Sjálfsímyndin okkar

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

Sjálfsmynd mótast að talsverðu leyti í barnæsku, þar er grundvöllurinn. Sjálfsímyndin virðist svo það sem við sjálf bætum ofan á við lífsreynsluna. Með tímanum hef ég tekið eftir því að í raun sækir maður sjálfsmynd sína inn í sjálfan sig. Gott veganesi er því afar mikilvægt. Góð sjálfsmynd, bætt af góðri sjálfsímynd, gerir það að verkum að maður fær meira sjálfstraust. Maður þarf ekki að styðjast við annarra álit, ef eigin vissa er fyrir því að hafa gert það sem í manns valdi stendur í hverju tilviki. Sæki fólk sjálfsálit sitt inn á við en ekki í fallvalt álit umhverfis þá eru því allir vegir færir. Þá skiptir litlu þó fólk missi vinnu, hætti að vinna eða eitthvað annað óþægilegt og erfitt komi upp á í lífsins ólgusjó. Eftir sem áður er maður heill og heldur áfram og reynir að gera sitt besta.

Einn áhrifamesti eiginleiki sem maðurinn á til er aðlögunarhæfni. Það er því ástæða til að hlúa vel að þeim eiginleika og jafnvel má á vissan hátt fagna því þegar á hann reynir. Þegar fólk kemur lífi sínu í þær skorður sem það álítur heppilegar þá er ágætt að minna sig á að óvæntar hindranir geta leitt til þess að fara þarf út fyrir þær skorður og í verstu tilvikum að leggja á fjallvegi hugans, oft illfæra. Svo sem þegar ástvinur deyr eða viðlíka áfall brestur á. Þá er gott að muna að fólki er ásköpuð aðlögunarhæfni og bíða þess, oft grátandi en líka hlæjandi, eins og gengur, að vegferðin yfir fjallið taki enda. Verst er auðvitað að fara upp. Vegurinn yfir heiðina getur líka virst löng en niðurleiðin er heldur ekki hættulaus, það þarf að gæta sína að renna ekki í mölinni og detta.

Eitt er víst, fólk kemur á endanum niður á jafnsléttu og getur á ný myndað lífi sínu þær skorður sem því þykir þægilegar. Lífið er svona, skiptast á skin og skúrir, grjót og valllendi. Mikilvægast er að halda í sjálfsímyndina, muna að maður hefur eiginleika til að laga sig að aðstæðum og gera það – og er ekki upp á annarra álit kominn.

Þeir sem hafa farið „fjallvegina“ eru líka reynslunni ríkari. Þeir hafa séð víðsýnið ofan af fjallinu og fundið gleðina sem fylgir því að sigrast á erfiðleikum. Að taka á æðruleysinu og bjartsýninni er þýðingarmikið á hvaða aldri sem er, ekki á þetta þó síst við um fólk sem farið er að eldast. Gott er að grípa til allra þeirra ráða sem stuðla að góðri aðlögun. Þannig er hægt að gera sér lífið betra að skemmtilegra.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir ágúst 13, 2014 15:12