Sigurður Skúlason leikari

Það lítur út fyrir að árið verði annasamt hjá Sigurði Skúlasyni leikara. Frá því í nóvember hefur hann verið á kafi í tökum fyrir nýja sjónvarpsseríu sem verður að öllu óbreyttu frumsýnd í lok ársins.

„Tökurnar eru um það bil hálfnaðar. Þetta er glæpdrama,“ segir hann. „Mitt hlutverk er svona meðalstórt en á þessu stigi málsins get ég ekki svarað því hvort að ég leik skúrk eða góðmenni. Ég má ekki uppljóstra nokkrum sköpuðum hlut hvorki um minn karakter eða söguþráðinn,“ segir Sigurður og kímir. Hann segir að síðar á árinu séu svo fleiri verkefni fyrir sjónvarp í bígerð. Það er því í nógu að snúast.

Sigurður hefur verið einn ástsælasti leikari þjóðarinnar í áratugi, hefur leikið um 200 hlutverk á sviði auk þess sem hann hefur leikið í fjölda kvikmynda og í sjónvarpsþáttum.  Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1966, ári síðar lauk hann prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins.  Hann var fastráðinn hjá Þjóðleikhúsinu en lék einnig með Leikfélagi Reykjavíkur, Alþýðuleikhúsinu sáluga og fleiri leikhópum. Hann stóð síðast á sviði 2014. „Ég hef ekki komið nálægt leikhúsinu síðan. Ég gat hætt frekar snemma því ég var á 95 ára reglunni svokölluðu. Þegar ég lét af störfum hafði ég hugsað mér að taka eitt og eitt verkefni en svo hefur ýmislegt komið upp á svo af því hefur ekki orðið. En maður á víst aldrei að segja aldrei.  það getur vel verið að ég eigi eftir að stíga á svið aftur ef rétta tækifærið kemur.“

Sigurður vill ekki nefna eitthvað eitt uppáhaldshlutverk frá ferlinum. „Það er ekki hægt, verkefnin hafa verið mörg og misjöfn. Þetta fer allt eftir aðstæðum hverju sinni. Sum hlutverk hafa meiri vigt en önnur. Oftar en ekki er þetta þó spurning um verkið, leikstjórann, hópinn, vinnuandann. Ef allt smellur gerast galdrar. Stundum hefur þetta verið mjög gaman en það hefur líka á stundum verið jafn leiðinlegt og það hefur verið gaman.

Sigurður hefur sinnt ýmsu öðru en leiklist. Hann hefur unnið mikið fyrir Ríkisútvarpið í gegnum tíðina. „Ég fékk mörg tækifæri þar. Ég las upp, lék í útvarpsleikritum, leikstýrði, skrifaði og þýddi verk til flutnings og var með eigin þætti. Mér fannst þetta sérlega gefandi vinna og skemmtileg.“ Auk þessa hefur leikarinn lesið fjöldann allan af bókum inn á diska fyrir Hljóðbókasafn Íslands. Þegar Sigurður varð 60 ára gaf hann út hljómdisk þar sem hann flutti ljóð, sonnettur, eintöl, smásögu og nokkra söngva. Leikinn endurtók hann svo þegar hann varð sjötugur.

Þegar fólk vinnur svona mikið þarf það að vera í góðu líkamlegu formi. „Ég er í badminton tvisvar í viku og hef verið í 50 ár. Badminton er bæði áhugamál mitt og líkamsrækt. Svo geng ég og syndi mikið. Röddinni viðheld ég svo með því að lesa upphátt helst eitthvað á hverjum degi,“ segir Sigurður að lokum.

 

Ritstjórn febrúar 13, 2019 09:40