. Þeir urðu máttarstólpar í sínum héruðum. Einn þeirra Hallgrímur Scheving fór til framhaldsnáms til Kaupmannahafnar og kenndi við Bessastaðaskóla. Hann var aldrei kallaður annað en Dr. Hallgrímur. Hann hafði meðal annars mikil áhrif á Fjölnismenn,“ segir Sigrún. Hún segist líka vera að undirbúa fyrirlestur um örlög og ástir biskupsdætra. „Biskupsdætur voru „seleb“ á sinni tíð. Ég hef verið að skoða sérstaklega örlög dætra Steins biskups á Hólum, þeirra Jórunnar og Helgu. Báðar giftust þær höfðingjasonum en misstu eiginmenn sína eftir stutt hjónabönd. Þær eignuðust báðar börn með öðrum mönnum utan hjónabands skömmu eftir að þær misstu menn sína. Það þótti ekki gott og var mikið um það talað.“
Sigrún er orðin langamma. Hún segir að þau Páll reyni að vera í góðu sambandi við börn og barnabörn. „Við höfum verið með opið hús á þriðjudagskvöldum fyrir afkomendur okkar. Þá koma þeir sem hafa tíma og við eigum stund saman. Í þessum töluðu orðum er ég að undirbúa þorrablót fyrir hópin,“ segir Sigrún að lokum.